22.10.1953
Sameinað þing: 10. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í D-deild Alþingistíðinda. (3334)

213. mál, lánveitingar út á smábáta

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hef í rauninni ekki miklu við að bæta. Ég hef upplýst, að lán eru veitt út á þessa smábáta eftir sömu reglum og út á stærri báta, og ég hef náttúrlega ekki treyst mér til þess að ákveða gegn skoðun þeirra, sem stjórna fiskveiðasjóðnum, að veðhæfir séu t. d. bátar, sem eru ein eða tvær smálestir. Þeir, sem óska eftir, að því verði þannig fyrir komið, ættu þá að bera fram um það skýrari fyrirmæli en nú gilda. Ég hef einnig upplýst, að þessir bátar eiga aðgang að vátryggingarfélögunum. Ég hef upplýst, að í öndverðu var um að ræða skyldutryggingu þessara báta, en að þeir, sem töldu sig málsvara þeirra manna, sem bátana eiga, mæltust til þess á Alþingi, að þessi skyldutrygging væri afnumin. Alþingi varð við þeim tilmælum, en heimilaði tryggingarfélögunum að vátryggja bátana, að tilskildu samþykki samtryggingarinnar. Samtryggingin hefur í eitt skipti fyrir öll afsalað sér umsögn í hverju einstöku tilfelli og gefið hinum einstöku tryggingarfélögum fullt vald til að fara þar eftir þeim reglum, sem þau telja skynsamlegar, miðað við staðhætti í einstökum útgerðarþorpum eða verstöðvum.

Ég held ekki, að undan þessu sé ástæða til að kvarta. Ég er hins vegar fús til að eiga viðræður við hv. fyrirspyrjendur um, hvort t. d. sjútvmrn., sem hefur náið samstarf við stjórn fiskimálasjóðsins, gæti komið þar einhverju góðu til leiðar í framkvæmdinni, liðkað eitthvað til á þeim fáu einstöku stöðum, sem kynnu að krefjast úrbótar umfram þær almennu reglur, sem ég hef hér skýrt frá.

Annað eða fleira sé ég ekki ástæðu til að taka fram í þessu sambandi.