22.10.1953
Sameinað þing: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í D-deild Alþingistíðinda. (3328)

212. mál, ólöglega innfluttar vörur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla ekki að fara að skattyrðast hér við þennan hv. þm. Það er erfitt að ræða við hann um þessi mál. Ég ætla að nota tækifærið einmitt til þess að minnast á það, að þessi hv. þm. lýsti mig ósannindamann fyrst hér á hv. Alþingi og síðan í blaði sínu, Frjálsri þjóð. Það var í sambandi við fasteign þá, sem afhent var hér upp í stóreignaskatt og varð að rífa. Upplýsti ég, að fasteignamatið á þessari eign hefði verið 21 þús. og eitthvað kr. og eignina hefði orðið að taka með því sexföldu, sem sé 127 þús. kr., upp í stóreignaskattinn. Þá var hv. þm. ekki lengi að því, fremur en hann er vanur, að segja, að þetta væri ósatt, og lýsti mig hér ósannindamann að þessu og síðan í blaði sinu. Nú síðan hafa tveir menn, sem fjölluðu um þessi mál, fulltrúi í fjmrn. og fulltrúi á skattstofunni, gefið skýrslu. Þessi hv. þm. mátti náttúrlega vita það, að sú tala, sem ég fór með, hlaut að vera rétt, vegna þess að starfsmenn fjmrn. gefa mér ekki upp rangar tölur til þess að fara með hér á hv. Alþingi, og því síður að ég eða þeir segi vísvitandi ósatt. Þess vegna hefði hv. þm. mátt spara sér öll stóryrðin og verið betra fyrir hann að spara þau. En hann tók annan kost. Hann lýsti mig sem sagt ósannindamann að þessu. En ég vil gjarnan fá inn í þingtíðindin þá skýrslu, sem fulltrúarnir á skattstofunni og í fjmrn. hafa gefið, einmitt um, þetta fasteignamatsmál, og með leyfi hæstv. forseta, þá er hún þannig:

„Í janúarmánuði 1951 var okkur undirrituðum afhent afsal frá verksmiðjunni Vífilfell til ríkissjóðs fyrir hluta úr eigninni Haga við Sandvíkurvog hér í bæ. Var þá fyrir hendi fasteignamat á eigninni Haga í heild, en ekki einstökum hlutum hennar, og þurfti því að finna matsverð þess hluta, er afhenda skyldi ríkissjóði. Afsalinu fylgdi eftirfarandi matsgerð tveggja dómkvaddra manna um verðmæti útbyggingarinnar, sem ríkissjóði var afhent sem greiðsla á stóreignaskatti félagsins.“

Og svo kemur orðrétt þessi matsgerð:

„Samkvæmt framanskráðri útnefningu hafa matsmenn framkvæmt umbeðið mat.

Af misskilningi var okkur fyrst afhent útnefningin 29. þ. m., og hefur matsgerðin því ekki verið framkvæmd fyrr en í dag, 31. des. 1951.

Að skoðunargerð lokinni og þeim mælingum, sem nauðsynlegar voru, svo og að fengnum upplýsingum um ástand eignarinnar við fasteignamat, teljum við útbygginguna vera, reiknaða í hundraðshlutum af allri eigninni, 14,75%.

Matsgerð þessa erum við reiðubúnir til að staðfesta, þegar þess kann að verða krafizt. Reykjavik, 31. des. 1951.

Gústaf E. Pálsson, Tómas Vigfússon.“

„Rétt þótti,“ segja fulltrúarnir, „að fá staðfestingu fasteignamatsins í Reykjavík á matsgerð þessari. Var það gert, og barst svar frá fasteignamatinu þannig, að ritað er á áðurgreinda matsgerð:

„Staðfest — Reykjavik, 25. febr. 1952.

Fasteignamat Reykjavíkur.

Einar Kristjánsson, M. Björnsson.“

Fasteignamat allrar eignarinnar Hagi var í árslok 1949 144 þús. kr. Í samræmi við ákvæði stóreignaskattslaganna var því eignin talin félaginu til stóreignaskatts á því verði sexföldu. 14,75% af fasteignamatinu var því 21240 kr., en sú fjárhæð sexföld kr. 127144.00.

