26.02.1954
Neðri deild: 54. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í D-deild Alþingistíðinda. (3278)

150. mál, kjarnfóðurframleiðsla

Flm. (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er til umr. og prentuð er á þskj. 388, er nokkurt nýmæli hér á hinu háa Alþ. Með henni er stefnt að því, að framleitt verði innanlands allt það kjarnfóður, sem bændur landsins telja sig þurfa til að fá sæmilegan arð af búfé sínu, og þar með sparaðar um eða yfir 20 millj. kr. árlega í erlendum gjaldeyri, þeim gjaldeyri, sem íslenzka þjóð hefur jafnan skort tilfinnanlega og mun skorta tilfinnanlega fyrst um sinn. Hugsun sú, sem á bak við till. felst, byggist á þeirri sannfæringu, að unnt sé og tiltölulega auðvelt a. m. k. með nútímatækni að halda lífi í og fá sæmilegan arð af búfé á Íslandi án þess að kaupa handa því fóður frá útlöndum. Sú skoðun er í sjálfu sér ekkert nýmæli. Margir merkir búnaðarfrömuðir hafa verið þeirrar skoðunar langa hríð. Vil ég þar til nefna fyrrverandi sandgræðslustjóra, er ég ræddi þetta mál lítillega við, og Klemenz Kristjánsson á Sámsstöðum. Marga fleiri ræktunar- og búnaðarfrömuði mætti nefna, þó að það verði ekki gert hér. Þó get ég ekki látið hjá líða að geta þess, að árið 1950 flutti ég till. um þetta mál á flokksþingi Framsfl. og fékk Sverri Gíslason, formann Stéttarsambands bænda, sem meðflm. að till. Till. þessi hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Flokksþingið telur nauðsyn, að sandgræðslan í Rangárvallasýslu verði þegar aukin verulega og þar verði byggð verksmiðja til framleiðslu á innlendum fóðurefnum.“

Þessi till. var samþykkt mótatkvæðalaust, að því er mig minnir, og birt í Tímanum 23. nóv. 1950. En þó að venjulegt sé í flestum lýðræðislegum flokkum að líta á það sem skyldu að fylgja fram slíkum flokksþingssamþykktum. gegnir nokkuð öðru máli um Framsfl. í því efni. Ráðamenn þess flokks hafa sjaldnast talið það skyldu sína að berjast fyrir till., sem óbreyttir flokksmenn hafa borið fram og samþykkt, né að hlíta ótvíræðum fyrirmælum flokksþinga. Þess vegna hafa hv. þingmenn Framsfl. ekki hreyft þessu máli á Alþingi til þessa. Þetta mál er þó þannig vaxið í eðli sínu, að það varðar hag þjóðarinnar allrar. Það er engin skynsemi í því fólgin að eyða erlendum gjaldeyri að nauðsynja- og þarflausu, allra sízt á tímum þegar verzlunarjöfnuðurinn við útlönd er árlega óhagstæður um tugi og hundruð millj. kr. og æðstu valdamenn þjóðarinnar telja hana eiga það úrræði eitt í þeim efnum að lúta því hlutskipti að biðja erlenda „vini“ sína um ölmusu. Og jafnvel þó að svo djúpt hefði ekki verið sokkið, hefur þjóð eins og við Íslendingar, sem horfist í augu við þá staðreynd að þurfa árlega að sjá vaxandi þjóðfélagi fyrir starfi og lífsbjörg, næga möguleika til að ráðstafa erlendum gjaldeyristekjum sínum, aðra en þá að gefa þær búfé. Frá sjónarmiði bænda sem slíkra skiptir það í sjálfu sér engu höfuðmáli, hvort þeir láta útlenzka afla fóðurs handa kvikfénaði sínum eða sína eigin landsmenn, svo framarlega sem erlenda fóðrið er ekki mun lakara og dýrara en það innlenda. En frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar skiptir það mjög miklu máli, hvort hinum takmarkaða erlenda gjaldeyri er varið til lífsnauðsynlegra hluta og skynsamlegra eða ekki.

Við flm. þessa máls höfum valið þá leið að leggja það fyrir í ályktunarformi. Gerum við það vegna þess, að við teljum eðlilegt og sjálfsagt, að það verði rannsakað og athugað í öllum atriðum, áður en framkvæmdir eru hafnar, og meir en við höfum sjálfir tök á að gera eða láta gera. Hins vegar lítum við svo á, að þeir aðilar, sem mestra hagsmuna hafa að gæta í þessu máli, ríkið og samtök bænda, hafi nægilega marga sérfræðinga, svo sem hagfræðinga, búfræðinga, fóðurfræðinga og verkfræðinga, í þjónustu sinni til að geta athugað og undirbúið málið fyrir hæstv. ríkisstj., án þess að ríkissjóður þyrfti að hafa af því sérstakan kostnað. Okkur er ljóst, að fyrirtæki eins og það, sem við höfum í huga við flutning þessa máls, gæti kostað 12–15 millj. kr. uppkomið. Og þó að það sé að vísu lítið fjármagn borið saman við árlegan innflutning á kjarnfóðri, er það þó nægilega mikið til að vanda sem bezt allan undirbúning málsins að öðru leyti. Þá er okkur það einnig ljóst, að það er hvorki sanngjarnt né eðlilegt að ætlast til þess, að bændur leggi einir fram stofnfé þessa fyrirtækis, sem hér um ræðir, þar sem þjóðin hefur öll mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við það, en bændur sérstaklega. Við viljum því leggja sérstaka áherzlu á það atriði þegar á frumstigi málsins, að við teljum heppilegustu og eðlilegustu lausn málsins, að ríkissjóður og félagssamtök bænda stofni í sameiningu fyrirtæki, hlutafélag, til að hrinda málinu í framkvæmd og leggi ríkissjóður fram meiri hl. af stofnkostnaði, og er það í samræmi við það, sem áður er sagt, að hér sé um að ræða hagsmunamál þjóðarheildarinnar og bænda sérstaklega. Sú lausn málsins er og í samræmi við yfirlýsta stefnu Þjóðvarnarflokks Íslands í efnahagsmálum, að þeir aðilar, sem mestra hagsmuna hafa að gæta við rekstur framleiðslutækjanna í hverju tilfelli, skuli eiga þau og reka í félagi og búa að þeim arði og þeim möguleikum, sem framleiðslutækin skapa. Loks viljum við flm. þáltill. á þskj. 388 leggja á það ríka áherzlu, að þeirri rannsókn, sem þar er farið fram á, verði hraðað svo sem mest má, til þess að þjóðin losni sem fyrst við það ófremdarástand að greiða af litlum efnum erlendum mönnum fé fyrir það að afla fóðurs handa kvikfénaði landsmanna. Að öðru leyti vísast til grg. með till.

Loks vil ég leggja til, að þeirri einu umr., sem ákveðin hefur verið um þetta mál, verði frestað og málinu vísað til hv. landbn.