03.03.1954
Sameinað þing: 37. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (3198)

145. mál, Grænlandsmál

Flm. (Pétur Ottesen):

Mér er eðlilega ákaflega ljúft að upplýsa það, sem hv. 1. þm. Eyf. og — að ég ætla — formaður allshn. fór fram á. Till. er alveg skýlaust orðuð þannig eins og meiningin er, að Íslendingar krefjist fulls réttar yfir Grænlandi, svo að á því er ekki neinn vafi. Og út frá því vænti ég, að hv. allshn., ef málinu verður nú vísað til hennar, meðhöndli till. Það er alveg skýlaust, að ég ætla, að að því er stefnt.

Ég skal svo í þessu sambandi, — þó að mér þyki ekki ástæða til hér á þessu stigi að fara að ræða það sérstaklega, — benda hv. form. allshn. og nm. og öðrum á þau rök, sem fyrir liggja um þann rétt, sem þessi krafa er byggð á. Það er að vísu alkunnugt, að það hafa komið hér fram nokkuð mismunandi skoðanir um þetta efni og nokkuð gagnstæðar, en því flyt ég till. hér nú, eins og ég hef oft áður gert, að sá réttur stendur skýlaus í mínum huga, að Íslendingar hafi kröfu til þess, að þetta verði gert. Og ég álít, að Grænlendingum sé miklu hagkvæmara, miðað við þá stjórnarhætti, sem Danir hafa haft á Grænlandi nú um aldir, að komast í samband við Íslendinga. Það er áreiðanlegt, að Íslendingar skilja þeirra þarfir og aðstöðu miklu betur en reynslan hefur sýnt um Dani, enda er það svo, eins og hv. 1. þm. Eyf. benti á, að þeir eru að uppruna til miklu skyldari Íslendingum en Dönum og mótaðir af umhverfi, sem er ólíkt flatneskjunni í Danmörku, þó að máske einhver blöndun sé nú orðin á þessum kynstofni við langvarandi veru Dana að undanförnu í Grænlandi.

Ég vil svo í sambandi við það, sem hér hefur komið fram hjá hv. þm., að réttara mundi vera að vísa þessu máli til utanrmn., benda á það, að þegar þetta mál hefur verið lagt hér fyrir áður, þá hefur ýmist verið gert að vísa því til utanrmn. eða allshn. En það hefur komið fram hjá utanrmn. í sambandi við meðferð þessa máls og raunar líka á öðru sviði, að utanrmn. lítur yfirleitt þannig á sitt starf, að hún sé ríkisstj. til aðstoðar á milli þinga, frekar en það að hún meðhöndli mál og afgreiði á Alþingi með svipuðum hætti og aðrar nefndir gera. Og þá reynslu hef ég í þessu máli fullkomlega fengið af starfi utanrmn. Þess vegna er það með það í huga að fá þessa till. nú afgreidda, sem ég geri það nú að minni till., að henni verði vísað til allshn., því að þessum málum er nú þannig komið, eins og ég gerði grein fyrir í minni stuttu ræðu áðan og einnig er nokkuð vikið að í grg., að Alþ. kemst ekki hjá því lengur að taka ákvörðun um það, hvort þessari kröfu verður framfylgt eða ekki. Það liggja fyrir óleyst verkefni í sambandi við hagnýtingu náttúrugæða á Grænlandi, sem ekki verða leyst öðruvísi en að Ísland komi þar að sem nauðsynlegur og óhjákvæmilegur aðili. Hins vegar kemur að sjálfsögðu ekki til mála fyrir Íslendinga, fyrr en þeir eru búnir að gera það upp við sig, hvort þeir ætla að gera alvöru úr því að halda fram þessari kröfu sinni, en þess er að vænta, að þeir reynist þar skeleggir, þegar til kastanna kemur, að fara að semja við Dani um afnot af landi voru í þeirra þágu í sambandi við Grænland. Það er vitanlega ógerningur að sporna við því lengur, að náttúruauðæfi Grænlands verði nýtt og notuð og að Ísland inni af hendi það hlutverk, sem á því kemur til með að hvíla í sambandi við þá framkvæmd, — það er nógu lengi búið að láta Grænland vera undir hespu og lás og svipta þjóðirnar afnotum þeirra hagsmuna, sem þar er um að ræða. Lengur hlítir það ekki, enda er nú Dönum orðið það ljóst, og það örlar loksins á viðleitni til ýmissa framkvæmda í því efni.

Þetta Alþ. verður því að taka um það ákvörðun á annan hvorn veginn: Ætlar það að halda fram þessari kröfu sinni, eða ætlar það ekki að gera það? Mun ég ganga fast eftir því og leggja á það mikla áherzlu, að úr þessu fáist nú skorið á Alþingi því, er nú situr, og ég veit það, ef málið fer til allshn., að form. hennar muni sjá alveg fullkomlega nauðsyn þess, að úr þessu verði skorið, og beita sér fyrir því, að málið komi aftur inn í þingið og að um þetta verði gerð þingleg ályktun. Ég held þess vegna fast við þá till. mína, með skírskotun til þess, sem ég nú hef sagt, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar.