10.12.1953
Efri deild: 32. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur tekið fyrir á einum fundi sínum frv. á þskj. 266, um skipan innflutnings-, gjaldeyris- og fjárfestingarmála o.fl., sem hér er til umræðu á þessum þingfundi. Hefur n. rætt málið á fundi sínum og afgr. svo sem þskj. bera með sér. Málið sjálft hefur verið rætt svo ýtarlega, bæði á Alþingi og í blöðum, að n. sá enga ástæðu til þess að tefja það með löngum umræðum í n., þar sem allir nm. höfðu haft margvislega möguleika til þess að kynna sér það frá ýmsum hliðum. Um meðferð málsins var þá heldur enginn ágreiningur í n., enda komu þar ekki fram neinar óskir um frestun á afgreiðslu þess til þess að afla um það frekari upplýsinga en þegar lágu fyrir. Þykir mér rétt, að þetta komi hér fram við umræðuna.

Um hitt gátu nm. ekki orðið sammála, á hvern hátt málið skyldi afgr. úr n. Hv. meiri hl. n. vildi leggja til, að frv. yrði samþ. með nokkrum breytingum á 1. gr. þess, en á þetta gat hv. minni hl., hv. 4. þm. Reykv. (HG), ekki fallizt. Hefur hann því gefið út sérstakt nál.

Þótt hæstv. viðskmrh. hafi þegar við 1. umr. frv. gert ýtarlega grein fyrir höfuðtilgangi þess og skýrt, svo að ekki verður um villzt, í hverju þær umbætur á viðskiptalöggjöfinni felast, sem gerðar eru með þessu frv., ef að lögum verður, þykir mér þó rétt að gera hér nánari grein fyrir þeirri stefnu, sem þessi löggjöf kemur til þess að marka í viðskiptalifi þjóðarinnar, einkum þó eftir að hv. 4. þm. Reykv. fullyrti hér við 1. umr. málsins, að hér væri um hreint hégómamál að ræða. Sannleikurinn er þó sá, að frv. það, sem hér um ræðir, er eitt hið merkasta, ef ekki hið allra merkasta mál, sem legið hefur fyrir þessu þingi. En áður en ég ræði hin einstöku atriði þess þykir mér rétt að minnast nokkuð á innflutnings- og gjaldeyrismálalöggjöfina almennt.

Það mun vera í fyrsta skipti á árinu 1935, að heildarlöggjöf er sett um þessi mál á Alþingi. Í þeim lögum er svo fyrir mælt, að ríkisstj. skuli heimilt að ákveða, að engar vörur megi flytja til landsins nema með leyfi gjaldeyris- og innflutningsnefndar. Er þá um leið komið á stofn fimm manna nefnd, sem falin er framkvæmd þeirra mála. Áttu Landsbankinn og Útvegsbankinn sinn fulltrúa hvor í þeirri stofnun, en ríkisstj. þrjá fulltrúa, og var einn þeirra form. nefndarinnar. Ég skal ekki rekja hér starfssvið þeirrar stofnunar. Það væri allt of mikið mál, ef gera ætti því skil, svo að vel væri, en aðeins benda á, að með göngu hennar er brotið blað í verzlunarsögu Íslendinga.

Alla tíð síðan einokunarverzluninni var aflétt af þjóðinni hafði það verið hlutverk verzlunarstéttarinnar, hvort sem hún stóð í sambandi við kaupmenn eða kaupfélög, að afla þjóðinni sem allra hagkvæmastra vörukaupa, fá sem allra mestar og beztar vörur, sem hægt var að fá, fyrir minnstan framlagðan gjaldeyri. Á því valt ekki einasta hagur einstaklinga og þjóðarinnar, að þetta tækist sem bezt, heldur og var þetta einn sterkasti þátturinn í því að skapa jafnvægi á milli inn- og útflutningsins og tryggja með því hagstæðan verzlunarjöfnuð fyrir landið. Að vísu var verzlunarjöfnuðurinn einnig háður framleiðsluútflutningi landsmanna og því verði, sem fyrir þá vöru fékkst, en allt um það var hér um veigamikinn þátt að ræða í baráttunni fyrir betri kjörum. Fjöldi merkra manna, sem fengið höfðu hina ágætustu menntun á sviði verzlunarmálanna, gerðu það að lífsstarfi sínu að vinna á þennan hátt fyrir landið, hjálpa þannig til þess að byggja það upp, og það náðist undraverður árangur, sem fór vaxandi með ári hverju. Sambönd voru tengd eftir þessum leiðum við hinar fjarlægustu og óskyldustu þjóðir, báðum aðilum til hagsbóta.

