10.03.1954
Sameinað þing: 39. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í D-deild Alþingistíðinda. (3212)

152. mál, bátagjaldeyriságóði til hlutarsjómanna

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Í till. þeirri, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir dálítið óvenjulegri fyrirgreiðslu ríkisins um kaupgjaldsmál, enda er allur aðdragandi málsins nokkuð sérstæður og þáttur ríkisvaldsins í málinu með öllu einstæður.

Till. kveður svo á, að ríkisstj. taki að sér að koma tilteknum vangoldnum kaupgreiðslum til skila, að svo miklu leyti sem það er mögulegt, úr því sem komið er. Þetta vangoldna kaup er hluti af þeirri verðhækkun á fiski, sem bátagjaldeyrisfyrirkomulagið skapaði. Sjómenn hafa sem sagt ekki fengið sama verð fyrir sinn aflahlut og skipaeigendur hafa fengið, og til þess að þetta mætti verða, hafa verið farnar hinar furðulegustu krókaleiðir, og að því er bezt verður séð, hefur ríkisstj., þ. e. a. s. fyrrv. ríkisstj., lagt sig mjög í framkróka, til þess að takast mætti að hlunnfara sjómenn.

Árangurinn af þessari stefnu blasir svo við augum: Sjómenn hafa sætt öðru og verra verðlagi fyrir sinn fisk en útgerðarmenn fengu s. l. þrjú ár, 1951, 1952 og 1953, en þar með er ekki sögð nema önnur hlið málsins. Þar er aðeins talið tjón sjómannanna. Bein afleiðing af þessu er svo sú, að sjómennirnir finna starf sitt ekki einasta vanborgað, heldur líka vanmetið og beinlínis óvirt, og það er vissulega rökrétt ályktun. Enginn sækist að öðru jöfnu eftir því að leysa fremur af hendi þau störf, sem litin eru með vanþóknun, og þeim mun síður þegar þar er um að ræða erfiði og áhættur meiri en almennt gerist.

Forsaga málsins er rakin allýtarlega í grg. till., sem fyrir liggur á þskj. 393, en þó get ég ekki látið hjá líða að rifja hér upp stærstu atriðin.

Það er þá fyrst mála, að seint á árinu 1949 og í ársbyrjun 1950 framkvæmdi ríkisstj. stórfelldar breytingar á gengi íslenzkrar krónu. Þessar ráðstafanir mæltust mjög illa fyrir hjá almenningi og launþegum yfirleitt, en þær voru réttlættar af ríkisstj. og sérfræðingum hennar með því, að þær væru nauðsynleg ráðstöfun til þess að hleypa lífi í atvinnuvegina og þá fyrst og fremst í sjávarútveginn, sem þá var allaðþrengdur. Menn voru beðnir um að sætta sig við nokkra kjararýrnun, til þess að þjóðinni mætti takast að eignast atvinnuvegi, sem gætu staðið með blóma, og einkum var vitnað í það, að sjávarútvegurinn hlyti að taka mikinn fjörkipp við þessar ráðstafanir.

En ári síðar, eða í ársbyrjun 1951, stendur ríkisstj. frammi fyrir þeim vanda, að útgerðarvörur hafa hækkað svo í verði, að útvegsmenn sjá sér ekki fært að hefja vertíðarveiðar með eðlilegum hætti. Þeir gerðu kröfur um hærra fiskverð og beina kröfum sínum fyrst og fremst til ríkisstj. En þetta var ekki einasta vandamál fyrir ríkisstj. Þetta var einnig feimnismál fyrir hana, því að með þessari staðreynd lá það ljóst fyrir, að hrundar voru til grunna þær röksemdir, sem hún hafði fært fram fyrir þeirri stórkostlegu aðgerð að fella íslenzkt gengi, eins og gert var og áður er fram tekið. Þess vegna reyndi ríkisstj. í allri sinni glímu við þennan vanda að fara með málið eins dult og vera mátti. Hún reyndi að vísu að koma bátaútveginum af stað, en hún gerði það ekki með þeim eðlilegu vinnubrögðum að leita samninga við alla aðila, sem þar áttu hlut að máli, eða með opinberum stjórnarráðstöfunum, sem væru gerðar í samráði við Alþingi og eftir lögum. Hún hélt fundi með sínum velþóknanlegu útgerðarklíkum og samdi þar um, að veiðar skyldu hefjast gegn því, að nýtt brask yrði sett á stofn í gjaldeyrisverzlun þjóðarinnar. Að fyrirmæli ríkisstj. voru síðan auglýstar sérstakar reglur um innflutning á tilteknum vörutegundum, sem greiða ætti af andvirði fiskafurða, og var síðan nánar tiltekið, með hverjum hætti sala á slíkum gjaldeyri ætti að fara fram, en sérstök álagning leyfð á þá gjaldeyrissölu. Reglurnar voru nefndar innflutningsréttindi bátaútvegsmanna, en almennt hafa þær gengið undir nafninu bátagjaldeyrisreglur.

