02.12.1953
Sameinað þing: 20. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í D-deild Alþingistíðinda. (3307)

55. mál, bifreiðakostnaður ríkisins og opinberra stofnana

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef engu að bæta við þá grg., sem hæstv. forseti gaf um það, hversu margþætt það mál er, sem hér er spurt um, þar sem eru bifreiðar víðs vegar um landið við hin ólíkustu störf og hjá hinum ólíkustu ríkisfyrirtækjum, að því er mér skilst. Það er því ærið verk, sjálfsagt, að svara fyrirspurninni. — Hins vegar er það vitað, — ég hélt, að hv. þm. væri það kunnugt, — að hæstv. forsrh., sem á að svara þessari fsp., er bundinn við annað í dag, þar sem er borinn til grafar einn mikilsmetnasti skipstjóri landsins og gamall einkavinur forsrh. um tugi ára, Björn Ólafs, og eru það fullgild forföll til þess að geta ekki samtímis verið hér og við þá athöfn.