En stofnunin hafði ekki starfað í mörg ár, þegar hér var orðin gerbreyting á grundvallaratriði viðskiptalífsins í landinu. Nú var það ekki lengur höfuðatriði að fá sem mestar og beztar vörur til landsins fyrir minnstan gjaldeyri, heldur að fá sem flest og sem hæst innflutningsog gjaldeyrisleyfi. Sá, sem á einn eða annan hátt gat tryggt það, gat tryggt sér gull og græna skóga án þess að tryggja þjóðinni hagkvæm viðskipti. En það leiddi aftur til hins, að í stað þess að stunda vörukaupin af samvizkusemi og þekkingu, fóru menn í þúsundatali að stunda sókn á hendur stofnuninni með öllum leyfilegum og óleyfilegum meðulum. Tugþúsundum dagsverka var kastað á glæ árlega bara fyrir það eitt að standa og bíða í biðstofum stofnunarinnar eftir samtölum við þá aðila, sem úthlutuðu af náð sinni þessum veraldargæðum. Alveg ný, óþekkt og óholl stétt manna reis upp, þ.e. þeir, sem gerðu sér það að atvinnu að afla sér leyfa og selja þau aftur sárþurfandi mönnum fyrir okurfé, mönnum, sem vegna atvinnu sinnar gátu ekki verið án vörunnar og höfðu enga möguleika til þess að geta fengið leyfin sjálfir. Var þessi atvinna oft miklu gróðavænni en vöruverzlunin sjálf. Þessi helstefna náði þó hámarki, er atvinnufyrirtæki, ný og gömul, urðu að lúta þessu fyrirkomulagi. Verður ekki með tölum talið það tjón, sem útflutningurinn, framleiðslan og stynjandi atvinnulaus vinnulýður beið við þetta fyrirkomulag. Öll árin frá því 1935 og þar til ófriðurinn hófst 1939 seig sí og æ á ógæfuhliðina hjá þjóðinni undir þessum lagafyrirmælum, sem enginn treysti sér til að fá breytt til batnaðar.

Á árunum 1941–47 er lögum um viðskipti og verzlun, innflutning og gjaldeyri og verðlag breytt á ýmsan hátt, ettir því sem nauðsyn þótti til bera á hverjum tíma, en þrátt fyrir hinar margvíslegu breytingar laganna er meginstefnunni haldið óbreyttri, þ.e., að viðskiptin skuli yfirleitt háð leyfisveitingum. Hversu mikið eða lítið var hert á þessum ákvæðum, fór þó jafnan nokkuð eftir gjaldeyrisforða og frjálslyndi þeirra manna, sem fóru með framkvæmdir laganna.

Árið 7944 eru sett sérstök lög um nýbyggingarráð. Var með þessum lögum sett upp sérstök stofnun við hliðina á gjaldeyris- og innflutningsnefndinni og henni ætlað það hlutverk að undirbúa framtíðaratvinnurekstur þjóðarinnar, bæði til lands og sjávar, þannig að hann gæti orðið sem arðbærastur. Fékk ráðið allvíðtækt vald, einnig til innflutnings- og gjaldeyrisveitinga fram hjá sjálfri gjaldeyris- og innflutningsnefndinni, einmitt vegna þess, að n. hafði árum saman vanrækt þá hlið málanna, sem beinlínis snerti framleiðsluna í landinu og aukin atvinnuskilyrði. Lagði nýbyggingarráð grundvöllinn að mörgu því í atvinnulífi þjóðarinnar þann tíma, sem það starfaði, sem bezt og öruggast hefur reynzt, jafnt í sambandi við sjávarútveg, landbúnað og iðnað í landinu. Verða þau störf seint fullmetin eða fullþökkuð.

