28.10.1953
Sameinað þing: 12. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í D-deild Alþingistíðinda. (3357)

215. mál, Iðnaðarbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru örfá orð. — Ég kem því enn ekki fyrir mig, hvað hv. 5. landsk. þm. getur átt við með því, sem hann sagði um ríkislánsmöguleika, sem ekki hefðu verið notaðir. Það getur að vísu ætíð komið fyrir, að það sé hægt að útvega lán í einhverja alveg sérstaka framkvæmd, en ekki í öðru skyni. Það er hugsanlegt. Það er ekki víst, að ríkið geti ætið notfært sér slíkt, ef verið er að leita eftir lánum í annað, sem á að sitja fyrir. Ég kem því sem sagt ekki fyrir mig, hvað hv. þm. getur átt við með þessu, en hann ætlar þá að láta mig vita um það nánar, mér skilst utan þessara umræðna. En mér vitanlega hefur það verið þannig, að notaður hefur verið hver möguleiki, sem opnazt hefur, til þess að fá lán í þau mannvirki eða til þeirra framkvæmda, sem stjórn og þing hafa viljað láta sitja fyrir. Við höfum ekki getað fengið nærri því öll þau lán, sem við höfum viljað fá. Til dæmis reyndum við ákaflega mikið til þess að fá lán í Bretlandi til að greiða 30 milljónir, sem ógreiddar voru af andvirði 10 togara, sem keyptir voru þar í landi, en árangurslaust. Við reyndum einnig utan Bretlands að fá þetta lán, en árangurslaust. Niðurstaðan varð sú, að við urðum að greiða þetta lán og fá til þess peninga hér innanlands á þann hátt, sem náttúrlega var ekki hagfellt eins og á stóð. Það urðum við að gera vegna þess, að við gátum ekki fengið þetta lán. Það er takmarkað, sem hægt er að fá af lánum erlendis, eins og hv. þm. vita. Og það hafa verið höfð sem sagt öll spjót úti til þess að reyna að fá þau lán, sem hv. Alþ. hefur ákveðið að skuli tekin og stjórnin hefur í samráði við þingmeirihlutann á hverjum tíma haft á oddinum.

Hv. þm. var enn að reyna að gera það tortryggilegt, að það væri tekið fram fyrir að tryggja 100 millj. til raforkuframkvæmda, og hann virðir það til fjandskapar við iðnaðinn. Ég vil benda hv. þm. á það í þessu sambandi, að athugi hann löggjöfina, þá mun hann sjá, að áður en samþykkt var lánsheimildin til Iðnaðarbankans, sem við erum að ræða hér um, þá er búið að samþykkja líklega hart nær 100 millj. kr. lántökur handa þessum raforkuframkvæmdum, en það fé var eftir að útvega, en á nú að tryggja. Með því er verið að uppfylla miklu eldri lánsheimildir en hér er verið að ræða um, þar sem Iðnaðarbankinn á í hlut. Því fer þess vegna alls fjarri, að hér eigi að gera nokkrum rangt eða nokkuð eigi nú að framkvæma öðruvísi en áformað var. Þvert á móti er því lýst yfir nú af ríkisstj., að það verður gengið í að útvega Iðnaðarbankalánið svo fljótt sem nokkur möguleiki er á ásamt öðru því fé, sem hv. Alþ. hefur sett stjórninni fyrir að reyna að útvega.