22.10.1953
Sameinað þing: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í D-deild Alþingistíðinda. (3316)

211. mál, húsnæði leigt varnarliðsmönnum

Fyrirspyrjandi (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum var frá því skýrt í dagblöðum hér í bæ, að á bæjarstjórnarfundi hefði borgarstjóri lýst yfir því, að bæjaryfirvöldin hefðu tekið til ráðstöfunar húsnæði til að geyma í húsmuni fjölskyldna, sem ekkert húsnæði gátu fengið yfir höfuð sér. Það er að vísu vel, að bæjaryfirvöldin hér skuli sýna þau brjóstgæði að sjá aumur á húsmunum manna, þegar vetur fer í hönd, svo að þeir þurfi ekki að verða eyðileggingu stórviðra vetrarins að bráð. Ber að meta slíkt að verðleikum. En hjá hinu verður ekki komizt, að gera sér einhverja grein fyrir því, hvernig muni ástatt um það fólk, sem koma þarf húsmunum sínum til geymslu hjá því opinbera fyrir veturinn, svo og því, hvort hið opinbera telji sig hafa minni skyldur að rækja við fólkið sjálft en húsmuni þess.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að skortur á íbúðarhúsnæði er eitt af alvarlegustu vandamálum íbúa þessa bæjar í dag. Talandi tákn um það er, að fyrir hv. Alþ. munu nú liggja að minnsta kosti ein þrjú frv., sem ætlað er að bæta úr því neyðarástandi, sem ríkjandi í þeim efnum. Þá er það alkunna, að það eru fyrst og fremst barnafjölskyldur, sem harðast verða úti vegna húsnæðisskortsins. Allir kannast við auglýsingar í blöðum, sem hljóða eitthvað á þessa leið: Íbúð til leigu. Aðeins barnlaust fólk kemur til greina. — Það er því ekki erfitt að gera sér í hugarlund, hverjir það muni vera, sem þurfa að leita á náðir bæjaryfirvaldanna með húsmuni sína undir veturinn. Það eru barnafjölskyldur og þá fyrst og fremst þær barnafjölskyldur, sem ekki hafa efni á því að borga þá okurleigu, sem upp er sett af eigendum íbúða, ef einhverjar eru lausar til leigu.

Það þarf engan sálfræðing til þess að geta gert sér grein fyrir því, hverja andlega og líkamlega misþyrmingu sú æska verður að þola, sem fædd er og dæmd til að búa við þær þjóðfélagsaðstæður, sem birtast í því, sem ég hef hér sagt. Fjölskyldur, sem neyddar eru til að koma húsmunum sínum til geymslu hjá því opinbera undir vetur, eru jafnframt dæmdar til að leysast upp. Og þó að þeim kynni að takast að fá þak yfir höfuðið einhvers staðar sitt í hverri áttinni, þarf ekki að fara í grafgötur um það, hve holl áhrif það húsnæði muni hafa á uppvaxandi kynslóð, þegar það er á þann veg, að hinum fábrotnu húsmunum verður að koma til geymslu annars staðar og sundra heimilinu.

Í annan stað er það kunnara en frá þurfi að segja, að hið erlenda herlið, sem hér dvelur, hefur á leigu fjölmargar íbúðir hér í bæ og hefur beinlínis í krafti peninga sinna keypt íslenzkar barnafjölskyldur út á götuna undir vetur með því að bjóða meira fé í leiguíbúðir í bænum en fátækar íslenzkar barnafjölskyldur réðu við, svo að sleppt sé öðrum og alvarlegri atriðum í því sambandi. Eitt blað hér í bæ, Frjáls þjóð, sem ekki hafði aðra ástæðu til þess að blanda sér í þetta mál en þá sígildu, að láta sér ekkert mannlegt óviðkomandi, benti í fyrrahaust á nokkrar íbúðir hér í bæ, sem leigðar væru herliðinu, og afleiðingar þess urðu þær, að þessar íbúðir voru flestar að minnsta kosti losaðar og leigðar Íslendingum. En hæstv. fyrrv. ríkisstj. taldi hag Íslendinga bezt borgið með því að aðhafast ekkert í málinu.

Nú er í hinum svonefnda varnarsamningi, 3. gr., komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta: „Það skal vera háð samþykki Íslands, hverrar þjóðar menn eru í varnarliðinu, svo og með hverjum hætti það tekur við og hagnýtir þá aðstöðu á Íslandi, sem veitt er með samningi þessum.“

Vegna þess, að hér er ótvírætt, að það er á valdi Íslendinga og þá fyrst og fremst hæstv. ríkisstj. að ákveða það, hvort varnarliðið skuli hagnýta þá aðstöðu, sem því er veitt hér á landi, á þann veg að kaupa íslenzkar barnafjölskyldur út á götuna undir vetur, og með hliðsjón af því, sem ég hef hér að framan sagt um neyðarástand í húsnæðismálum Reykvíkinga, hef ég borið upp þessa fsp. á þskj. 62, svo og til að grennslast fyrir um það, hvort vesaldómurinn og hin skilyrðislausa og auðmjúka þjónusta hefði vikið úr sæti með hæstv. fyrrverandi utanrrh. og við tekið íslenzkur manndómur og umhyggja um hag og sæmd og velferð Íslendinga með hæstv. núverandi ráðh.

Fsp., sem ég hef upp borið á þskj. 62, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar eða eru í undirbúningi af hálfu utanrrn. til að losa það íbúðarhúsnæði handa húsnæðislausum Reykvíkingum, sem herliðið eða erlendir menn á þess vegum hafa á leigu í Reykjavík? Ef engar ráðstafanir hafa verið gerðar né eru í undirbúningi í þessu efni, hvernig stendur þá á því, að svo er ekki, þegar tekið er tillit til þess ástands, sem nú ríkir í húsnæðismálum bæjarbúa?“