Með lögunum 1947 um fjárhagsráð, sem nú er gert ráð fyrir að afnema, þegar frv. það, sem hér um ræðir, er orðið að lögum, voru öll innflutnings- og gjaldeyrismál, verðlagsmál og fjárfestingarmál sett undir eina og sömu stjórn. Aldrei hafði Alþ. gefið nokkurri stofnun jafnmikið og víðtækt vald sem það gaf fjárhagsráði með þessum lögum. Má í raun og veru segja, að meðan lögin eru í fullu gildi, hafi Alþ. beinlínis afsalað sér rétti til þess að ráða mörgum mikilsvarðandi málum þjóðarinnar og falið þau stofnuninni, og það jafnvei svo, að ríkisstj. gat ekki gripið inn í gerðir þessara manna, nema þá helzt ef meðlimir ráðsins gátu ekki komið sér saman um afgreiðslu mála. Það var því mikið í húfi, að vel tækist um val þeirra manna, sem falið var slíkt vald, og að vel tækist um þá stefnu, sem þeir kæmu til þess að marka með störfum sínum í ráðinu. Færi sú stefna í öfuga átt við þjóðarviljann, var þess ekki að vænta, að hljótt yrði um stofnunina eða verk hennar. Og hvernig hefur þá þetta reynzt í þau sex ár, sem stofnunin hefur verið starfrækt? Ég held, að um það verði ekki deilt, að engin stofnun á Íslandi hefur orðið eins óvinsæl og það þegar frá upphafi. Því er sannarlega ekkert hégómamál það frv., sem nú er verið að ræða um og gerir ráð fyrir því, ef að lögum verður, að langóvinsælasta stofnun landsins verði lögð niður. Og þó er þetta atriði í frv. ekki þýðingarmesta atriðið, heldur hitt, að með þessu frv. er snúið við á þeirri braut, sem mörkuð var af hinni voldugu stofnun, og stefnt að öðru og hollara marki, þ.e. að skapa meira frelsi í viðskiptalífi þjóðarinnar og með því að hleypa meiri grósku í allt athafnalíf í landinu, framkalla ónotuð öfl, sem ekki koma fram hjá þjóðinni, á meðan viðskipti hennar eru öll í viðjum. Það getur engin fjötruð þjóð og engir fjötraðir aðilar lyft grettistökum. Til þess að svo megi verða, þarf maðurinn að vera frjáls bæði í athöfnum og hugsunum.

Því hefur verið haldið fram, og það kom að nokkru fram hjá hæstv. viðskmrh. í framsöguræðu hans hér um þetta mál, að það bæri ekki að ásaka fjárhagsráðsmennina fyrir margt af því, sem miður hefur tekizt í framkvæmd laganna, heldur beri að kenna hér um sjálfum lögunum. Ég hef enga löngun til þess að bera þá menn neinum sérstökum sökum. Það hefðu sjálfsagt hvaða menn sem með þau mál hefðu farið verið dæmdir til þess að haga framkvæmdum sínum þannig að fá fyrir það litlar eða engar þakkir. En sé svo, þá er enn meiri nauðsyn til þess að afnema slík lög, sem beinlínis gera þá, sem sjá eiga um framkvæmdirnar, að óvinsælli og lakari mönnum en þeir eru í raun og veru, og ekki sízt þegar sýnilegt er, að annað og auðveldara kerfi samrýmist miklu betur þjóðarsálinni og allri skapgerð þjóðarinnar. Einmitt vegna þessarar skoðunar þykir mér rétt að fara hér nokkrum orðum um þá kafla fjárhagsráðslaganna, sem nú er ætlazt til að falli úr gildi, svo að hægara sé að átta sig á því, hvaða reginmunur er á þeim og frv. því, sem hér um ræðir.

Í fyrsta kafla laganna, 1. gr., er sagt, að af andvirði útflutnings hvers árs skuli jafnan leggja eigi minna en 15% ársfjórðungslega eftir á á reikninga erlendis og að þessu fé skuli eingöngu varið til kaupa á framleiðslutækjum og til annarrar nýsköpunar í atvinnulífi þjóðarinnar. Þetta var raunverulega hyrningarsteinninn undir fjárhagsráði og öllum þess störfum. En þessu ákvæði hefur aldrei verið framfylgt og er ekki framfylgt enn í dag. Þegar fjárhagsráði var ljóst, að ekki var hægt að framkvæma þetta atriði, sem var grundvallaratriði fyrir öllum störfum þess, þá hefði ekkert verið eðlilegra en að fjárhagsráð hefði lagt niður störf sín og lögunum hefði þá þegar verið breytt, og einmitt vegna þess hefur margt farið öðruvísi en æskilegt var og menn vonuðust eftir á sínum tíma.

