03.03.1954
Sameinað þing: 37. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í D-deild Alþingistíðinda. (3202)

145. mál, Grænlandsmál

Flm. (Pétur Ottesen):

Mér þykir nú mjög miður og leiðinlegt, hvað hv. 1. þm. Eyf. leggur á það mikið kapp að losa sig við beina þátttöku í afgreiðslu þessa máls í n. Ég hefði talið málið svona að óreyndu mjög vel komið í þeirri n., sem hann er formaður í. Hann er kunnur að því að vinna vel að málum hér í þingi, og mundi hann að sjálfsögðu þegar um slíkt stórmál er að ræða eins og þetta, ekki draga af sér við afgreiðslu þess. Ég gerði grein fyrir því áðan, að reynslan hefði sýnt það, að utanrmn. hefur á undanförnum árum verið óvirk í því að afgreiða mál hér í þinginu, sem til hennar hefur verið vísað. Hún hefur litið þannig á sín störf, að hún væri fyrst og fremst og aðallega til þess til orðin að vinna með ríkisstj. á milli þinga. Ég dreg hér því eðlilegar og réttar ályktanir af þeirri reynslu, sem fengizt hefur á undanförnum árum um starfsemi þessarar n. hér í þinginu, og að því leyti þarf hv. þm. ekki að vera neitt að tala um það að drepa þessa n., því að hún er sjálfdauð fyrir löngu að því er snertir afgreiðslu mála í sölum Alþingis, þó að hún sé hins vegar vel lifandi og á verði með ríkisstj. um meðferð utanríkismála utan þings eða á milli þinga. Ég dreg þess vegna réttar ályktanir af því, hvernig þessari starfsemi hefur verið hagað að undanförnu, og ég get ekki trúað, að nokkur maður geti fellt áfellisdóm yfir mér fyrir að vilja vísa þessu máli til n., sem er lifandi í starfinu, en forðast þá n., sem dauð hönd athafnaleysisins hefur hvílt yfir að undanförnu innan þings. Ég vænti þess vegna og veit, að hv. alþm. skilja vel þessa afstöðu mína, að ég vil koma málinu til þeirrar n., sem er líklegust til skjótrar afgreiðslu málsins, en ekki fara að gera till. um eða stuðla að því, að henni verði steypt hér í þinginu í neinn drekkingarhyl. Það er lífið, en ekki dauðinn, sem ég kýs þessu máli eins og öllum málum, sem ég vil beita mér fyrir.

Um kostnaðarhlið þessa máls, þá held ég, að hæstv. forseti hafi nú gert alveg fullnægjandi grein fyrir því, að það muni á öðrum vettvangi verða séð fyrir þeirri hlið málsins, þegar þar að kemur. Till. er byggð upp á því, eins og hann skýrði alveg réttilega, að áður en málinu yrði vísað til úrskurðar í alþjóðadómstóli, verði leitað samninga við þann aðilann, sem nú hefur í sínum höndum yfirráðin í Grænlandi, og þess vegna mundi gefast nóg tóm fyrir Alþingi til þess á þinglegan hátt að afgreiða þau fjárframlög, sem þyrfti til sóknar í þessu máli.

En af því að hér hefur nokkuð verið að því vikið, að hér mundi ef til vill vera stofnað til nokkuð mikils kostnaðar, — og það má vel vera. — en ég ætla, að hér sé til mikils að vinna. Og ég vil á það benda, að ekki horfðu Norðmenn í kostnaðinn af því að búa vel í haginn fyrir sjálfa sig og eyða miklu til rannsókna, þegar þeir voru að afla gagna undir þá réttarstöðu, sem þeir töldu sig hafa til þess að ákveða 4 mílna landhelgi við Noreg. Og ég hugsa, að þeir líti svo á, Norðmenn, að þeim kostnaði, sem þeir lögðu í í því sambandi, hafi ekki verið á glæ kastað fyrir Noreg. Það hafa fleiri notið góðs af því, að Norðmenn horfðu ekki í þennan kostnað, því að ef dómur Haagdómstólsins hefði ekki fallið á þá lund, þá er ekki víst, að við Íslendingar stæðum í þeim sporum, sem við stöndum nú í um útfærslu landhelgi okkar. Við höfum að vísu fengið þetta kostnaðarlaust. En Íslendingar eru ekkert of góðir til þess frekar en aðrir að bera kostnað af þeim framfara- og hagsmunamálum, sem þeir vilja beita sér fyrir á hverjum tíma. Og þeir eru menn til þess að gera það, þannig að það er alveg ástæðulaust að vera að mála hér á vegginn kostnaðargrýlu í sambandi við þetta mál. Það mun reynslan á komandi tímum og komandi árum og áratugum sanna, að rétt sé hermt hjá mér.