13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í D-deild Alþingistíðinda. (3267)

210. mál, framlög til bæjar- og sveitarfélaga

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Það er sýnilegt á nokkrum till., sem hér liggja nú fyrir til umr., að hv. þm. stjórnarflokkanna er kunnugt um það, að fjárhagur ríkissjóðs sé mjög rúmur, og í tilefni af því, að þeir vita. þetta, hafa þeir borið fram till. hér um nokkrar fjárveitingar, og fjalla sumar þeirra um fjárveitingar til atvinnuveganna sérstaklega. Ég verð að lýsa ánægju minni yfir því, að hv. þm. stjórnarflokkanna skuli bera fram hér á Alþingi till. um ráðstöfun á þessum fjárfúlgum ríkissjóðs, því að það mætti þá ef til vill verða til þess, að þessu mikla fé yrði ekki ráðstafað án vitundar og samþykkis Alþingis, eins og oft hefur áður skeð og berlega kom í ljós hér við umr. fyrir skömmu um tekjur og afkomu ríkissjóðs á árinu 1953.

Á þskj. 868 flytur hv. þm. V-Ísf. till. um framlag til fiskveiðasjóðs, 15 millj. kr. Þetta er allríflegt framlag til þessa merka sjóðs, og sé ég ekki ástæðu til að gera brtt. við það. En á þskj. 867 flytja þeir hv. þm. Str. og hv. þm. Dal. till. um fjárframlög til Ræktunarsjóðs Íslands og veðdeildar Búnaðarbankans, og er þar öllu meira skorið við nögl framlagið. Það er þó ljóst af umr., sem fram hafa farið hér á þingi í vetur um veðdeild Búnaðarbankans í sambandi við frv., sem var hér til umr. og afgreiðslu um aukið fé til þeirrar veðdeildar, að þar er þörf — mjög mikil þörf — á auknu fjármagni. Og með hliðsjón af þeim rökum og þeim upplýsingum, sem komu fram við þær umr. sérstaklega, svo og með hliðsjón af hinum rúma fjárhag ríkissjóðs, sem kemur hér berlega í ljós af till. hv. þm. stjórnarflokkanna, höfum við hv. 3. landsk. þm. (HV) leyft okkur að flytja hér brtt. við brtt. á þskj. 867, þess efnis, að í staðinn fyrir 5 millj. kr. til ræktunarsjóðs og 5 millj. kr. framlag til veðdeildar Búnaðarbankans komi 7 millj. kr. framlag. Brtt. þessi er skrifleg og að sjálfsögðu of seint fram komin, og vil ég leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir till.