22.10.1953
Sameinað þing: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í D-deild Alþingistíðinda. (3333)

213. mál, lánveitingar út á smábáta

Fyrirspyrjandi (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir skýrslu hans, en mér varð ekki alveg ljóst af henni, hvort ríkisstj. hefur tekið þannig til greina þál. frá í fyrra, að hún hafi skorizt í þetta mál, eða hvort í skýrslunni fólust upplýsingar um það, hvernig ástandið var og að ástandið sé nú eins og það var.

Mér er vel ljóst, að smábátar hafa getað fengið tryggingu stund úr ári, en ekki á sama hátt og dekkbátar. Og þetta hefur reynzt ófullnægjandi. Smábátaeigendurnir hafa ekki getað fengið lán út á þessa báta sem veð, því að lánsstofnanir, þ. á m. fiskveiðasjóður, hafa svarað því til, að þessir bátar væru í raun og veru eins og lausafé. Og þegar nú hæstv. ráðh. upplýsir, að bátar fimm tonna og minni liggi utan við það svið, sem fiskveiðasjóður tekur báta til greina á, þá virðist mér, að hér vanti mjög á, að komið sé í það horf, sem við flm. ætluðumst til og ég hygg að þingheimur með samþykkt till. í fyrra hafi ætlazt til.

Það er sem sé margt af þeim bátum, sem gengur á grunnmið og heldur uppi atvinnulífi á smástöðum, fimm tonn og minna, og það eru þeir bátar, eins og hinir bátarnir, sem þurfa að geta verið veð fyrir hæfilegum lánum, miðað við það verðmæti, sem í þessum fleytum felst.

Ég vil þess vegna óska þess, að ef það er rétt skilið, að þessir bátar séu enn ekki veðhæfir og eigendur þeirra eigi í sama stríðinu og þeir hafa að undanförnu átt með að fá fé til þess að koma sér upp þessari útgerð, þá beiti hæstv. ríkisstj. sér fyrir því, að úr þessu verði bætt. Mér skilst í raun og veru, að það hilli undir möguleika til þess að tryggja þessa báta. Mér skilst að Samvinnutryggingar hafi tekið það upp að bjóðast til að taka þessa báta í tryggingar. Vera má, að það sé á einhvern takmarkaðan hátt. Ég gerði ráð fyrir því að hæstv. ríkisstj. hefði fylgzt með því og mundi geta upplýst um þetta, en þó að Samvinnutryggingar hafi gert þetta og samvinnufélögin þar með brotið ís, þá er það ekki fyrir það, að ríkið hafi gagnvart þessum skipum gert það sem ber eða einkaframtakið. Og ég efast um, að enn séu þessi mál þannig hjá Samvinnutryggingum, að fullnægt geti. Æskilegt væri, að hæstv. ríkisstj. vinni meira en hún hefur gert fyrir þessi mál.