09.12.1953
Efri deild: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tel ekki fært að láta þetta frv. ganga svo til frekari meðferðar í þinginu, að ég geri ekki grein fyrir afstöðu minni og Alþfl. til þess.

Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni áðan, að með þessu frv. væru mörkuð tímamót í sögu okkar Íslendinga, það gæfi vonir, miklar vonir, því að þeir ætluðu að innleiða verzlunarfrelsi, það gæfi vonir um að gera innflutninginn frjálsan, — svo kom hæfileg ræðumannsþögn, og svo viðbótin: ef ríkisstj. treystir sér til af gjaldeyrisástæðum, — og svo kom enn þögn: en gjaldeyrisástæður eru því miður ekki góðar. — Það er vissulega ekki óeðlilegt, að hæstv. ráðh. þyrfti að lækka nokkuð tóninn, ef svo mætti segja, frá því að hann hóf mál sitt og þangað til hann var kominn svo langt sem ég rakti nú í ræðu hans. Sannleikurinn er sá, að þetta mál er hreint hégómamál, sem hefur verið reynt að telja fólki trú um að hefði verulega þýðingu fyrir fólkið í landinu og afkomu þess. Þetta hefur verið málefni, sem hefur verið samið um í sambandi við stjórnarmyndunina, að auka verzlunarfrelsið í landinu, og blöðin hafa skrifað um þetta feitletraðar greinar. Og til þess að sýna viðleitni til efnda á þessum stóru loforðum er þetta hégómamál fram borið.

Það, sem um er að ræða hér, er ekkert annað en að breyta um nafn á fjárhagsráði, sem nú er, og setja í staðinn innflutningsskrifstofu. Og í staðinn fyrir fimm menn, sem nú ráða þessum málum, þar sem mismunandi sjónarmið geta komið fram og eiga rétt á sér og eiga sína málsvara, þá eiga nú tveir með rígbundin flokkssjónarmið stjórnarflokkanna að skipa þessum málum án annarra manna íhlutunar. Þetta er meginefni frv. Það er því ekki einbert hégómamál, vegna þess að það er verið að herða á viðjunum þarna, það er verið að loka önnur ráð úti frá skipun þessara mála heldur en þau, sem mótast af hreinum flokkssjónarmiðum stjórnarflokkanna.

Fjöllin tóku jóðsótt, og fæddist lítil mús. Þetta er einhver sú auvirðilegasta mús, sem ég hef vitað fæðast eftir jafnstrangar fæðingarhríðir og á undan hafa gengið. Það er lítil mús í þessu, — ég skal játa það, — lítil og léleg, en þó er viðleitni í rétta átt á einum stað, þar sem segir í 8. gr. frv., að það skuli þó vera frjálst að byggja íbúðarhús, þar sem hver íbúð ásamt tilheyrandi geymslu, þvottahúsi og þess háttar nemur allt að 520 m3 að stærð. Þetta er spor í rétta átt. Þetta er nokkur rýmkun frá því, sem nú er, þ.e.a.s., ef ekki koma aðrar hömlur í staðinn, sem draga úr möguleikum til þessara framkvæmda, því að þess er rétt að minnast í þessu sambandi og má aldrei gleymast, að þó að staðið hafi á fjárfestingarleyfum oft og einatt til íbúðabygginga, þá er fleira, sem á hefur staðið. Hér í Rvík t.d. hefur verið hörmung og erfiði að fá aðeins lóðir undir þær hyggingar, sem fjárhagsráð hefur veitt leyfi til að byggja, fyrir utan það, sem allir vita, hversu ástatt er um peningamálin og möguleika til að fá lán til íbúðabygginga fyrir þá, sem ekki hafa nægilegt fé til að gera það af eigin rammleik. Þó skal játað, að í þessu er nokkur rýmkun frá því, sem nú er, en það er líka það eina, sem miðar í rétta átt í þessu frv.

Ég get ekki að því gert, að þessar sífelldu nafnabreytingar á þeim stofnunum, sem hafa innflutningshömlurnar með höndum, eru farnar að verða næstum spaugilegar, ef ekki væri um svo alvarlegt mál að ræða sem hér er um að ræða. Fyrst var þetta gjaldeyrisnefnd, svo innflutnings- og gjaldeyrisnefnd, síðan var það fjárhagsráð, og loksins núna á þetta að heita innflutningsskrifstofa. Það minnir á nafnabreytingar Sjálfstfl., sem fyrst, held ég, hét Sparnaðarbandalag, síðan Borgaraflokkur, svo Íhaldsflokkur og loksins Sjálfstæðisflokkur, en innihaldið var það sama allan tímann. Það voru bara nöfnin, sem breyttust. Þegar eitt nafnið var orðið óvinsælt, þá varð að fá annað nýtt, þangað til það var útslitið líka. Alveg á sama hátt er þessi nafnabreyting á þessum stofnunum, sem hafa höftin með höndum.

Ég verð að segja það, að 1. málsgr. í 1. gr. frv. sýnir í raun og veru ákaflega greinilega, hversu aumlegt fálm hér er um að ræða hjá hæstv. ríkisstj. Með leyfi hæstv. forseta, hljóðar málsgr. svo:

„Frjáls skal vera innflutningur til landsins á þeim vörum, sem ríkisstj. ákveður hverju sinni með reglugerð.“

Það skal vera frjálst, sem ríkisstj. segir að eigi að vera frjálst. Þetta er einhver sú kyndugasta lagasetning, sem ég hef þekkt. Það eðlilega í þessu máli væri að segja: Það skal vera frjáls innflutningur á vörum til landsins, en telji ríkisstj. óhjákvæmilegt að takmarka það á einhvern hátt, þá skal hún gefa út reglugerð, sem bannar, að einhverjar ákveðnar vörur séu fluttar inn, og segja til um það, hvað er bannað á hverjum tíma, hitt, sem ekki er bannað, það á að vera frjálst. En hér segir í þessari grein: Það skal vera frjáls innflutningur á þeim vörum, sem ríkisstj. leyfir frjálsan innflutning á. Ég verð að segja það, að aumari kattaþvott hef ég nú sjaldan komizt í kynni við í lagasetningu heldur en það, sem hér er fram borið.