Nú kemur í ljós, að fasteignamatið í Reykjavík hefur metið eignina að nýju, eftir að hluti hennar var orðinn eign ríkissjóðs, og metið útbygginguna á kr. 17900.00, en það mat er óviðkomandi skattlagningunni og eignaryfirtökunni, svo sem ofanritað ber með sér. Eignahlutann varð ríkissjóður sem sé að taka á því mati, sem lagt var til grundvallar skattaálagningunni, en það var fasteignamatið, sem í gildi var 31/12 1949.

Reykjavík, 17. okt. 1953.

Kjartan Ragnars,

fulltrúi í fjármálaráðuneytinu.

Árni Halldórsson,

fulltrúi á Skattstofu Reykjavikur.“

Á þessu sjá menn, hvort ég muni hafa verið ósannindamaður að þessu með fasteignamatið á eigninni, enda mátti nærri geta um það. En hvað gerði þessi hv. þm.? Hann hleypur upp í fjmrn., hittir þar mann, fær hjá honum upplýsingar um fasteignamat það, sem nú er á eigninni, og hleypur með það í blað sitt. — Ég heyri vel skrjáfa í blaði, og ég sé, að hv. þm. er með blaðið þarna núna og er að búa sig undir að koma með það hér á eftir, skilst mér, en ég skal gera það óþarft fyrir hann. — Hv. þm. hleypur upp í fjmrn., hefur samband við mann, sem vinnur í fasteignamati, og fær hjá honum vottorð um, að fasteignamatið sé kr. 17900.00, sem það var þá orðið, hleypur svo með það í blaðið Frjálsa þjóð og lýsir mig lygara að því, sem ég hafi sagt hér á Alþ., sem sé því, að fasteignamatið hafi verið kr. 21600.00. Áreiðanlega gerði hann það ekki í góðri trú, því að áreiðanlega vissi hann það og gat a. m. k. fengið að vita það, ef hann hefði athugað málið svolítið betur, að málavextir voru þeir, að hér var um tvö fasteignamöt að ræða, annað fasteignamatíð, sem gilti 31/12 1951, og átti að taka eignina samkv. því, og hitt hið nýrra fasteignamat, sem hann hafði fengið upp gefið. Hv. þm. hefði verið í lófa lagið að fá þetta upplýst, en hann kaus það heldur — og það lýsir honum vel — að lýsa mig ósannindamann að þessu, en þurfa svo náttúrlega að taka það allt aftur, alveg eins og nú.

Nú kemur hv. þm. hér og segir, að ég hafi gengið svo langt að segja um þetta bréf frá 17. nóv. 1952, að þessar ákærur hafi aldrei verið skrifaðar. Ég vil lesa hér upp það, sem skrifstofustjórinn og fulltrúi í fjmrn. hafa um það að segja. En hann var áðan að lýsa því, hvað þessir menn væru mikil prúðmenni, alveg gagnstætt við mig. Þeir segja orðrétt um 1. spurningu hv. þm.:

„Félag ísl. iðnrekenda sendi ráðuneytinu 17. nóv. 1952 þrjú bréf, en ekkert þeirra hafði að geyma ákæru þá, sem um er spurt.“

Spurningin er því út í hött. Þetta er frá þeim mönnum, sem þetta hafa rannsakað. Ég spurði skrifstofustjórann að því tvisvar, þótt ég raunar ætti að þekkja þennan hv. þm., þannig að mér átti ekki að koma þetta á óvart. Ég spurði hann samt tvisvar: Er það alveg víst, að þetta geti verið rétt? Og hann sagði: „Fulltrúinn hefur borið sig saman við skrifstofustjórann í Félagi ísl. iðnrekenda, og svarið er rétt eins og það er sett þarna niður.“ Ákæra hefði ekki komið, heldur þrjú bréf um annað efni.