12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í D-deild Alþingistíðinda. (3241)

169. mál, stækkun þinghúslóðarinnar

Pétur Ottesen:

Ég hafði raunar ekki ætlað að taka til máls við þessa fyrri umr. um till., bæði með tilliti til þess. sem hæstv. forseti hefur nú lýst yfir, að brtt. mín og hin önnur brtt., sem fram hefur verið borin við þessa till., koma ekki til atkv. fyrr en við síðari umræðu, og því eðlilegra, að umr. um hana hefði verið frestað þangað til, og ef svo kæmu hér fram till. um það að vísa þessari till. til n., þá geri ég ráð fyrir, að þær till. hefðu hljóðað á þann veg, að till. yrði vísað til fjvn., af því að hún hefur útgjöld í för með sér, og hefði mér þá gefizt líka tækifæri til þess að láta mitt viðhorf til málsins koma þar fram. En af því að flm. þessarar till. hefur nú gert hana að umræðuefni hér og lagzt á móti henni, að því er mér skilst, þá vil ég aðeins fara nokkrum orðum um þessa brtt.

Það, sem fyrir hv. flm. vakir, er að afla nægs landrýmis fyrir húsakost Alþ. í framtíðinni, og á hann þar sjálfsagt við það, að þinghúsið sjálft verði stækkað og auk þess að reistur verði á þeirri lóð, sem þingið hefur yfir að ráða hér í næsta nágrenni, þingmannabústaður einnig, sem mjög hefur verið um rætt á undanförnum árum, þótt ekkert hafi nú orðið úr, og vissulega er mikil þörf fyrir, að gert verði. Til þessa tekur alveg sérstaklega sá hluti till., sem talar um það að fjarlægja húsið á Kirkjustræti 12 og svo þann stóra myndlistarsal, sem reistur hefur verið við hliðina á því húsi. Þetta mun vera sú útfærsla á lóðinni, sem notuð mundi verða til þess að reisa á byggingar fyrir Alþingi. Allt öðru máli gegnir svo um Templarasund 2, þ. e. hið gamla samkomuhús templara hér í bænum, því að það liggur, eins og kunnugt er, hér annars vegar við alþingishúsgarðinn, og ég geri ekki ráð fyrir því, að hv. flm. þessarar till. eða aðrir geri ráð fyrir, að það verði farið að leggja niður alþingishúsgarðinn og breyta honum í byggingarlóð. Það, sem kæmi því til framkvæmda í því efni, að húsið Templarasund 2 yrði flutt í burt, væri þá í sambandi við það að stækka alþingishúsgarðinn, en snertir ekkert framtíðarbyggingarmöguleika fyrir Alþingi. Nú er það alveg rétt, að Alþingi á þetta gamla samkomuhús templara og eignaðist það núna fyrir alllöngu og lóðina, sem undir því er, og það má segja, að fyrir náð Alþingis hafi þetta hús fengið að vera á sínum upprunalega stað, en húsið er næstum að heita má jafngamalt bindindisstarfseminni hér á landi. Nú hefur það lengi vakað fyrir og verið mikið kappsmál bindindisfélaganna hér að koma upp húsi fyrir starfsemi sína í bænum, en af fjárhagsástæðum hefur orðið dráttur á þessu og getur orðið nokkur dráttur á þessu enn. Þetta má því segja að sé eða hafi lengst af verið eina samkomuhúsið; — eða var, þangað til bindindisfélögin festu kaup á húsi á Fríkirkjuvegi, sem einnig er notað nú í þágu bindindisstarfseminnar, en sá húsakostur, þó að hvort tveggja sé lagt saman, er allt of lítill fyrir þessa starfsemi, eins og nú er komið, miðað við þann mikla mannfjölda, sem nú er hér í Reykjavíkurbæ. Ég verð þess vegna að segja það, að þar sem enginn nauður rekur til þess nú, að það verði farið að reka bindindisfélögin í burtu með þetta hús, — þar er einungis um að ræða lítils háttar stækkun á alþingishúsgarðinum, en snertir ekkert þá nauðsyn að afla landrýmis til byggingar fyrir Alþingi, — þá finnst mér, að það væri ærin meinbægni, þar sem svona stendur á, að vilja nú, þrátt fyrir það þó að Alþingi hafi full ráð á þessu og geti gert það, sem því líkar í þessu efni, fara að reka bindindisfélögin í burtu með þetta hús, og ég veit ekki, hvort hv. flm. hefur athugað það mál, hvar væri fenginn staður hér í bænum til þess að flytja þetta hús á, þar sem segja mætti að það væri hægt að nota það til þessarar starfsemi, sem vitanlega þyrfti að eiga sér aðsetur einhvers staðar um miðbik bæjarins.

Ég vildi þess vegna mjög vænta þess, að hv. Alþ., sem sýnt hefur fulla viðurkenningu á þessari starfsemi á margan hátt með nokkrum fjárframlögum, þó að naumt hafi verið skammtað að því er snertir að bæta aðstöðu til byggingarmöguleika, sýnt þessari starfsemi velvilja og góðvild á margan hátt, fari ekki alveg að nauðsynjalausu að gera slíkar ráðstafanir eins og nú er, því að í tillögunni er að því stefnt, að húsið verði flutt í burtu á þessu ári. Þess vegna hef ég flutt hér mína brtt., sem einungis felur í sér þá breyt., að Templarasund 2 verði undanskilið þeim ákvæðum, sem till. nú hljóðar um. og ég get mjög vel tekið undir með hv. flm., að rétt sé að samþ. og gera þær ráðstafanir, sem þar er lagt til.

Það hefur verið mjög um það rætt, eins og ég gat um í upphafi míns máls, að nauðsyn væri að byggja þingmannabústað hér, en ég hef ekki orðið var við það, að það liggi fyrir eða hafi komið fram till. um neina fjárveitingu til þess, að þetta verði gert, þannig að það þarf vissulega að taka betur á, áður en í slíkt verður ráðizt. Hitt getur svo haft alveg fullan rétt á sér, að tryggja þessa lóð, sem þar um ræðir. sem Kirkjustræti 12 stendur á, hið gamla hús Halldórs sáluga Friðrikssonar menntaskólakennara, þess merka manns og svo að listamannaskálinn, ég held að það sé kallað svo í daglegu tali, verði einnig fjarlægður af þeirri lóð.

Ég vil ekki gera neina till. um n. hér, en náttúrlega hefði öðruvísi staðið á og jafnvel þó að svo sé nú komið, þá hefði það verið mjög eðlilegt, að slíkri till. hefði verið vísað til nefndar.