2. gr. í fjárhagsráðslögunum er í raun og veru sama og 6. gr. í frv., þ.e., að fjárhagsráð felur sérstakri nefnd að fara með innflutnings- og gjaldeyrismálin í landinu.

3. gr. laganna er um það, að fjárhagsráð átti að gera fyrir fram áætlun um heildarframkvæmdir fyrir yfirstandandi ár og tillögur um það, hvernig því fé skyldi varið. Raunverulega hafa þessi mál aldrei komið til framkvæmda eins og lögin ákveða.

4. gr. laganna kveður svo á, að fjárhagsráð skuli leita samvinnu um samningu heildaráætlun við opinberar stofnanir, félög og einstaklinga. Þetta var heldur aldrei framkvæmt eins og lögin ákváðu.

5. gr. segir, að til hvers konar fjárfestingar einstaklinga og félaga og annarra opinberra aðila, hvort sem er til stofnunar nýs fyrirtækis eða ekki, skuli leita samþykkis fjárhagsráðs. Þessari gr. fjárhagsráðslaganna hefur verið beitt og er beitt mjög skefjalaust. Og það er ákaflega táknrænt, að þegar fjárhagsráð brestur möguleika til þess að láta framkvæma höfuðmarkmið laganna, þá grípur það til þess að láta framkvæma með mjög mikilli harðneskju þau ákvæði, sem tekin eru upp í þessari gr. Raunverulega hefur það m.a. skapað svo að segja meginhlutann af þeim óvinsældum, sem ráðið hefur orðið fyrir hjá þjóðinni síðan það var stofnað.

Í þessum málum var alveg frá fyrstu byrjun ekki mörkuð nein ákveðin stefna. Hér var aðeins beitt naggi og framúrskarandi smásálarskap, m.a. í sambandi við úthlutun á öllu byggingarefni, og það svo, að þjóðin undraðist alveg þá stefnu, sem þar var mörkuð. Það er vitanlegt, að þá var á glæ kastað þúsundum dagsverka frá mönnum, sem sátu á tröppum fjárhagsráðs þegar frá upphafi og fóru heim að loknum degi, eftir að hafa setið þar klukkustundum saman, með aðeins leyfi til þess að mega vinna verk, sem tók örfáa klukkutíma eða minna að framkvæma. Ég hygg, að það hafi ekkert verið, sem hafi skapað fjárhagsráði jafnmiklar óvinsældir og einmitt það, hvernig þessari gr. var beitt. Nú er þessi gr. að nokkru leyti tekin upp í 8.–9. gr. frv., en þó með allt öðrum hætti og því mörkuð þar allt önnur stefna en mörkuð var í fjárhagsráðslögunum. Hér er gert ráð fyrir því, að hinar nauðsynlegustu framkvæmdir í sambandi við byggingu yfir fólk í landinu og til verklegra framkvæmda eða til atvinnumálanna skuli ekki háðar slíkum leyfum eins og ákveðið er í 5. gr. laganna. Þó að þetta frv. hefði ekki verið um neitt annað en þetta eina atriði, sem ég hér ræði um, þá hefði verið svo stórkostlegur vinningur að fá þær breytingar, sem hér er gert ráð fyrir, að það eitt hefði nægt til þess að vera eitt af merkustu málunum á þingi að koma fram slíkri breytingu. Að vísu hefur fjárhagsráð orðið að sveigja nokkuð af sinni upphaflegu braut fyrir þunga frá fólkinu í landinu í sambandi við þessi mál, en engan veginn þó neitt svipað því og gert er ráð fyrir hér í þessu frv.

