11.11.1953
Sameinað þing: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í D-deild Alþingistíðinda. (3383)

88. mál, mannanöfn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég er í meginatriðum sammála hv. fyrirspyrjanda um það, sem hann segir, og sé þess vegna ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta; vildi þó bæta við og ítreka, að málið er auðvitað ekki alveg eins einfalt og hann lætur, vegna þess að auðvitað hefur tungan þróazt með mismunandi hætti á ólíkum tímum, og það er auðvitað erfitt að ætla með löggjöf að setja henni ákveðinn farveg, þó að það sé hægt að veita mikla leiðbeiningu. En við vitum það t. d. hjá okkar forfeðrum, sem við með réttu dáum fyrir þeirra málsmekk, að þó að þeir skírðu þá ekki börn sín beinum gælunöfnum, þá höfðu þeir þann sið, ef svo mætti segja, að þeir tóku viðurnefni og gerðu að mannanöfnum, og sýndi það, að töluverð tilbrigði voru í því, hvernig nöfnin mynduðust. (GilsG: Það var fallegur siður.) Já, það var fallegur siður, en ég veit ekki, hvort allir málspekingar þess tíma hefðu fyrir fram litið þannig á, og það er eins erfitt nú og þá að ætla að setja tungunni ákveðinn farveg fyrir fram. Það má vel vera, að það þyki fallegur siður þúsund árum seinna, sem hafi þótt ljótur síður í upphafi að taka, — ja, það, sem nú er kallað viðurnefni, mætti kannske öðru nafni kalla uppnefni, og gera að eiginnöfnum.

Við segjum, að lögunum sé nú ekki framfylgt. Þetta er ekki bókstaflega rétt, vegna þess að það er a. m. k. eitt ákvæði l., sem stundum reynir nokkuð á, og það er að fólk sækir um að fá breytt nöfnum, ef það hefur verið skírt eins og hér stendur: „Nú hefur maður hlotið óþjóðlegt, klaufalegt eða erlent nafn, áður en lög þessi voru sett, og getur hann þá breytt nafni með leyfi konungs.“ Að breyttu breytanda er þetta skilið þannig, að menn geti fengið, að nafninu til með forsetaleyfi, raunverulega með ráðuneytisleyfi, breytingu á nafni, ef atvík standa til. Í sumar kom til mín umsókn um það, að stúlka, sem hét Guðmunda, vildi fá breytt sínu nafni. Þetta nafn hlítir réttum beygingarreglum og er myndað eftir góðu íslenzku nafni, Guðmundur. Ég játa það hins vegar, að mér fannst nafnið svo óviðkunnanlegt, að úr því að konan vildi sjálf breyta, þá væri hægt að leyfa það. En fullkomið matsatriði er slíkt og ekki alveg ljóst, hvar mörkin á að setja. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi um það, að viðbúið er, að mjög sýnist sitt hverjum, ef alveg ákveðnar reglur eiga um þetta að gilda, en langeðlilegast, að með hæfilegri fræðslu og leiðbeiningum af hálfu þeirra manna, sem málsmekk og málvit hafa, séu menn látnir nokkuð frjálsir. Það er mín skoðun í þessu eins og fleiru.