03.03.1954
Sameinað þing: 37. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í D-deild Alþingistíðinda. (3196)

145. mál, Grænlandsmál

Flm. (Pétur Ottesen):

Ég tel þess ekki þörf á þessu stigi málsins að bæta miklu við það, sem í grg. þessarar till. felst. Þar er frá því skýrt, að mál þetta, að Íslendingar ættu rétt til Grænlands, hefur verið á baugi með þjóðinni um meira en hálfrar aldar skeið. Fyrri hluta þessa tímabils var þannig háttað stjórnarfarslega fyrir Íslendingum, að þeim var óhægt um sókn í málinu. Þrjá síðustu áratugina hefur því hins vegar ekki verið til að dreifa, enda þá fastar eftir gengið af áhuga- og hvatamönnum þess, að Íslendingar krefðust hér réttar síns í þessu efni.

Árið 1925 kom mál þetta til kasta Alþingis og aftur 1931. Var þá gerð samþykkt um málið, sem allur þingheimur stóð að þar sem ríkisstj. var falið að gæta hagsmuna Íslands og réttar þess út af deilu þeirri sem þá var risin upp milli Noregs og Danmerkur um réttindi til yfirráða í Austur-Grænlandi. Var því þá slegið föstu á Alþingi, að Íslendingar gætu haft góða aðstöðu til þess að halda þar öllum sínum rétti. Fjöldi samþykkta hefur verið gerður víðs vegar um landið, er í fólust áskoranir og brýningar til Alþingis og ríkisstjórnar um að halda fast á þessum rétti vorum og að leitað yrði, ef með þyrfti, úrskurðar um réttarkröfur vorar á alþjóðavettvangi.

Ég hef nú um meira en áratugsskeið gert mitt ýtrasta til þess að slá til hljóðs fyrir því á Alþingi, að þessa réttar yrði leitað og málinu skotið til alþjóðadómstóls, ef það fengist ekki útkljáð með öðrum hætti. En Alþingi hefur ekkert aðhafzt, enda engrar forustu notið í þessu efni hjá ríkisstjórnum þeim, sem verið hafa við völd á þessu tímabili. Til upptektar þessa máls á Alþingi þing eftir þing og áskorana og samþykkta utan þings mun þó mega rekja það, að þáverandi utanrrh. skipaði þriggja manna nefnd á árinu 1948 til þess að rannsaka réttarstöðu Grænlands. En þá hefst nú sorgarsaga þessa máls fyrir alvöru. Engir mundu þó bera á það brigður, að vel hafi verið vandað til vals á mönnum í nefnd þessa. En hitt er jafnaugljóst, að með öllu var óforsvaranlega að nefndinni búið frá því fyrsta til hins síðasta. Starfsskilyrði þau, sem henni voru búin til rannsóknar á svo umfangsmiklu, vandasömu og víðtæku viðfangsefni, voru gersamlega óviðhlítandi. Þessar aðstæður hlutu að verða þess valdandi, að til beggja vona gæti brugðið um niðurstöðuna. En ég skal nú ekki frekar rekja þessa sorgarsögu hér. Það er nokkuð gert í seinni hluta þeirrar grg., sem till. fylgir. Þar er einnig bent á þann reginmun, sem á því er, hvernig Norðmenn fóru að, þegar svipað stóð á hjá þeim, hversu þeir vönduðu til alls undirbúnings réttarstöðu sinnar til ákvörðunar um 4 mílna landhelgi við strendur Noregs. Okkur stendur og mjög nærri að minnast þessa, ekki sízt fyrir það, hve oss var að því mikill styrkur um aðgerðir vorar í landhelgismálinu. — Ég þarf ekki heldur að bæta miklu við það, sem í grg. segir um hina neikvæðu niðurstöðu nefndarinnar. Þær raska ekki í mínum augum neinu um rétt Íslendinga til Grænlands, sem Jón Þorláksson orðaði svo: „að Íslendingar telja sig hafa rétt umfram aðrar þjóðir til landsnytja í þessu landi“, þ. e. Grænlandi. Ég get ekki séð, að niðurrifstill. n. eða þess nefndarmanns, sem hún aðallega beitir þar fyrir sig, afsanni í einu eða neinu kenningar dr. Jóns Dúasonar og annarra íslenzkra og erlendra fræðimanna, sem hafa tekið í sama streng um réttarstöðu Grænlands og mikið gert til þess að rannsaka það mál. Svarrit dr. Jóns Dúasonar sýnir með mjög athyglisverðum hætti, hve höllum fæti þær kenningar standa, sem dæma vilja af Íslendingum í skaut Dana allan rétt til yfirráða í Grænlandi. Og það er bersýnilegt, að margt af því, sem andstætt er rétti Íslands til Grænlands í álitinu eða fært er þar fram til andstöðu í þessu efni, á rót sína að rekja beint og óbeint til þess, hversu starfsskilyrði þau, sem nefndin átti við að búa, voru gersamlega óviðhlítandi.