6. gr. frv. var aldrei framkvæmd, þ.e., að fjárhagsráð átti að hafa fulla samvinnu við Alþ. í sambandi við fjárfestingar þess opinbera. Ég minnist ekki þess allan þann tíma, sem ég sat í fjvn. sem formaður, sem ekki var minna en 8 ár, — og á því tímabili voru 6 ár, sem átti að hafa samstarf við fjárhagsráð, — að þar sæjust nema í eitt einasta skipti fulltrúar úr fjárhagsráði til þess að ræða þau mál, og af þeim fundi var þó ekki heldur neinn árangur. Það kom skýrt fram þá þegar, að fjárhagsráð vildi marka þá stefnu að taka að fullu og öllu valdið af Alþ. í þeim málum, en það lét hvorki Alþ. fjvn. bjóða sér, jafnvel ekki þó að leggja mætti þann skilning í lögin, eins og fjárhagsráðsmenn gerðu. Það er því engin eftirsjón að þessari gr. úr lögunum, og tel ég, að það sé stórbót, að hún sé felld niður.

Í 7. gr. laganna er fyrirmæli um það, hvernig skuli fara með innflutnings- og gjaldeyrismálin, og skal ég koma að þeim nokkru síðar.

8. gr. laganna var aldrei reynt að framkvæma, þ.e., að fjárhagsráð skyldi beita sér fyrir samvinnu atvinnurekenda og verkamanna um bætta aðstöðu verkafólks á vinnustöðunum. Það hefur aldrei verið reynt að framkvæma þetta atriði, svo að ekki er nein eftirsjón að þeirri gr. úr lögunum.

9. gr. í lögunum er um það, að ríkisstj. skuli raunverulega hafa yfirstjórn fjárhagsráðs, en þó er það þannig, að ríkisstj. er þar valdalaus, nema því aðeins að ágreiningur sé í ráðinu um hin ákveðnu atriði, en sé sá ágreiningur ekki fyrir hendi, verður ekki séð annað en ráðið hafi getað beygt vilja ríkisstj., enda farið þar sínar leiðir oft og tíðum án þess að hafa um það fullt samkomulag. Allur þessi kafli í fjárhagsráðslögunum er felldur niður með hinu nýja frv., og ég held. að það verði ekki ofsögum sagt, að það mun margur maður í landinu gleðjast mjög yfir því að losna við öll höft og það, sem þeim er samfara og reynslan hefur sýnt að hefur engan veginn orðið til hagsbóta, hvorki fyrir almenning í landinn né fyrir landið sjálft í heild.

Sá kafli laganna, sem tekinn er upp í þetta frv., sem hér um ræðir, er 2. kaflinn, um innflutning og gjaldeyrismeðferð. 10. gr. í þeim kafla er í raun og veru sama og 6. gr. t frv., og 11. gr. er sama og 1. gr. í frv., og skal ég fara nokkrum orðum um það atriði.

Samkvæmt lögunum, eins og þau eru nú, má ekki flytja til landsins neinar vörur nema að fengnu innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Frá þessu getur þó fjárhagsráð gefið undanþágu með auglýsingum, og hefur því verið að nokkru leyti beitt. Nú er ætlazt til þess samkv. frv., sem hér liggur fyrir, og þá einkum og sér í lagi ef brtt. okkar í meiri hl. n., sem er á þskj. 290, verður samþ., að hér sé mörkuð sú stefna að gera allan innflutning til landsins frjálsan, en meðan gjaldeyristekjur þjóðarinnar nægi ekki til þess, að svo megi verða, þá ákveði ríkisstj hverju sinni með reglugerð, hvaða innflutningur til landsins skuli vera frjáls. Hér er reginmunur á stefnu, sem mörkuð er með þessu frv., og því, sem markað er með 11. gr. í lögunum eins og þau eru núna.

