22.10.1953
Sameinað þing: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í D-deild Alþingistíðinda. (3320)

211. mál, húsnæði leigt varnarliðsmönnum

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það er eitt atriði varðandi þessi mál, sem ekki bar á góma í viðræðum þeirra hæstv. utanrrh. og hv. 8. landsk., en þó skiptir verulegu máli í því sambandi, sem hér er um að ræða, en það er spurningin um, hvort það kann að eiga sér stað, að erlendir menn, sem hér hafa húsnæði á leigu lögum samkvæmt, kunni að greiða húsaleigu í erlendum gjaldeyri, í dollurum eða annarri erlendri mynt. Með þessum hætti, ef þetta er rétt, er auðséð, að hinir erlendu leigutakar hafa allt aðra aðstöðu til þess að fá húsnæði í Reykjavík, sem mjög er af skornum skammti, heldur en innlendir menn. Ég hef ekki séð á það minnzt opinberlega, hvorki til né frá, hvort þetta sé rétt eða ekki, en hinu er ekki að leyna, að almannarómur telur, að að því séu allmikil brögð, að erlendir menn, sem hafa hér rétt til þess að taka húsnæði á leigu, greiði þetta húsnæði í erlendri mynt. Ýmsir telja jafnvel, að hæstv. ríkisstj., hæstv. utanrrh., sé og hafi verið kunnugt um þessa venju, en hún ekki hafzt neitt að. Ég vildi leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. utanrrh., hvort honum sé kunnugt um þetta, og ef svo er, þá hvort hann telji það eðlilegt eða löglegt og hvort hann hyggist láta það viðgangast áfram.