12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í D-deild Alþingistíðinda. (3246)

169. mál, stækkun þinghúslóðarinnar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir þau rök sem hér hafa verið flutt fram af hv. flm. þessarar till. og öðrum þeim, sem tekið hafa undir hans málflutning, og skal engu eða litlu þar við bæta. Ég vil aðeins minna á, að Alþ. hefur nú þegar tvívegis fyrir utan ákvarðanirnar um byggingu þingmannabústaðar, sem segja má að séu nokkuð annars eðlis, tekið ákvörðun um, að ráðstafanir skuli gerðar nokkuð í þá átt, sem till. fer fram á. Við samþykkt fjárlaga 1953 var að tilhlutan forseta Alþ., að því er mig minnir, samþykkt slík heimild til handa ríkisstj., að gera ráðstafanir til að flytja brott svo fljótt sem verða má hús þau er standa á lóðinni Kirkjustræti 12, og láta Alþingi lóðina í té til stækkunar þinghúsgarðinum eða til annarra afnota. Ég man ekki til þess, að nokkurt mótatkvæði kæmi fram gegn þessari samþykkt í fyrra og ekki heldur að því væri mótmælt, þegar þetta var endurnýjað nú í ár alveg orðrétt, varðandi Kirkjustræti 12. Það er að vísu alveg rétt, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði, að nokkuð misjafnlega stendur á um þessi hús. Um sjálft húsið á Kirkjustræti 12 horfir svo, að það mun losna úr notkun áður en mjög langt um líður, og er þá alveg sjálfsagt, að mínu viti, að nota tækifærið og rífa húsið tafarlaust. Um listamannaskálann og góðtemplarahúsið horfir að vísu öðruvísi við. Þau hús eru í notkun og gegna þörfu hlutverki, en ég get ekki fallizt á, að það hvíli skylda á Alþingi til þess að sjá þeirri starfrækslu, sem þar er, frekar borgið en orðið er. Það er viðurkennt af öllum, að leyfistími húsanna er nú fyrir löngu útrunninn. Það var að vísu með samþykki, að þessar byggingar fengu að standa þarna, en það samþykki gildir ekki lengur, þó að ekki hafi verið gerð bein krafa um, að þessi hús væru flutt. En forfeður okkar sögðu: Ljúfur verður leiður, ef lengi situr annars fletjum á. Og ég hygg, að það hljóti svo að verða með þessa góðu starfsemi, sem þarna er rekin, að þó að við viðurkennum nauðsyn hennar, þá er ekki eðlilegt, að hún eigi sér stað einmitt á léðum Alþingis og í næsta nágrenni við Alþingi, og einkanlega þegar það er athugað, að sumt af þessari starfsemi verður beinlínis til stórrar truflunar og leiðinda fyrir þingstörf. Til viðbótar kemur svo, að varðandi fegrun bæjarins og skaplegt útlit kringum sjálft alþingishúsið, sem er nú ein veglegasta opinber bygging hér á landi, þá er það mjög mikilsvert, að þessir kofar séu hreinsaðir í burtu, því að annað en kofar eru þetta ekki.

Ég held því, að það sé mjög tímabært, að ákvörðun verði tekin um það, að þessi hús verði numin burt og aðilum verði settur ákveðinn frestur til þess að nema þessi hús burt. Hitt skal ég ekki fullyrða um, hvort ef til vill þykir of hart að gengið að krefjast þess, að þau verði farin fyrir árslok, vegna þess, eins og ég sagði, að ég viðurkenni það hjá hv. 7. þm. Reykv., að þarna er um þarfa starfrækslu að ræða út af fyrir sig, og ég stóð upp aðallega í því skyni að skjóta því fram, hvort ekki væri hægt að fá samkomulag um það, að einhver hæfilegur frestur yrði settur fyrir þessa aðila til þess að nema þessar sínar eignir í burtu. Ef málið fer til n., þá er hægt að athuga það í n., ef ekki, þá er hægt að athuga þetta til morguns á milli manna, að menn beri saman ráð sin, hvort það þyki ef til vill of hart að gengið að krefjast þess, að þeir fari fyrir árslok, en þá hvaða hæfilegur tími verður fundinn til þess að láta þessa aðila vita í góðu og allri vinsemd, að innan þess frests skuli þeir hafa útvegað sér aðrar vistarverur. Það er þeim ekki ofætlun. Sannleikurinn er sá, að með þeirri fyrirgreiðslu, sem þessir aðilar fá frá ríkinu og mundu vafalaust fá frá ríkinu með flutning á þessum húsum, þá er þeim ekki ofætlun að gera það, og ekki heldur úr svo háum söðli að detta, vegna þess að bæði þessi hús eru sannast sagt gersamlega óhæfileg til sinna nota í sinni núverandi mynd og þess vegna engum manni greiði gerður með því, að þau séu látin standa. En það er hins vegar, og við þekkjum allir svo vel gang mála, að ef þessir kumbaldar eiga að standa hér þangað til aðilum sjálfum þóknast að flytja þá burt, þá verður það langur tími. Þess vegna er eina ráðið að koma sér niður á einhvern hæfilegan frest og fylgja því eftir, að fyrir þann tíma verði þeir á burtu, og síðan athugað, á hvern hátt hægt sé að greiða fyrir þeim af hálfu bæjaryfirvalda með lóðarútvegun, af hálfu ríkis með fyrirgreiðslu um flutning á þessu, ef það þykir þá borga sig, eða á annan veg.