12. gr. í lögunum er sama og 5. gr. í frv. Það er um innflutningsskrifstofuna, hverjir skuli annast úthlutun innflutningsleyfanna. Það er gert ráð fyrir því í lögunum, að fyrst skuli þetta heyra til 5 manna fjárhagsráði, en síðan felur fjárhagsráðið öðrum 2 eða fleiri mönnum að gera þessa hluti, að sjálfsögðu á sína ábyrgð. Nú er sú breyting gerð á hér með frv., að þetta er aðeins falið 2 mönnum í staðinn fyrir 5 áður auk þeirra, sem áttu að annast hinn daglega rekstur og gátu þar af leiðandi haft allvíðtæk áhrif á innflutningsmálin. Því hefur verið haldið fram hér, m.a. af hv. 4. þm. Reykv., að hér væri horfið til hins verra fyrirkomulags, og hann benti m.a. á það í sinni ræðu hér í gær, að nú orðið væri ekki sýnilegt annað en að hér væri stefnt beinlínis að flokkshagsmunaúthlutun, þannig að vöruleyfi eða gjaldeyris- og innflutningsleyfi yrðu hér eftir afgreidd sem beint flokksmál, eftir því sem hann ræddi hér um í gær. En ég vil í því sambandi leyfa mér að benda á og rifja upp, hvernig hefur verið farið með þessi mál undanfarið. Þessi mál hafa verið undanfarið þannig, að síðan Alþfl. gekk úr ríkisstj. og gerðist óábyrgur í stjórn landsins, óábyrgur í landsmálum yfirleitt, hafa tveir stjórnarflokkarnir, Framsfl. og Sjálfstfl., haft sína 2 mennina hvor í ráðinu, en oddamaðurinn í öllum þeim málum, þar sem einhver ágreiningur var, var maður úr flokki, sem var gersamlega óábyrgur í sambandi við þessi stóru mál. Við skulum hugsa okkur, að sama fyrirkomulag hefði verið haft í sambandi við afgreiðslu fjárlaga í þinginu, að stjórnarflokkarnir, sem áttu að bera ábyrgð á, að fjárlög væru afgr. með nokkru skynsamlegu viti, bera ábyrgð á tekjunum, tollum og sköttum, sem á bak við fjárl. stóðu, og bera ábyrgð á því, að fólk fengi greitt úr ríkissjóði samkvæmt þeim lögum, sem hér eru samþ. á hverjum tíma, og að það byggi afkomu sína alla á þessum ákvæðum, — við skulum hugsa okkur, að þessir menn hefðu ekki komið sér saman um að bera ábyrgð á þessu, heldur hefðu þessi mál verið endanlega afgreidd með atkvæði þriðja aðila, sem enga ábyrgð bar og enga tilhneigingu hafði til þess að bera neina ábyrgð á þessum málum. Hver hefði þá útkoman orðið? Við, sem þekkjum afgreiðslu fjárlaga, vitum um ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar, höfum haft siðast dæmi hér í dag í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, þar sem óábyrgir .andstöðuflokkar hafa borið fram brtt., sem nema milljónum eða tugum millj. kr., án þess að finna nokkur rök fyrir því, að hægt væri að mæta þeim útgjöldum með eðlilegum tekjum. Það segir sig sjálft, að slík fjármálaspeki leiddi þjóðina aldrei langt. Það Alþingi hefði ekki lengi samúð hjá þjóðinni eða nyti ekki lengi virðingar þjóðarinnar, sem færi þannig að í fjármálum ríkisins. Og ef það væri ekki hægt og ekki viturlegt að gera það í fjármálum ríkisins, hversu miklu óviturlegra er þá ekki að gera það í sumum þeim málum, sem snerta viðskipta-, verzlunar- og innflutningsmál þjóðarinnar? Enda er það vitað, að langsamlega mestu mistökin, sem hafa orðið á þessum málum, stafa af því, að stjórnarflokkarnir, sem á sama tíma báru ábyrgð á málunum, voru ekki þvingaðir til þess að setja til hliðar flokkssjónarmiðin líkt og gera verður við afgreiðslu fjárlaganna, en nutu hins vegar aðstoðar óábyrgs aðila til þess að koma málunum fram þjóðinni til óþurftar. Ég tel því, að þessi skipun málanna sé ekki einungis mörgum sinnum betri en hún er nú, heldur að hún sé alveg óhjákvæmileg sem framkvæmdaratriði hjá meirihlutaríkisstj., sem samansett er af tveimur flokkum, sem eiga ekki í öllum málum samleið, það sé gersamlega óhjákvæmilegt að hafa slík ákvæði eins og hér er lagt til að lögleidd verði með þessu frv. Ég get því ekki fallizt á þau rök, sem fram hafa verið færð, að hér verði frekar afgreidd slík mál með flokkssjónarmið fyrir augum heldur en afgreidd eru yfirleitt mál á Alþ. hjá þeim ríkisstj., hvort sem þær eru samansettar af einum flokki eða af tveimur flokkum eða fleirum, heldur með fullri ábyrgð hjá þeim mönnum, sem standa að slíkum ríkisstj.