Hæstv. ráðh. sagði réttilega í inngangi síns máls, að það væru vonir um að gefa innflutninginn frjálsan, ef ríkisstj. treysti sér til þess af gjaldeyrisástæðum, sem því miður væru nú ekki góðar. Það er vissulega rétt hjá hæstv. ráðh. Gjaldeyrisástæðurnar eru ekki góðar. Ég veit ekki betur en skuldir bankanna við útlönd séu hinar sömu nú — ef ekki heldur hærri — og þær voru fyrir ári, þ.e.a.s. milli 70 og 80 millj. kr. lausar gjaldeyrisskuldir. Ég veit ekki betur en verzlunarjöfnuðurinn sé okkur í óhag hátt á þriðja hundrað millj. kr., það sem af er árinu, nokkuð innan við 1 millj. kr. á hverjum einasta degi. Það er rétt, að verzlunarjöfnuðurinn sýnir ekki, hvernig gjaldeyrisviðskiptin hafa verið á árinu. Það hafa komið ýmsar tekjur inn aðrar en fyrir útflutningsvörur, t.d. Marshallfé, sem nú er hætt að koma inn og ekki hægt að reikna með sem tekjum lengur og hæstv. fyrirrennari núverandi viðskmrh. lýsti yfir, að við hefðum ekki þörf fyrir lengur, heldur skyldum þakka fyrir það. Það var mjög fallegur máti að þakka fyrir það, sem veitt hefur verið, en tungur segja nú, að hvort sem við eigum að þakka eða ekki þakka, þá muni nú greiðslunni vera ráðstafað hvort sem er um mitt þetta ár. En það kemur nú ekki þessu máli við. Það er víst, að slíkra framlaga er ekki að vænta fyrst um sinn a.m.k.

Þá eru aðrar tekjur, sem ekki koma inn í verzlunarjöfnuðinn. Það eru tekjur af starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og utan um það. Það eru tekjur, sem nema geysifjárhæðum, að mér er sagt, ekki minna en yfir 1/2 millj, kr. á dag, en ég mundi telja hið mesta glæfraspil og ábyrgðarleysi að reikna með þeim sem varanlegum tekjum í þjóðarbúið. Þetta veldur því, að gjaldeyrisjöfnuðurinn er ekki verri þó en hann er nú, og hæstv. ráðh. segir, að hann sé ekki góður. Það er vissulega mjög varlega sagt af honum. En náttúrlega er óvit að reikna með líkum gjaldeyristekjum áfram. Þegar þetta er athugað, er bersýnilegt, að engar líkur eru til þess, ef hæstv. ráðh. meinar nokkuð með því, sem hann segir, að gjaldeyrisástandið verði á hverjum tíma að segja til um það, hvað hægt sé að leyfa, þá er ekki hægt að gera sér nokkrar vonir um neina rýmkun, sem máli skiptir, í sambandi við setningu þessara laga, og löggjöfin sjálf hefur vitaskuld ekki nokkur áhrif í þessu efni, því að það, sem ræður því, hvort verzlunin getur verið frjáls í þeim skilningi, að þeir, sem vilja og hafa fjárráð til þess að kaupa vörur frá útlöndum, geti gert það og fáí það, er það, hvernig gjaldeyrisástand landsins á hverjum tíma er gagnvart útlöndum. Það eru þau máttarvöld, sem hæstv. ríkisstj. verður að beygja sig fyrir. Sú leið, sem ein getur orðið til að skapa varanlegt frelsi í verzlunarmálum í þessum skilningi, sem ég hér hef talað um, er að auka og tryggja gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Það er augljóst mál. Og í því efni er þetta frv. á engan hátt til styrktar, þvert á móti, og mun lakara á allan hátt heldur en fjárhagsráðslögin, sem á að nema úr gildi, því að samkv. þeim er skylda stjórnarvaldanna í landinu og þeirra, sem með þessi mál fara, að beina fjármagninn í þá átt, sem eykur gjaldeyristekjur landsins, en öll slík ákvæði eru tekin út og felld úr gildi með því að setja þessi lög í staðinn fyrir fjárhagsráðslögin frá 1947, eins og hæstv. ráðh. sjálfur veit.

Ég hygg, að það muni láta nærri, að innkominn gjaldeyrir á þessu ári nemi nærfellt 80 millj. kr. minna en sá erlendi gjaldeyrir, sem látinn hefur verið af hendi, og hafa þó komið þessar sérstöku tekjur, sem ég áðan drap á, bæði Marshallféð og tekjur af Keflavíkurflugvellinum, og eiga ríkastan þátt í þessu.

Ég skal verða við tilmælum hæstv. ráðh. um að geyma mest af mínu máli til síðari umr. um þetta mál. Það fer væntanlega til fjhn., eins og áður hefur verið lagt til, og get ég þá komið að mínum skoðunum í sambandi við afgreiðslu málsins þar. Ég vildi aðeins benda á þetta hér við 1. umr. strax, að ég tel þetta frv., með þeirri litlu undantekningu, sem ég nefndi í 8. gr., á engan hátt til bóta og að verulegu leyti til hins verra frá því. sem nú er samkvæmt gildandi lögum.