14.10.1953
Sameinað þing: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í D-deild Alþingistíðinda. (3291)

39. mál, stóreignarskattur

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að skýra það mál, sem hér liggur fyrir til umr. Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni hér við 1. umr. fjárlaga, að það væri rétt, að það hefði verið tekið skúrræksni, eins og hann orðaði það svo smekklega, til greiðslu á stóreignaskatti. Í ræðu sinni hér áðan um fyrirspurnir hv. 1. landsk. (GÞG) lagði hæstv. fjmrh. á það ríka áherzlu, að ríkissjóði hefði borið skylda til að taka við eignum til greiðslu á þessum skatti.

Það er rétt, að í 12. gr. l. nr. 22 frá 1950 stendur svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Til greiðslu á skattinum er heimilt að afhenda eignir með því matsverði, sem ákveðið er í lögum þessum.“

Nú vil ég hins vegar leyfa mér að mótmæla þeim skilningi ráðh. á lögum þessum, að þar sem hér er verið að setja lög um, að ákveðnir aðilar skuli greiða skatt, sérstakan skatt, þá sé í sömu lögum og sömu lagagrein og um skattinn fjallar einnig gert ráð fyrir því, að þeir, sem þessi skattur er lagður á, geti líka losnað við að greiða hann, eins og hefur komið fram í einu tilfelli, eða að þeir geti meira en losnað við að greiða hann, þeir geti varpað á ríkissjóð kostnaði í sambandi við þær eignir, sem þeir afhenda til greiðslu skattsins. Það er m. ö. o. alveg sýnilegt, að löggjafinn ætlast til þess, að þær eignir, sem afhenda má upp í skattinn, séu í einhverju skynsamlegu verðhlutfalli eða verðgildi við þá greiðslu, sem skattgreiðandi átti að inna af hendi. — Þá vil ég líka benda á það, samkvæmt því sem hefur verið upplýst í þessu máli, bæði í umr. og blaðaskrifum um þau, að umrætt skúrræksni, sem fjmrh. svo orðaði, var afhent ríkissjóði til greiðslu á stóreignaskatti, eftir því sem mér hefur verið tjáð af ríkisbókhaldinu, að upphæð 126992 kr. Nú stendur í l., að það megi afhenda fasteign. og þá að mínum skilningi verðmæta fasteign, til greiðslu á þessum skatti á sexföldu fasteignamati, ef í Reykjavík er. Fasteignamatið á umræddu skúrræksni ráðh. er samkv. upplýsingum frá fjmrh. 17900 kr., og sex sinnum það eru 107400 kr. Af því er þá sýnilegt, að lögin, þó að um verðmæta eign hefði verið að ræða, hafa samt verið brotin í þessu tilfelli, þar sem skúrræksnið var tekið til greiðslu á meira en sexföldu verðmæti. Það er þess vegna í sambandi við þetta sérstaka mál allt á sömu bók lært fyrir hæstv. fjmrh., enda þótt hann vildi hér í sinni ræðu áðan telja, að skömmin og svívirðan væri þeirra, sem hefðu vakið máls á þessu hneykslismáli, en ekki hans.