03.03.1954
Sameinað þing: 37. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í D-deild Alþingistíðinda. (3201)

145. mál, Grænlandsmál

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé misskilningur hjá hv. flm. þessarar till., þm. Borgf., að utanrmn. sé einkum ætluð til þess og næstum eingöngu að vera ráðunautur stjórnarinnar á milli þinga. Við munum báðir ósköp vel eftir því, að mikilsverðum utanríkismálum, sem þingið hefur haft til afgreiðslu, hefur verið vísað til utanrmn., og ég man eftir málum, sem hafa fengið þar skjóta afgreiðslu. Og ef slíkt mál sem þetta, að gera kröfu til heils lands og það stórs lands, er ekki utanríkismál, þá veit ég ekki, hvað utanríkismál er, og ef þessi rök þeirra hv. þm. Borgf. og hv. þm. Barð. eru rétt, að það sé sama og að drepa mál að vísa því til utanrmn., ja, þá vildi ég segja það, að ég veit þá ekki, hvað hún hefur að gera. Það er þá bezt að leggja hana niður. Mér finnst alveg sjálfsagt mál, ef mín till. um að vísa þessu máli til utanrmn. verður annaðhvort felld eða kemur ekki til atkv., vegna þess að búið er að samþ. aðra áður, að þeir, sem að því standa, beri þegar í stað fram frv. til l. um breytingu á þingsköpunum og afnemi utanrmn. Hún hefur ekkert að gera, ef ekki má vísa svona máli til hennar, — ja, það væri þá helzt þetta á milli þinga, en ætli þessi n. sé þá miklu betri á milli þinga heldur en á þinginu? Ég skil ekki í því. Ég hygg, að það séu allt valinkunnir ágætismenn í utanrmn., og ég skil ekki, að það sé einhver hætta á ferðum að vísa mikilsverðu utanríkismáli til þeirrar n., sem um utanríkismál á að fjalla.

Ég held, að það sé líka misminni hjá hv. þm. Borgf., að þessu máli hafi áður verið vísað til allshn. Ætli það hafi ekki verið í d., áður en utanrmn. Sþ. varð til? (Gripið fram í.) Þetta kann að vera, en rangt hefur það þó verið, því að það nær auðvitað ekki nokkurri átt að vísa svona till. til allshn. og þaðan af síður til fjvn., þó að það gætu heyrt undir hana afleiðingarnar af þessari till., því að það mundi nú sennilega verða töluverður kostnaðurinn við að sækja málið fyrir Haagdómstólnum. Auk þess hef ég nú heyrt frá allgóðum heimildum, að það séu nokkrir tugir milljóna, sem ríkissjóður Dana kostar til Grænlands árlega. (Gripið fram í.) Jæja, ég þekki það nú ekki, ég hef ekki verið þar. Hitt veit ég með góðum heimildum, að það kostar ríkissjóð Dana milljónatugi árlega nú orðið að ráða yfir Grænlandi, og þegar að því kæmi,. þá heyrði slíkt auðvitað undir fjvn. En núna á þessu stigi sé ég ekki, hvað fjvn. á að gera með þetta mál, og allshn. ekki heldur. Það á hvergi annars staðar að vera en í utanrmn. Vona ég, að hæstv. forseti úrskurði það þannig að bera þá till. fyrst upp.