Hófust nú veiðarnar, og fiskverð var almennt útborgað fyrir árið 1951 með 96 aurum fyrir hvert kg af slægðum þorski með haus, og tilsvarandi verð var á öðrum fisktegundum.

Þegar árið var langt að því liðið, var alveg sýnilegt, að bátagjaldeyriságóðinn nam það háum upphæðum, að hægt var að hafa fiskverðið miklum mun hærra en þetta. Það voru fiskkaupmennirnir og aðallega hraðfrystihúsin, sem höfðu þennan gjaldeyri til meðferðar árið 1951, og gróði þeirra af honum og fiskverzluninni varð svo gífurlegur, að frystihúsin greiddu ótilkvödd út verðuppbót á þessa 96 aura, greiddu sem næst 10% verðuppbót, þannig að fiskverðið varð nálægt kr. 1.05 frá frystihúsunum. Sjómenn gerðu að sjálfsögðu kröfu til þess að fá sinn hluta af þessari aukningu á fiskverðinu, en útvegsmenn neituðu og gerðu það í fullu samræmi við fyrirskipanir Landssambands íslenzkra útvegsmanna, sem aftur naut fulltingis ríkisstj. til þess að halda þessum hlut fyrir sjómönnum. Síðan hefur þetta gengið með svipuðum hætti, 1952 og 1953, nema hvað nokkuð aðrar reglur hafa verið á hafðar í samskiptum útvegsmanna og fiskkaupenda um bátagjaldeyri og fiskverð tvö hin síðast töldu árin, en þá hefur fiskverðið verið ákveðið með þeim hætti, að hraðfrystihúsin hafa borgað út 1 kr. fyrir hvert fiskkíló. Útgerðarmenn hafa hins vegar látið fiskkaupendum eftir 55 hundraðshluta af gjaldeyrissölunni. Sjálfir hafa útvegsmenn borgað sjómönnum kr. 1.05 fyrir kg af fiskinum, en ráðstafað sjálfir 45 hundraðshlutum af gjaldeyrinum.

Það verður ekki fullkomlega séð, hverjar útkomur hafa orðið úr þessum verzlunarmáta, en vitað er þó, að útvegsmenn hafa yfirleitt fengið árin 1952 og 1953 kr. 1.18–1.25 fyrir fiskkílóið, og er þetta nokkuð breytilegt eftir því, hvert fiskurinn var seldur og um hvaða verkunaraðferðir á honum hefur verið að ræða hverju sinni. Engin verðjöfnun mun hafa farið fram á þessu.

Það voru að sjálfsögðu fullkomin afglöp af hendi ríkisstj. að ganga gersamlega fram hjá þeim aðilanum í landinu, sem er eigandi meira en þriðjungsins af öllum þeim afla, sem á land er dreginn af hálfu bátaútvegsins, þ. e. a. s. að ganga með öllu fram hjá sjómönnunum. Afleiðingin af því er svo sú, að útgerðarmenn, sem einir stóðu í sambandi við ríkisstj., töldu sig eina hafa ráðstöfunarrétt á þeim

Í Vestmannaeyjum mótmæltu sjómannafélögin þessu að sjálfsögðu og kröfðust fyllsta réttar sjómanna í samræmi við þau samningsákvæði, sem öll sjómannafélögin í Eyjum hafa, að útgerðarmenn skulu skyldir að greiða sjómönnum að lokum sama verð fyrir fiskinn og þeir hljóta sjálfir. Var fyrst reynt til þrautar að krefja þennan hlut sjómannanna eftir eðlilegum leiðum án þess að leggja það í dóm, en þegar öll sund lokuðust um að ná fram réttlátri lausn málsins eftir þeim leiðum, var ekki annað fyrir hendi en að leggja málið fyrir dómstóla.

Sjómannafélagið Jötunn í Vestmannaeyjum, sem er stéttarfélag háseta, Vélstjórafélag Vestmannaeyja og skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi ákváðu þá að hafa samstöðu um að leita réttar síns og sinna meðlima fyrir dómstóli, sjó- og verzlunardómi Vestmannaeyja, og ráku sameiginlega mál eins sjómanns gegn sinni útgerð fyrir réttinum.

