22.10.1953
Sameinað þing: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í D-deild Alþingistíðinda. (3317)

211. mál, húsnæði leigt varnarliðsmönnum

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að gera fsp. hv. 8. landsk. (BergS) nokkur skil. Fsp. er að vísu tvenns konar, nokkur hluti af henni kemur mér ekki við, því að það er almennt um húsnæðismál í Reykjavik, svo að ég tel mér ekki skylt að svara öðru en því, sem snertir það atriði í fsp. um íbúðir, sem leigðar séu hernum.

Ég skal geta þess fyrst, að eiginlega er það ekki réttur aðili að snúa sér með þessa fsp. til mín.

Í Reykjavík starfar húsaleigunefnd. Samkvæmt l. nr. 30 frá 1952, um hámark húsaleigu o. fl., segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Leigusala (framleigusala) er óheimilt að leigja öðrum en heimilisföstum innanhéraðsmönnum íbúðarhúsnæði, og eru slíkir leigusamningar ógildir.“

Í niðurlagi sömu greinar er enn fremur sagt: „Húsaleigunefnd getur látið framkvæma útburð á þeim utanhéraðsmönnum, sem ólöglega hafa tekið húsnæði á leigu eða flutt í það samkvæmt framansögðu, og skal þessu húsnæði ráðstafað handa húsnæðislausum innanhéraðsmönnum.“

Samkvæmt þessu eiga engir erlendir menn rétt til húsnæðis í Reykjavík, nema í sérstökum undantekningartilfellum. Hitt er og jafnaugljóst, að það er á valdi húsaleigunefndar að skera úr um það atriði og sjá að öðru leyti um, að ákvæðum laganna sé framfylgt í samráði við hið almenna lögregluvald. Það er því ekki á valdi utanrrn. né innan verksviðs þess að sjá um framkvæmd þessara laga.

Utanrrn. hefur þó reynt að afla þeirra upplýsinga, sem fyrir hendi eru í þessu máli, m. a. hjá skrifstofu framfærslumála Reykjavíkurbæjar. Bæjarstjórn Reykjavíkur lét í september s. l. fara fram nákvæma athugun á húsnæði í Reykjavík, þ. á m. hve margar íbúðir væri um að ræða, sem ekki væru löglegir leigusamningar gerðir um, og ég skal taka það fram til skýringar, að ef erlendir hermenn hafa íbúðir á leigu, þá eru það ekki löglegir leigusamningar. Rannsókn þessa framkvæmdu tveir menn, og fóru þeir í hvert hús innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, sem annaðhvort hefur rafmagn eða hitaveitu, þ. e. a. s. praktískt talað í allt íbúðarhúsnæði. Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær, að aðeins á sjö stöðum þótti tvísýnt, að leigumálar væru gildir að lögum. Síðan hefur komið í ljós, að á tveim þessara staða er um fullgilda leigumála að ræða, þar sem starfsmenn sendiráðs Bandaríkjanna hafa þar íbúðir á leigu. Það er ekki enn fullupplýst um hina staðina fimm, en mér er kunnugt um, að á þessum fimm stöðum eru fjórar íbúðir og eitt einstaks manns herbergi, sem talið er að leigt sé bandarískum manni. En þessi tilfelli munu hafa verið kærð fyrir húsaleigunefnd og henni falið að rannsaka þessi mál og gera úrbætur á þeim. Ég get ekki nú sem stendur upplýst um, hvernig það hefur farið, því að mér hefur ekki unnizt tími til þess.

