28.10.1953
Sameinað þing: 12. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í D-deild Alþingistíðinda. (3347)

215. mál, Iðnaðarbanki Íslands h/f

Fyrirspyrjandi (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Allt frá landnámsöld hafa fiskveiðar og landbúnaður verið höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar, en oft verður þess þó vart í fornbókmenntum okkar, að heimilisiðnaður á einnig drjúgan þátt í atvinnulífi fólksins. Hin sterka hvöt Íslendingsins til þess að vera sjálfum sér nógur gengur sem rauður þráður um allar þessar sögur. Smiðjur og smíðahús eru við hvert býli, og þar eru smíðuð nauðsynleg tæki til vinnu utan húss og innan.

Stórvægilegt átak til þess að gera iðnað að atvinnuvegi hefst þó ekki fyrr en hinn mikli brautryðjandi Skúli Magnússon landfógeti hefst handa með innréttingum sínum fyrir rúmum tveimur öldum. Skilningsleysi samtíðarmanna Skúla fógeta olli því þó, að hugsjónir Skúla rættust ekki í hans tíð.

Þess gerist ekki þörf, að saga íslenzks iðnaðar verði rakin varðandi þær fyrirspurnir, sem ég hef leyft mér að leggja hér fyrir hæstv. ríkisstj. Sú saga, sem gerðist í málum íslenzks iðnaðar milli iðnsýningarinnar 1932 og svo aftur nú árið 1952, hefur sannað, að ekki verður lengur gengið fram hjá íslenzkum iðnaði, handverks- og verksmiðjuiðnaði, sem þriðja höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar. Því til sönnunar nægir að benda til athugunar hagstofunnar um atvinnuskiptingu landsmanna árið 1950.

Tæpum tveim öldum frá stofnun innréttinga Skúla Magnússonar er með öðrum orðum atvinnuskipting Íslendinga á þann veg, að langstærstur hluti þjóðarinnar byggir afkomu sína á iðnaði. Hlutfallstölurnar um atvinnuskiptingu þessara þriggja atvinnuvega þjóðarinnar eru þannig: Iðnaður í Rvík einni árið 1950 25.2; um landið allt sama ár 21, en árið 1940 14.2; landbúnaður í Rvík einni árið 1950 1; um landið allt sama ár 19.9, en árið 1940 30.5; fiskveiðar árið 1950 í Rvík einni 6.3; um landið allt sama ár 10.8, en árið 1940 um landið allt 15.9.

Þannig hefur þá þróunin orðið. Árið 1940 höfðu framfæri af iðnaði 21.5% landsmanna; árið 1950 höfðu framfæri af iðnaði 32.5%. eða þriðjungur þjóðarinnar. Það má því ljóst vera, hve mikill liður iðnaðurinn er orðinn í athafnalífi landsmanna allra og þar með þjóðhagskerfinu sjálfu.

Eitt höfuðvandamál þessa atvinnuvegar er hinn alvarlegi lánsfjárskortur. Þessu vandamáli hugðust samtök iðnaðarmanna mæta m. a. með stofnun Iðnaðarbanka Íslands h/f. Það vakti og almenna ánægju meðal velunnara iðnaðarins, þegar Alþingi heimilaði ríkisstj. með l. nr. 29 16. febr. 1953 að taka lán allt að 15 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt og endurlána fé þetta til bankans með sömu kjörum og það var tekið. Iðnaðarbankinn tók svo til starfa 25. júní s. l., en hefur enn þá ekkert fé fengið til útlána nema innborgað hlutafé og innlagt sparifé. Þrátt fyrir að sparifjárviðskiptin hafi reynzt fram úr öllum vonum, má ljóst vera, að bankinn gegnir hvergi nærri þeim skyldum, sem honum voru ætlaðar, vegna rekstrarfjárskorts. Máli mínu til skýringar vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp orðrétt bréf, sem stjórn bankans sendi ríkisstj. hinn 17. júlí s. l. og enn hefur ekkert svar fengizt við. Bréfið er svo hljóðandi:

„Síðasta Alþingi samþykkti heimild til ríkisstj. um lántöku allt að 15 millj. kr. til þess að endurlána Iðnaðarbanka Íslands h/f. Opnunardegi bankans var frestað til 25. júní í stað þess að hefja starfsemina alllöngu fyrr, og var það m. a. byggt á þeirri von, að þá hefði auðnazt að útvega bankanum fyrrnefndar 15 millj.. svo að hann gæti lítillega svarað brýnustu lánsfjáreftirspurn iðnaðarins. Sú von brást, og nú er enn svo ástatt, að bankinn hefur ekki fengið þetta 15 millj. kr. lán. Ekki er bankaráði heldur kunnugt um, hverjar tilraunir kunna að hafa verið gerðar síðustu vikurnar til þess að fá lánið og hvort það er væntanlegt í næstu framtíð. Hins vegar viljum vér ekki láta hjá líða að tjá hæstv. ríkisstj., að bankanum er lífsnauðsyn á að fá þetta fé, og beinum vér því vinsamlegum tilmælum til ríkisstj. um lausn málsins í samræmi við heimildina, er Alþingi gaf. Ef fyrirsjáanlegt þykir, að lántökutilraunir muni ekki bera árangur í náinni framtíð, er ákjósanlegt að fá upplýsingar um það, svo og hverjar líkur eru fyrir, að lánið muni að lokum fást.“ (Síðan er undirskrift bankaráðsmanna.)

Þannig hefur nú þyrmt yfir þeim vonum, að óskabarn iðnaðarins, Iðnaðarbankinn, fái að dafna og gegna sínu göfuga hlutverki. Það má ekki heldur ske, að skilningsleysi forráðamanna þjóðarinnar hefti för iðnaðarins nú, eins og á dögum Skúla, að því marki að tryggja almenningi öruggari atvinnu og stuðla að efnahagslegu jafnvægi og frjálsræði þjóðarinnar. Þúsundir launþega og atvinnuveitenda, sem byggja afkomu sína á þessum atvinnuvegi, bíða eftir svari um, hvað líði lánsfjárútvegun til bankans.

Ég vona, að við þessum spurningum fáist skýr og skilmerkileg svör frá hæstv. ríkisstj. eða viðkomandi ráðherra. Ég tel á þessu stigi málsins ekki rétt að ræða þetta mál öllu frekar, en ítreka óskir mínar um, að skýr og skilmerkileg svör fáist við þessum spurningum.