Hinn 3. febr. s. l. féll dómur í því máli, dómur, sem er athyglisverður að því leyti, að hann kveður skýrt á um það, að sjómenn eigi fyllsta rétt til þess fiskverðs, sem útgerðarmenn fá fyrir fisk sinn. Á þessum dómi hljóta sjómenn að byggja þá kröfu, að almennt verði þeim goldinn sá hlutur, sem vangreiddur liggur frá þessum þremur umræddu árum.

Nú skyldi margur ætla, að málið lægi ofur einfaldlega fyrir, það væri ekki annað fyrir sjómennina að gera en að skrifa sínar upphæðir á reikninga og krefjast skila, en þetta er því miður ekki svo einfalt. Málið er allt býsna flókið, eins og ég hef þegar tekið fram, m. a. vegna samninga bátaútvegsmanna við fiskkaupmenn, sem eru nokkuð breytilegir frá ári til árs, og sömuleiðis vegna þess, að langt er um liðið frá því að fyrstu kröfurnar í þessu máli hafa skapazt. Án fyrirgreiðslu hins opinbera og samvinnu þess við sjómannafélögin er hægt að gera rétt sjómannanna lítils eða einskis virði, hvað margir dómstólar sem kveða á um réttindi hlutarsjómannanna.

Ef hver einstakur sjómaður þyrfti að leita til lögfræðings eða ef til vil] til dómstóls um sinn hlut, heyja síðan harða innheimtu með fjárnámi og uppboði, jafnvel hjá sínum. aðilanum fyrir hverja vertíð, ætti hann þess litla von, að hluturinn yrði öllu meiri en kostnaðurinn við innheimtuna. Það gæti því vel farið svo, að þessi tildæmdi réttur sjómannanna yrði lítill á borði, þótt hann sé óvéfengjanlegur hvað snertir tilkall þeirra til þess arna.

Ég tel þess vegna alveg óhjákvæmilegt, að ríkisvaldið skerist hér í leikinn og leiðrétti þessi vanskil, sem að verulegu leyti eru ríkisvaldinu sjálfu að kenna og a. m. k. öllum aðilum fremur að kenna en sjómönnunum. Þess vegna hef ég flutt þá till., sem hér liggur fyrir og að efni til má greina í þrjú atriði: Í fyrsta lagi, að ríkið viðurkenni rétt sjómanna til þess arna og ákveði að skerast í leikinn um, að hlut sjómanna verði komið til skila. Í öðru lagi kveður till. fl. um það, hver framkvæmd í aðalatriðum er nauðsynleg til þess, að árangur náist. Og í þriðja lagi kveður till. svo á um það, hver eigi að bera kostnaðinn af þessari innheimtu, sem sýnilega hlýtur að verða kostnaðarsöm, úr því sem komið er.

Ég vil þá, með leyfi hæstv. forseta, lesa yfir þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og framkvæma svo fljótt sem verða má leiðréttingu þeirra mistaka, að sjómenn hafa ekki fengið greiddan hlut sinn úr andvirði þeirra innflutningsréttinda, sem fjárhagsráð auglýsti að boði ríkisstjórnarinnar í Lögbirtingablaðinu 8. marz 1951 og í meginatriðum hafa verið í gildi síðan — og almennt nefnast bátagjaldeyrisreglur.

Framkvæmd málsins verði í meginatriðum hagað þannig, að sjómannafélögunum verði falið að safna saman kröfum viðkomandi sjómanna, hverju á sínu félagssvæði, og frá þeim sjómönnum, sem samningar þeirra ná til. Leggi félögin síðan rökstuddar kröfur fyrir ríkisstjórnina, eða þá aðila, sem hún kann að tilnefna. Ríkissjóður greiði út hinn vangoldna hlut ásamt 6% ársvöxtum frá þeim tíma, þegar eðlileg greiðsla hlutarins hefði átt að fara fram. Ríkissjóður endurkrefji svo hlutaðeigandi útgerðarmenn eða útgerðarfélög um þá upphæð, er hann greiðir þeirra vegna.

Kostnaður allur við framkvæmd málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin greiðsla til sjómannafélaganna fyrir þeirra þátt í leiðréttingu þessari, og skal sú greiðsla ákveðin 5% af kröfum þeim, sem þau leggja fram og færa sönnur á, auk áfallins málskostnaðar eftir reikningi.“

Það er á allra vitorði, hvernig sjávarútvegurinn er staddur í dag að því er varðar ráðningu dugandi manna í skiprúm. Jafnvel þeim, sem til þessa hafa sýnt hina ábyrgðarlausustu framkomu gagnvart hinu vinnandi fólki í landinu og sjómönnum þó alveg sérstaklega, er nú farið að skiljast, að eitthvað sé að, þegar þeir líta yfir árangur sinna stjórnarstarfa.

