28.10.1953
Sameinað þing: 12. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í D-deild Alþingistíðinda. (3367)

217. mál, smáíbúðalán

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þau svör, sem hann veitti við fsp. Af þessum svörum er ljóst, að sú upphæð, sem fallið hefur hverjum lántakanda í hlut af því fé, sem þegar hefur verið útvegað fyrir tilstilli ríkissjóðs, er aðeins 23 þús. kr. að meðaltali, og er augljóst, að lánsfjárvandræði þessara byggjenda smáíbúðarhúsanna eru með engu móti leyst. Þess vegna er mjög nauðsynlegt, að gerð verði gangskör að því að fá þetta 6 millj. kr. lán til viðbótar a. m. k., og leysir það raunar ekki allan vandann að fullu. Mér þykir vænt um þau tíðindi, sem hæstv. ráðh. flytur. Það eru gleðitíðindi fyrir marga, sem hér eiga hlut að máli, að von skuli vera á þessu fé á næstunni að minnsta kosti. Meira ætti það helzt að vera, en miklu betra er þetta þó en ekki neitt. Þykir mér það ánægjuefni.