14.10.1953
Sameinað þing: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í D-deild Alþingistíðinda. (3292)

39. mál, stóreignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég hélt nú satt að segja, að síðasti hv. ræðumaður mundi sjá sóma sinn í því að kúra sig niður í plögg sín, í stað þess að koma hér í ræðustólinn út af þessu máli, enda átti hann hingað lítið erindi. Það, sem hann gerði hér var að lesa upp úr lögunum um stóreignaskatt alveg skýlaust ákvæði um það, að ríkissjóði væri skylt að taka upp í stóreignaskatt eignir með því mati, sem sett væri á þær til skattsins, og taka það síðan fram, að hann — hann ( ! ) liti svoleiðis á, að þetta ákvæði væri markleysa, að skýlaust lagaákvæði væri markleysa. Enginn af þeim lögfræðingum, sem fjmrn. hefur borið þetta undir, hefur verið í nokkrum minnsta vafa um, hvað skylt væri að gera, hver væri meiningin með þessu lagaákvæði, ef hún væri ekki sú, sem skráð er glöggum orðum í lagabálkinum. En náttúrlega þarf hv. þm. að sýna fram á þetta, að lagaákvæðið sé markleysa, ef hann ætti að geta skotið fótum undir þann róg út af þessu, sem hann hefur staðið fyrir bæði utan þings og innan. Svo bætir hv. þm. gráu ofan á svart með því að fara að tala um það, að ofan á allt annað muni skúrinn hafa verið tekinn fyrir meira en sexfalt fasteignamat. Þó var ég að enda við að upplýsa það áðan, samkv. því sem fulltrúarnir í fjmrn. hafa gefið mér upp, að fasteignamatið á skúrnum var 21 þús. rúmlega, og ef það er margfaldað með sex, þá skilst mér, að út komi sú tala, sem skúrinn var á metinn til skatts og upp í skattinn.

Hv. 1. landsk. þm. sagði, að það væri stórámælisvert, að af 49 millj. væri ekki búið að innheimta nema 42 á þremur árum. sagði hv. þm. En hv. þm. sleppti bara alveg að athuga, að meginhlutinn af þessum tíma hefur farið í kærufresti, sem menn eiga rétt á eftir lögum, og í það að úrskurða þær kærur manna og í málaferli, sem allt hefur blandazt inn í innheimtu skattsins. Fram hjá þessu er ómögulegt að líta, og ég er algerlega kinnroðalaus vegna útkomunnar á þessu. Nú verður gengið í að innheimta það, sem eftir er, þegar málaferlunum er lokið. Hins vegar ber náttúrlega að játa, að það getur farið eftir dugnaði innheimtumanna á hverjum stað, — það er ekki einn innheimtumaður, sem hefur þetta með höndum, — hvernig gengur um innheimturnar.

Hv. þm. sagði, að það væri undarlegt, að nokkur eyrir væri eftir óinnheimtur af þessum skatti, og væri því ekki til að dreifa með aðra skatta, sem þeir fátæku ættu að borga, því að þeir væru allir innheimtir á réttum gjalddögum. Vitanlega veit hv. þm. miklu betur, hann veit það, að það eru ætíð verulegar eftirstöðvar af sköttum, sem dregst fram yfir gjalddaga að innheimta og þarf að innheimta með lögtökum. Það er ekki hægt að koma fram með neina rökstudda gagnrýni á hraðann í þessu máli, að mínum dómi, hvorki álagningu né innheimtu.

Hv. þm. sagði, að matsreglan væri mjög vafasöm í lögunum. Kannske hefur hún verið vafasöm, en mönnum var ætlaður þessi réttur, að afhenda eignir með því verði, sem þær voru metnar, og löggjafinn gerði sér vafalaust grein fyrir því fyrir fram, hvernig þetta var vaxið. Fjmrn. var auðvitað skylt og skattstjóra og ríkisskattanefnd að fara eftir l., en ekki einhverju öðru, hlutu að fara alveg eftir lögunum í þessu tilliti. — Hv. þm. sagðist hafa skilið það svo, að fjmrn. hafi skipt um framkvæmd, þegar það sá missmíði á þessu, og farið þá að neita því að taka eignir upp í skattinn nema eftir dómi, en þetta er byggt á einhverjum misskilningi. Þetta er ekki þannig, heldur stendur þannig á, að skattgreiðandi fór í mál út af mati á fasteign, hvort það væri skylt að binda sig undir öllum kringumstæðum við sexfalt í Reykjavík, þótt kvaðir væru á. (Gripið fram í.) Já, ég kem bráðum að því. — Hv. þm. segir, að ríkissjóður hefði átt að fara í mál til þess að fá lækkað matið á vissum eignum, ríkissjóður hefði átt að fara í mál til þess að fá lækkaðan skattinn hjá hinum og öðrum og komast þannig hjá því að fá ónýtar eignir upp í hann. Til þess hefði þurft mikla framsýni, og mér er alveg ljóst, hvað þá hefði verið sagt. Þá hefðu þeir, sem nú eru að deila á út af þessari framkvæmd, bara sagt, — t. d. ef fjmrn. hefði átt frumkvæði að því að lækka matið á Hagaeigninni fyrir hlutafélagið, sem framleiðir Coca-cola, — þá hefðu þeir sagt, að fjmrh. væri að ívilna gróðafélögum með því að fá lækkaðan á þeim skattinn. Það hefði orðið rógburður út af því, að Eysteinn væri að ganga fram fyrir skjöldu til þess að lækka skattinn á auðfélögunum í landinu.