Í dagblaðinu Vísi var í gær forustugrein, þar sem drepið er á ástandið í málefnum útvegsins og togaraútgerðin einkum rædd. En þótt skórinn kreppi þar hvar harðast um þessar mundir, gegnir nokkuð svipuðu máli um bátaútveginn. Vísir veltir ástandinu fyrir sér, spyr og svarar, með leyfi forseta:

„Hvaða meinsemd er að gera vart við sig í atvinnumálum vorum? Hvað er að fara úr skorðum í atvinnukerfinu, úr því að við getum ekki lengur fengið nógu marga menn til þess að stunda aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn? Þannig spyrja margir í dag, sem af alvöru reyna að gera sér grein fyrir hinu raunverulega ástandi í atvinnumálum. Togarafloti landsmanna stendur nú svo höllum fæti, að flest skipin munu rekin með tapi, sum með stórtapi. Slíkt getur ekki staðið til lengdar. Ein meginástæðan er sú, að flotinn hefur aldrei verið í eins miklu mannahraki og nú. Hafa því flest skipin neyðzt til þess að taka óvana menn, sem ekkert kunna til sjóvinnu, og hafa afköstin við veiðarnar mikið minnkað af þeim sökum.

Þeir, sem nokkuð þekkja til útgerðar, vita, að slíkt getur riðið baggamuninn, hvort skipin bera sig eða tapa. Varla getur leikið á tveim tungum, að hér er að gera vart við sig þjóðfélagsmeinsemd, sem verður að gefa gaum. Hér er um aðvörun að ræða, sem ekki hefur enn verið alvarlega sinnt. Vér verðum að gera oss glögga grein fyrir, hvaða ástæður liggja hér til grundvallar, og leiðrétta misvægið strax, þar sem það er, og á þann hátt lækna meinið, áður en það grefur svo um sig, að alvarleg hætta stafi af. Ef við viljum frekar stunda aðra atvinnu en þá, sem þjóðinni fyrst og fremst er nauðsyn til sjálfsbjargar, þá verður að leita ástæðnanna til þess. Ástæðan hlýtur jafnan að vera fyrirbrigði, sem er hættulegt efnahagsþróun landsins, þegar til lengdar lætur.“

Þetta voru orð dagblaðsins Vísis, og vænti ég, að enginn væni mig um, að ég sniðgangi þá álit andstæðinga minna um það, hvernig málefnum útgerðarinnar er komið í dag.

Til þess að þeim mönnum, sem að þessum hugleiðingum Vísis standa, sjáist síður yfir eitt aðalatriðið í þessu vandamáli, því að þess eru dæmi, að jafnvel hinir gleggstu menn láta sér sjást yfir nærtækar skýringar, þá bendi ég hér með á þau bolabrögð, sem sjómenn voru beittir í sambandi við bátagjaldeyrinn, og það í ráðherratíð eins nánasta aðstandanda þess dagblaðs, sem nú virðist, góðu heilli, sjá þess nokkra þörf, að dugandi sjómannastétt sé til í landinu, enda þótt skilningurinn virðist nokkuð einskorðaður við taps- og gróðareikning togarafélaganna. Skal að óreyndu ekki ætlað, að þeir, sem hugsa í alvöru um þessi mál, telji það heillavænlegt, að ríkisvaldið sitji yfir umsömdum hlut sjómanna.

En yfirsjónir í stjórnarstörfum eru mannleg fyrirbrigði, og tjáir ekki um þær að sakast endalaust. Það skiptir hins vegar meginmáli, að þegar staðreyndir hafa sannað, hvað rétt er í hverju máli, þá sé mannlega brugðið við til að leiðrétta það, sem hægt er að laga, og ekki þrjózkast við með þrákelkni eða leitun fánýtra afsakana fyrir afglöpunum.

Ég held því engan veginn fram, að samþykkt og framkvæmd þessarar till. mundi leysa vandamál íslenzka sjávarútvegsins eins og þau eru í dag, því fer fjarri. En spor væri það í áttina að því marki að sannfæra sjómenn um, að störf þeirra væru metin að verðleikum og réttindi þeirra virt af ríkisvaldinu.

Ég vil svo að lokinni þessari umr. leggja til, að till. minni verði vísað til 2. umr. og hv. fjvn.