Skrifstofustjóri framfærslumála gat þess, að ýmsum hefði komið á óvart, hve hér væri um fá tilfelli að ræða, en útilokað væri, að það væri vegna þess, að rannsókn hefði verið ófullkomin. Hann skýrði frá því, að sér hefðu borizt fjölmargar kærur um, að hermenn eða menn á vegum hersins hefðu íbúðir í óleyfi hér í bænum. Í öllum tilfellum hefði rannsókn verið látin fara fram, og alltaf hefði útkoman verið sú, að um löglegan leigumála hefði verið að ræða. Hann sagðist hafa skrifað Leigjendafélaginu, Fasteignaeigendafélaginu, sakadómara og lögreglustjóra og beðið þessa aðila að benda sér á, ef þeir hefðu orðið varir við eitthvað athugavert í þessum efnum, en ekki fengið nein svör né ábendingar frá þeim í þá átt. Allt bendir því til þess, að sá orðrómur, sem uppi hefur verið hér í bæ um það, að fjöldi Bandaríkjahermanna leigði sér íbúðir í leyfisleysi, hafi ekki við rök að styðjast. Hér er aðeins um örfá tilfelli að ræða, og hefur það nú verið kært og rannsókn hafin, eins og ég gat um áðan.

Hitt er annað mál, að í bænum dvelst að jafnaði nokkur fjöldi Bandaríkjamanna, sem fulla heimild hafa til að leigja íbúðir. Fyrst og fremst eru það starfsmenn sendiráðs Bandaríkjanna og skyldulið þeirra. Ég hef hér látið gefa mér lista yfir þessa starfsmenn og heimilisföng þeirra. Samkvæmt honum eru starfsmenn hjá sendiráðinu alls 26, með 14 konur og 18 börn á framfæri. Samtals hefur þetta fólk 21 íbúð á leigu hér í bænum. Í öðru lagi eru menn, sem hér eru á vegum íslenzkra atvinnufyrirtækja þeim til leiðbeiningar og aðstoðar. Hef ég einnig lista yfir þá menn, sem hér eru á vegum áburðarverksmiðjunnar. Eru það alls 7 karlmenn og tveir af þeim eru fjölskyldumenn. Hafa þeir íbúðir hér í bænum. Einn býr í herbergi í einkahúsi hér, en hinir munu vera á gistihúsi. Enn fremur má benda á það, að nokkrir bandarískir menn, bæði hermenn og menn á vegum hersins, eru kvæntir íslenzkum konum. Í því tilfelli, að þeir hafi hér íbúðir á leigu, er það gildur leigusamningur, vegna þess að íslenzk kona hefur sama rétt og aðrir til að gera leigusamning vegna jafnréttis karla og kvenna. Ekki leikur vafi á því, að ýmsir gera eðlilega ekki greinarmun á þeim mönnum, sem hér eru taldir, og öðrum, og á það sinn þátt í þeim misskilningi, sem nú ríkir um þessi efni.

Þess skal að lokum getið, að hagstofan gat ekki gefið neinar upplýsingar um þetta mál, nema leita í manntalinu frá 16. okt. 1952, en það hefur ekki raunhæfa þýðingu. Sama er að segja um manntalsskrifstofu Reykjavíkur. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur beðið útlendingaeftirlitið að leita í spjaldskrá embættisins, ef það kynni að verða til þess, að einhverjar upplýsingar fengjust, sem að gagni mættu koma, en bjóst þó ekki við miklum árangri. Hins vegar vil ég geta þess, að nú þessa daga er verið að ljúka manntali í Reykjavik, og ég mun strax þegar því er lokið og skýrslur eru komnar inn láta fara yfir manntalið til þess að reyna að fá fyllri upplýsingar um þetta. Og ég vil taka það fram, að ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að þessar upplýsingar séu sannar og réttar og rannsóknin hafi verið samvizkusamlega framkvæmd. Ég held því, að það sé misskilningur, sem hv. flm. sagði, að það sé kunnara en frá þurfi að segja, að bandarískir hermenn hafi fjölda íbúða hér í bænum. Hér eru margir aðilar, sem geta upplýst þetta, til dæmis Leigjendafélagið, en í stjórn þess eru menn, sem áreiðanlega hafa áhuga á því, að þessi ákvæði húsaleigulaganna séu ekki brotin. Og auk húsaleigunefndarinnar kunna að vera aðrir aðilar, sem vilja fylgjast með þessum málum, eins og pólitísku flokkarnir sumir eins og t. d. Þjóðvfl. hefur gert og látið koma fram í blaði sínu, ef þeir vita um dæmi um ólöglega leigu.