28.10.1953
Sameinað þing: 12. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í D-deild Alþingistíðinda. (3350)

215. mál, Iðnaðarbanki Íslands h/f

Einar Olgeirsson:

Hæstv. fjmrh. hefur endurtekið hér yfirlýsingu, sem hann gaf í fyrra, þar sem hann sló því föstu, að ákveðin lán, sem þá væri búið að samþ., ættu að ganga á undan láninu til Iðnaðarbankans. Ég skildi þessa yfirlýsingu þannig, að á meðan verið væri að reyna að útvega þessi lán, mundu ekki verða tekin inn í ný lán, sem mundu verða látin ganga á undan Iðnaðarbankanum, og ég vildi gjarnan fá skýringu á því, hvort það er rétt skilið.

Hér var verið að samþ. með sérstaklega skjótum hætti í gær lánsheimild til ríkisstj. upp á 4.1 millj. kr. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh.: Er meiningin, að þessi lánsheimild, 4.1 millj. kr., sem ríkisstj. nú hefur fengið sem lög, verði notuð áður en búið er að nota þær aðrar lánsheimildir, sem Alþ. hefur veitt ríkisstj.? Á að skjóta þessum 4 millj. kr., sem samþ. voru í gær, fram yfir það, sem Alþ. var búið að samþ. áður? Á máske að taka þessar 4 millj. kr. að láni undireins, en skjóta hinu aftur fyrir, sem bíður? Mig langar til að fá svar við þessu. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að geta fengið það upplýst í þeim n., sem hafa fjallað um þetta, og mér skilst, að það mundi vera í andstöðu við þá yfirlýsingu, sem hæstv. fjmrh. gaf í fyrra. Þetta var náttúrlega alveg meiningarlaus yfirlýsing, sem hæstv. fjmrh. gaf fyrir hönd ríkisstj. í fyrra, ef allar samþykktir allra næstu ára um lánsheimildir til ríkisstj. eiga jafnóðum að vera framkvæmdar og Iðnaðarbankalán alltaf að skjótast aftur fyrir. Hins vegar var það upplýst í gær af hæstv. fjmrh., að þetta lán, sem ætti að taka hjá Framkvæmdabankanum fyrir stuttbylgjustöðvarhúsið, ætti að takast hjá Alþjóðabankanum, án þess einu sinni að í l. stæði, að það mætti taka þetta í útlendri mynt; það var ekki haft fyrir að setja það. Máske, að svo framarlega sem Alþjóðabankinn eða einhverjar alþjóðlegar stofnanir segja eitt orð um, að það sé nauðsynlegt, að Ísland taki lán til þessa og þessa hlutar, að það eigi þá að fara að ganga á undan og það eigi að hafa sérréttindi fram yfir allt, sem Alþ. samþykkir og hæstv. ríkisstj. gefur yfirlýsingar um? Þetta langaði mig aðeins til að fá upplýst, hvort á að bíða að taka þetta lán, sem taka á hjá Framkvæmdabankanum upp á 4 millj. kr., þangað til búið verður að taka 15 millj. kr. til Iðnaðarbankans.

Svo er annað, sem ég hef stundum spurt að og mér finnst alltaf ákaflega óglöggt hér. Fyrst hæstv. ríkisstj. gengur svona illa að fá lán, af hverju er þá ekki breytt l. hér og þeim stofnunum þjóðarinnar, sem nú er bannað að taka lán erlendis, veittar heimildir til þess? Nú sem stendur eru hinar ýmsu opinberu stofnanir, bæjarfélög og slíkt, hindraðar í því að taka lán erlendis samkvæmt Bretton-Woodssamþykktinni, og formlega munu einstaklingar eiga rétt á því, þó að það sé nú máske lítið raunhæft sem stendur. En ég held, að ef við eigum að búa við það þing eftir þing, að hæstv. ríkisstj. afsaki sig með því, að hún geti ekki fengið lán handa eins ríku landi og Ísland er til framkvæmda, sem stór gróði er af, þá sé miklu betra, að hæstv. ríkisstj. hætti að fást við þessar lánsútveganir og gefi þá stofnunum — við skulum segja eins og Reykjavíkurbæ og öðrum slíkum — rétt til þess að reyna þá að bjarga sér sjálfir í þessum efnum. Ég held, að það sé mjög athugandi bæði fyrir Reykjavíkurbæ og bankastofnanir hér og aðrar slíkar bara að fá rétt til þess að bjarga sér sjálfar með þetta. Það er ekki hægt að þola það til lengdar, að nauðsynlegustu framkvæmdir í landinu séu látnar bíða ár eftir ár og eðlilegur rekstur vegna þess, að nokkrir ráðh. treysta sér ekki til þess að útvega lán.