28.10.1953
Sameinað þing: 12. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í D-deild Alþingistíðinda. (3351)

215. mál, Iðnaðarbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 2. þm. Reykv. sá ástæðu til þess að gera sig merkilegan í sambandi við þetta mál. Ég ætla ekki að skattyrðast við hann eða setja hér á langar ræður um fjármálaspeki hans. Hún er þm. kunn, fyrr og síðar. Hann hefur venjulega haldið því fram, að hægt væri að leysa öll fjárhagsvandamál með því að gefa út meiri seðla. Hann minntist þó ekkert á það áðan, máske fyrir það, að ræðutíminn var svo stuttur.

Ég kvaddi mér hljóðs til að svara því, að um þetta lán, 4 millj. kr. til þess að byggja stöðina á Rjúpnahæð, hefur þegar verið samið við Alþjóðabankann. Það lán minnkar ekki neitt möguleika Íslands til þess að fá önnur lán, vegna þess að það er nánast form, ef svo mætti að orði kveða. Lánið er tekið til þess að koma upp byggingu hér fyrir alþjóðaflugþjónustuna, sem Íslendingar hafa með höndum og fá gjaldeyri til greiðslu á láninu jafnóðum. Þetta lán snertir því ekkert möguleika Íslands til þess að fá önnur eða meiri lán, stendur ekki í vegi fyrir neinni framkvæmd, hvorki þeirri, sem hér er verið að tala um, né annarri. Það er svo þar fyrir utan, að það getur ekki að óbreyttum lánareglum orðið til Alþjóðabankans farið með Iðnaðarbankalánið, vegna þess að Alþjóðabankinn lánar ekki nema til þess að kaupa efni og vélar til nýrra fyrirtækja. Það yrði þá að breyta láninu í það horf, að það væri til þess að koma upp einhverjum sérstökum iðnaðarfyrirtækjum eða til stofnlána, en það hefur ekki verið meiningin, heldur hefur verið ætlunin, að þetta lán gengi aðallega til rekstrarlánastarfsemi iðnaðarins.