28.10.1953
Sameinað þing: 12. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í D-deild Alþingistíðinda. (3352)

215. mál, Iðnaðarbanki Íslands h/f

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara út í það að ræða hér möguleika ríkisstj. til lántöku né þá lánapólitík, sem rekin hefur verið að undanförnu, og skal leiða það mál alveg hjá mér. En þó vil ég láta þess getið, að ég ætla, að ýmsir möguleikar til lántöku hafi verið fyrir hendi, sem kannske hafa ekki verið fullnotaðir, og það er vert að athuga í þessu sambandi.

En hitt langaði mig til þess að minnast á og benda hv. þm. á, að það virðist svo sem hér séu ekki allir jafnir fyrir lögunum. Þetta er nú í annað sinn, sem höggvið er í sama knérunninn af fyrrverandi og núverandi fjmrh. eða þeim mönnum, sem fara með fjármálastjórn landsins. Hið fyrra sinn var, að ég ætla, fyrir tveim árum, þegar því var lýst yfir hér á Alþ.. að vegna ákveðinnar lántöku, sem tekin var til búnaðarframkvæmda eða til Búnaðarbankans, ef ég man rétt, þá yrði að fresta framkvæmdum við stóriðnaðarfyrirtæki hér á landi um óákveðinn tíma, vegna þess að bæði lánin gætu ekki orðið tekin samtímis, og þá var svo sem auðvitað, hver átti að víkja og hver átti að bíða. Það var sementsverksmiðjan, sem var látin bíða, eða því var yfirlýst hér á þinginu, vegna þess að annað lán hafði verið tekið til framkvæmda, sem stóðu hæstv. ríkisstj. eða hæstv. fjmrh. nær en þær framkvæmdir. Nú virðist svo sem þetta litla — vesæla vil ég segja — 15 millj. kr. framlag til Iðnaðarbankans eigi að færast aftur fyrir ég veit ekki hvað mörg lán, sem hæstv. ríkisstj. vill láta ganga á undan. Og það var yfirlýst af hæstv. fjmrh. hér áðan, að það væri ekki einungis hans sjónarmið, sem þar kæmi til greina, heldur hæstv. ríkisstj. allrar.

Þetta er, eins og ég segi, ekki í fyrsta sinn, sem hugur hæstv. ríkisstj., þeirrar sem nú situr og þeirrar sem næst sat á undan, birtist á þennan hátt í garð iðnaðarins. Og það er það, sem mér þykir leitt, og það er það, sem ég vil benda á alveg sérstaklega, að hér virðist, að ekki séu allir jafnir fyrir lögunum, heldur sé iðnaðurinn hafður sem hornreka og þá fyrst eitthvað látið til hans renna, þegar öðrum hefur verið fullnægt og kannske vel það.