10.03.1954
Sameinað þing: 39. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (3226)

156. mál, jarðvinnsla og meðferð búvéla

Flm. (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Síðasta áratug hefur véltækni við jarðrækt fleygt mjög fram hér á landi, svo og við aðrar greinar landbúnaðar. Þessi aukna tækni hefur orðið til þess, að bændur hafa talið sér fært að sýna meiri stórhug í ræktunarframkvæmdum en áður var, þar sem gera mátti ráð fyrir, að það fé, sem varið var til ræktunar, bæri skjótan og góðan ávöxt miðað við þau stórbrotnu tæki, sem fáanleg voru til þessara framkvæmda. Reynslan hefur og orðið sú, að bændur hafa varið mjög miklum fjárhæðum til ræktunar síðasta áratuginn og ríkissjóður styrkt þessa ræktun með verulegum fjárfúlgum, eins og eðlilegt mátti teljast, meðan ræktunarmál, landsmanna voru að komast í sæmilegt horf, a. m. k. með hliðsjón af framleiðslu búvara til innanlandsneyzlu.

Aldrei hefur jafnmikið land verið brotið og ræktað í sögu þjóðarinnar og síðasta áratug. Sé litið á þá hlið málsins eingöngu, var hér um stórvirki að ræða, stórbrotið átak í framfaraátt, sem allir gátu glaðzt yfir. Hinu er svo ekki ástæða að leyna, að kunnátta landsmanna um meðferð og hagnýtingu vélanna óx ekki að sama skapi og vélaeignin sjálf. Hefur svo mikið verið rætt og ritað um kunnáttu- og hirðuleysi í sambandi við meðferð véla hér á landi, að óþarft er að fjölyrða um. En þó að þetta atriði sé ljóst öllum almenningi, er ekki víst, að hitt sé öllum ljóst, að jafnmikið eða meira skortir á kunnáttu landsmanna um skynsamlega hagnýtingu vélanna en hirðingu þeirra. Þess eru mörg dæmi, að ræktunarsamböndin hafa orðið að grípa til þess að ráða menn til að fara með jarðvinnsluvélar, sem voru alls ófróðir og óvanir jarðvinnslu, vegna vöntunar á lærðum mönnum. Árangurinn af því hefur orðið að vonum. Eru þess jafnvel dæmi, að nýræktartún hafa ekki verið véltæk heyskaparvélum, þegar fara átti að hirða uppskeruna af hinni dýrmætu og dýru ræktun. Er það auðskilið mál öllum, sem það vilja athuga af skynsemi og sanngirni, hvert tjón það er, ekki aðeins þeim bændum, sem fyrir því verða, heldur og þjóðfélaginu í heild, að varið sé miklu fjármagni, bæði einkafé og opinberum styrkjum, til framkvæmda, sem sakir vankunnáttu eru þannig úr garði gerðar, að þær skila ekki þeim arði eða framlagi í þjóðarbúið, sem til var ætlazt og þær hefðu auðveldlega getað gert. Slíkt er vitanlega engum til góðs, og því ber að gera allt það, sem fært er til að koma í veg fyrir, að svo haldi fram sem nú er. Að því er stefnt með þáltill. þeirri, sem hér er til umr. og prentuð er á þskj. 401.

Nú er það að vísu svo, að kennsla fer fram í jarðvinnslu á bændaskólunum, og eitthvað mun hafa verið haldið af námskeiðum í þeim efnum, enda hefði það að sjálfsögðu verið augljós og opinber fásinna að hefja alla þá ræktun með stórvirkum vélum, sem hér hefur verið hafin á síðustu árum, án þess að hefja fyrst eða a. m. k. jafnhliða fræðslu á því sviði. En upplýsingar þær, sem ég hef fengið um þessi mál, t. d. frá Hvanneyri, eru þess eðlis, að ég teldi ástæðu til að fá þær upplýsingar hjá hæstv. landbrh., ef hann væri viðstaddur, hve margar kennslustundir hver nemandi þar mundi eiga kost á að fá að meðaltali í raunhæfri jarðvinnslu og meðferð landbúnaðarvéla. Ég mun ekki ræða það atriði, svo átakanlegar sem þær upplýsingar eru þó, sem ég hef um það fengið, fyrr en upplýsingar um þetta mál lægju fyrir frá hæstv. landbrh., sem ég teldi mjög æskilegt að fá.

En m. a. af þessum sökum, svo og því, að nýræktin víða um land ber þess ljós merki, að mjög skortir á um verkkunnáttu í þessu efni, höfum við hv. 8. þm. Reykv. (GilsG) borið fram þáltill. þá, sem hér liggur fyrir, um aukna kennslu í jarðvinnslu og meðferð búvéla í búnaðarskólunum. Auk þess leggjum við til, að til viðbótar við hina föstu kennslu í þessum greinum við skólana verði haldið þar námskeið fyrir þá starfsmenn, sem nú og framvegis verða á snærum ræktunarsambandanna. Þó að það sé ekki tekið fram í till., ætlumst við flm. hennar að sjálfsögðu til, að í sambandi við kennslu um meðferð og hirðingu búvéla, bæði ræktunarvéla og heyskaparvéla, verði komið upp viðgerðarverkstæðum við skólana, þar sem kennsla fari fram um a. m. k. þær viðgerðir, sem ekki þarf heil vélaverkstæði til að framkvæma.

Það má öllum ljóst vera, að bændaefni framtíðarinnar þurfa að öðlast þá þekkingu, þá innsýn og tilfinningu fyrir vélum og tækni, sem bændur fortíðarinnar höfðu fyrir hestinum og öðrum þeim hjálpargögnum, er léttu þeim starfið. Allir hljóta að skilja, hve fráleitt það er, að bændur á vélaöld standi uppi ráðalausir, ef smávegis vélbilun verður um háannatímann, og þurfi að leita um langan veg að viðgerð, ekki sízt ef tekið er tillit til þess, hve fáar vinnustundir á ári er unnt að nota hinar dýru og afkastamiklu búvélar hér í okkar landi. Og bændaskólarnir eru einmitt hinn rétti vettvangur til að veita fræðslu í þessum efnum öðrum fremur. Þangað munu bændur framtíðarinnar sækja vísdóm sinn og þekkingu fyrst og fremst, og því verður það undir þeim komið, þ. e. a. s. bændaskólunum, hversu nýtist það fé, sem þjóðin í heild og einstaklingar verja af fátækt sinni nú og framvegis til ræktunar og kaupa á búvélum.

Með hliðsjón af því, sem ég hef nú sagt, væntum við flm. þeirrar till., sem hér er til umr., skilnings og skjótrar fyrirgreiðslu hv. þingmanna, því að brýna þjóðhagslega nauðsyn ber til. Að svo mæltu legg ég til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til síðari umr. og hv. fjvn.