Ég hef verið að bíða eftir því, að ríkis~tj. legði þetta mál fyrir Alþingi. Nú er komið á annað ár síðan kunnugt var um niðurstöður nefndarinnar. Það mun hafa verið á þinginu 1948, þegar ég bar fram fyrirspurn um það, hvað störfum n. liði, að þáverandi dómsmrh. lét orð um það falla, að hann teldi sjálfsagt að bíða með frekari aðgerðir í málinu þangað til niðurstöður nefndarinnar lægju fyrir. Lét ráðherrann orð falla á þá lund, að hvernig sem félli um niðurstöður nefndarinnar, þá mundi stjórnin að sjálfsögðu leggja málið fyrir Alþingi og það svo skera úr um það, hvað gera skyldi. Samkvæmt þessu hefði stjórnin átt að leggja þetta mál fyrir Alþingi strax í þingbyrjun. En þar sem á því hafa engar efndir orðið og langt er liðið á þing, hef ég nú lagt málið fyrir og þá vitanlega á þann hátt, sem ég tel að eigi að afgreiða það.

Það leiðir af sjálfu sér, að Alþingi getur ekki hummað fram af sér lengur að taka um það ákvörðun, hvort það ætlar að gera réttarkröfur til Grænlands eða ekki. Grænland er auðugt af náttúrugæðum í sjó og á landi. Þar eru auk annarra náttúrukosta miklar námur í jörð. Er þó harla lítið enn vitað um öll þau náttúrugæði og auðæfi á því sviði, sem þar kunna að fyrirfinnast. Valda því danskir stjórnarhættir, sem lagt hafa á það alla áherzlu að einangra landið og útiloka íbúa þess frá öllum mannlegum félagsskap. En nóg er um þessi náttúrugæði vitað til þess, að þeim verður ekki öllu lengur haldið undir hespu og lás. Grænland er næsti nágranni Íslands. Náttúrugæði Grænlands, önnur en fiskveiðar við strendur þess, verða aldrei hagnýtt til neinnar hlítar öðruvísi en að Ísland komi þar til skjalanna, þannig að það verði birgðastöð, sem verðmætin verða flutt til þann skamma tíma, sem íslaust er á þeim stöðum mörgum á Grænlandi, þar sem auðæfin eru fólgin. Þetta verður Alþingi fyrst og fremst að gera sér ljóst.

En meðan óútkljáð er um réttarstöðu Grænlands og engin ákvörðun um það tekin, hvað gera skuli af Íslands hálfu í því efni, má engan veginn til þess koma, að af hálfu þess opinbera verði farið að gera neina samninga við dönsk stjórnarvöld varðandi Grænland. Það verður því nú óhjákvæmilega á þessu þingi að taka um það ákvörðun, hvort Íslendingar ætla að gera réttarkröfur til Grænlands eða hvort þeir vilja með þögninni leggja blessun sína yfir það, að Danir verði áfram æðstráðandi til lands og sjós í hinni fornu nýlendu Íslendinga.

Ég vil svo fara fram á — það við hæstv. forseta, að hann skipti umræðunni og að málinu verði vísað til allshn.