28.10.1953
Sameinað þing: 12. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í D-deild Alþingistíðinda. (3353)

215. mál, Iðnaðarbanki Íslands h/f

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekkert að fara að deila við hæstv. fjmrh. um álit okkar beggja á atvinnulífi og fjármálum. Það er svo ólíkt, að það verður víst ekki samræmt. Hann lítur þannig á, að togararnir, sem skapa meginið af öllum útflutningi Íslands, séu gums, sem þjóðin hafi raunverulega ekkert við að gera, var á móti því, að þeir væru keyptir, og fannst mátulegt, að ríkisstj., sem keypti þá, sæti uppi með þetta gums allt saman. Ég hef álitið, að grundvöllurinn fyrir fjármála- og atvinnulífi Íslands væri þau tæki, sem fólkið vinnur með, en ekki pappírsseðlarnir, sem væru notaðir manna á milli til þess að létta viðskipti manna. Hann hefur aftur á móti trú á pappírsseðlunum sem því eina, sem skapi auðinn, en ekki vinnunni. Okkar álit fer þarna ekki saman, og ég ætla ekki í þessum fimm mínútna ræðutíma að fara að gera þá hluti upp, hins vegar aðeins víkja að þessu, sem hann svaraði hér og svaraði alveg eins og ég bjóst við.

Hann segir, að það sé þegar samið um, að þetta lán, sem heimilað var í gær, verði tekið hjá Framkvæmdabankanum og Framkvæmdabankinn taki það hjá Alþjóðabankanum. Ég bjóst líka við þessu. Þegar Alþjóðabankinn eða alþjóðastofnun segir eitt orð við ríkisstj., þá gengur það náttúrlega fyrir öllu, sem Alþ. segir, fyrir öllum yfirlýsingum hæstv. ríkisstj. sjálfrar líka. Vafalaust er auðvelt fyrir hæstv. ráðh. að færa rök að þessu. En það er bara hvað snertir form, lög og samþykktir á Alþ. ekki rétt. Þá hefði í þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. fjmrh. las upp hérna áðan og hann gaf í fyrra, átt að standa til viðbótar: Enn fremur skulu öll þau lán, sem erlendir aðilar álíta að ríkisstj. beri að taka, hafa forgang fyrir því, sem Alþ. kann að samþykkja. — Það vantaði í yfirlýsinguna.