13. gr. frv. er tekin upp í frv. nokkuð breytt í 2., 3. og 4. gr., 14. gr. l. er tekin upp í frv. sem 12. gr., og 15. gr. er tekin upp sem 7. gr. Allar eru þessar gr. teknar upp nokkuð breyttar, en hins vegar færðar í þann búning, sem nauðsynlegt er að gera í sambandi við aðrar breytingar á frv.

21. gr. er 10. gr., 22. gr. frv. er 11. gr. og 23. gr. frv. er 12. gr., en 24. gr. frv. er beinlínis til sparnaðar, þar sem lagður er niður svo og svo mikill fjöldi sérfræðinga og annars starfsfólks í þjónustu fjárhagsráðs, sem ekki er þörf á, eftir að málunum er skipað á þann hátt, sem gert er með þessu frv. Það hefði einhvern tíma þótt hyggilegt af ríkisstj., sem á þessum tímum eins og endranær á allerfitt með að koma saman fjárlögum, ef mæta á meiri hluta af þeim óskum, sem þjóðin ber fram til Alþ. á hverjum tíma, með þeim möguleikum, sem hún hefur til tekjuöflunar án þess að leggja á nýjar byrðar, — þá hefði það einhvern tíma þótt ekki lítið málefni að gera þá ráðstöfun í sambandi við lagabreytingar, að hægt væri að spara hér hundruð þúsunda, eins og gert er hér í sambandi við þetta mál. Það eitt út af fyrir sig er ekki neitt smáatriði í sambandi við þetta frv.

Af þessum samanburði. sem ég hef gefið hér á sjálfum lögunum, eins og þau eru í dag, og á frv., sést, hversu feikna efnismunur er á frv. og lögunum. Hér er mörkuð sú stefna, sem ég hef lýst, að gera innflutninginn frjálsari, kostnaðinn við framkvæmdirnar miklu minni og skapa miklu meira réttlæti í þessum málum og festu en verið hefur.

Eins og kemur fram í nál. meiri hl., þá leggur meiri hl. til, að það verði nokkuð hreytt 1. gr., svo að sýnt sé, hvaða stefnu þetta frv. á að marka í viðskiptalífi þjóðarinnar. Vill meiri hl., að það komi skýrt fram í sjálfum lögunum, að stefna skuli að því að gera viðskiptin og verzlunina frjálsa í landinu.

Það hefði við fyrstu sýn þótt eðlilegt að telja upp þær vörur, sem leyfi þyrfti fyrir á hverjum tíma, eftir að slíkt ákvæði hefði verið sett inn. En því er til að svara, að svo lengi sem við erum háðir vöruskiptum samkv. vöruskiptasamningum við aðrar þjóðir, þá verður ekki unnt að ákveða þessi mál nema í samræmi við slíka samninga, en slíkir samningar eru ekki gerðir nema frá ári til árs. Og það er einmitt þess vegna, að það þykir rétt að orða greinina á þann hátt, sem gert er í frv.

Þjóðin kemst aldrei úr þeim erfiðleikum, sem gjaldeyrisskorturinn skapar, nema hún vilji það sjálf, taki sjálf upp jákvæða baráttu af frjálsum vilja frjálsborinnar þjóðar gegn böli því, sem samfara er gjaldeyrisskorti hjá hverri þjóð. Bezta og öruggasta vörnin gegn gjaldeyrisskortinum er fyrst og fremst sparsemi, nýtni á erlend efni, meiri og betri framleiðsla, sem erlendir þegnar sækjast eftir, minni erlend vinna, sem hægt er að annast í landi voru, hagkvæmari kaup á aðkeyptum vörum og meira frelsi í vöruvali og viðskiptum.

Það frv., sem hér er til umr., miðar að því, að þegnarnir sjálfir geti hafið slíka sókn á öllum sviðum þjóðlífsins og sigrað. Og takist það, en það er undir fólkinu sjálfu komið, þá er sannarlega um mjög merkilegt mál að ræða hér í sambandi við þetta frv. Meiri hl. í n. leggur því til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem fram eru bornar á þskj. 290, og væntir þess, að hv. d. fallist á þá tillögu.