14.10.1953
Sameinað þing: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í D-deild Alþingistíðinda. (3293)

39. mál, stóreignarskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú verið að verja hendur sínar í þessu máli á þann veg, að hann hefði verið bundinn af lögum og hann hefði ekki getað komizt lengra vegna lagaákvæða en hann hefði gert. Staðreyndin er samt sú, að skattheimtan frá stóreignamönnunum á þessum 50 milljónum, sem eru smápeningur þeirra, hefur gengið seint og illa, vegna þá, skulum við segja, fjötra laganna, sem hæstv. fjmrh var i, en niðurstaðan er þessi: Þetta hefur gengið seint og illa. Þessi skattpeningur hefur viljað skila sér seint, einkanlega frá ráðh. ríkisstj., og það er siðferðislegi bletturinn við þetta. (Gripið fram í: Hvaða ráðherrar eru það?) Ja, ætli það sé ekki sá, sem hefur skyrpentuna á nefinu, eins og Natan Ketilsson sagði einu sinni, og þá greip sá seki upp í nefið á sér. (BÓ: Vill þm. standa við þetta?) Ja, maður álítur það svo sem augljóst hér í sal hv. sameinaðs Alþingis, hver þarna er úr hópi ráðh., sem hér er um að ræða. Það er sá, sem hefur skyrpentuna á nefinu, það er sá, sem er búinn tvisvar sinnum að vekja athygli á sjálfum sér hér. — En í sambandi við þetta mál vil ég svo segja það: Hæstv. ráðh. hefur upplýst, að það hafi verið mjög fáir, sem hafi gripið til þess að borga með verðlausum eignum, en nokkrir — og hverjir helzt? Ráðherrar úr ríkisstjórninni.

Annað dæmi mun vera til í þessa átt, um svona viðleitni. Það var reynt að borga samkv. 1. með verðlitlum eignum á afskekktum stað, þar sem eignirnar voru orðnar lítils virði, og þar með átti að borga stóreignaskatt mikils og auðugs hlutafélags. Ráðh. komst ekki undan þessu, hann varð að gera þetta, vegna þess að lögin mæltu svo fyrir. En þá voru ýmsir hluthafar úr þessu félagi, sem jafnframt voru meðráðherrar hans í ríkisstj. og töldu, að félagið hefði þarna sloppið billega, og vildu nú fá að borga sinn persónulega stóreignaskatt líka með sömu ræksnunum, skúrræksnunum þar, á þessum afskekkta stað, og þá sagði nú hæstv. fjmrh. stopp. Og það urðu úr því málaferli. Ég veit ekki, hvort þetta eru ein af þeim málaferlum, sem enn þá eru óútkljáð, en verið gæti, að svo væri. Það, sem blasir hér nú við hv. þingheimi, er það, að hæstv. ráðh. hefur verið í glímu við meðráðherra sína, og það eru hin fáu dæmi, sem hann segir að séu í þá átt, að menn og félög hafi leitazt við að borga með verðlitlu skrani. Það er sem sé úr ríkisstj. sjálfri, og það er það, sem sýnir, að hér eru ekki háar siðferðislegar kröfur gerðar til ráðh. Og lægstar kröfurnar virðast vera gerðar til þeirra af þeim sjálfum, og það er hneyksli málsins.