12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í D-deild Alþingistíðinda. (3244)

169. mál, stækkun þinghúslóðarinnar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Hv. flm. þessarar till. vék að því í sinni framsöguræðu, sem öllum þm. er raunar kunnugt, að það er nýbúið að ákveða það í lögum, er samþykkt voru á þessu þingi, að hefja undirbúning að byggingu þingmannabústaðar og að ganga svo frá á þessu yfirstandandi ári, að það sé ákveðið, hvar sá bústaður skuli reistur. Ég fyrir mitt leyti get ekki hugsað mér, að það hús verði reist annars staðar en hér alveg í nánasta nágrenni þinghússins.

En ég vil nota þetta tækifæri, sem hér gefst, til þess að skýra hv. alþm. frá tilboði, sem mér barst s. l. vetur varðandi þetta mál og ég þá sem þáverandi forseti afgreiddi, að ég taldi, á eðlilegan hátt. Þetta tilboð var frá háttvirtum aðalforstjóra Sambands ísl. samvinnufélaga, þar sem hann bauðst til þess að hefja samninga við Alþingi um byggingu á þingmannabústað og þingmannahóteli hér vestan við alþingishúsið. Eins og kunnugt er, á Samband ísl. samvinnufélaga lóð hér í nágrenni, í Kirkjustrætinu, sem ekki er bygging á. Ég svaraði þessu tilboði, eins og gefur að skilja, á þann hátt að þakka fyrir svo vinsamlegt tilboð og óska eftir, að þegar tækifæri gæfist, yrðu samningar um það upp teknir. En eins og kunnugt er, þá hafa forsetar Alþingis ekki ráð á því, eða það hefur ekki verið venja, að þeir ákveði um stór fjárútlátamál á milli þinga, og þess vegna sendi ég öllum formönnum þingflokkanna afrit af þessu bréfi og óskaði svars frá þeim. Það svar hafði ekki komið, þegar núverandi þing hófst, og eins og kunnugt er, þá var það mál alveg úr mínum höndum eftir það, að nýtt þing tók til starfa. En ég vil segja hv. alþm. frá þessu, til þess að þeir allir viti um, að þetta tilboð hefur borizt. Það er og eitt af því, sem sýnir, að það eru fleiri möguleikar til þess að fá upp þennan þingmannabústað og jafnvel meira en bústað fyrir þingmenn heldur en þeir, að það sé beinlínis lagt út fé, ef það gætu tekizt um það aðgengilegir samningar við það fyrirtæki, sem þarna á hlut að máli. Og þetta er eitt af því, sem kemur að sjálfsögðu til greina, þegar þetta mál verður tekið til afgreiðslu, svo sem væntanlega verður, hvort sem þessi till. verður samþ. eða ekki. Kemur þá fyrir hæstv. ríkisstj. að taka ákvarðanir um það á þessu komandi sumri, og mér sýnist vera á því mikil nauðsyn og sjálfsagt, að það sé rýmt til hér vegna þeirra fyrirhuguðu bygginga, sem þurfa að koma upp í sambandi við starfsemi þingsins.

Að öðru leyti skal ég ekki blanda mér í þær deilur, sem hér hafa orðið um það, hvort ætti að rýma burt góðtemplarahúsinu og listamannaskálanum alveg á næstunni, en þó að þessi till. væri samþykkt, sem hér liggur fyrir, eins og hún er, þá er það náttúrlega til athugunar í samráði við bæjaryfirvöldin hér, hvað fljótt að því yrði undið að rýma þessum byggingum af 1óðinni.