18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í D-deild Alþingistíðinda. (3395)

97. mál, álagning á innfluttar vörur o. fl.

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Almenningur hefur tapað tugum milljóna á því, að verðlagseftirlitið var afnumið, sagði hv. fyrirspyrjandi. Ég býst nú við, að það væri eðlilegt, að þessum fullyrðingum fylgdu einhver rök og að hann væri þá með skýrslur í höndunum, sem sönnuðu þetta. Ég kem kannske að því síðar. En fsp. þær, sem hér eru fram bornar, eru að mínu áliti alveg eðlilegar og ég get tekið undir með fyrirspyrjanda, að það er sjálfsagt og eðlilegt, að neytendur í landinu fái að fylgjast með því, hversu álagningin er há á hverjum tíma eða hversu mikið verzlunarstéttin tekur í þjónustugjald við það að dreifa vörunni til almennings. Þetta er alveg sjálfsagt og eðlilegt.

Í fyrstu er spurt að því:

„Er enn safnað skýrslum um álagningu á innfluttar vörur, sem eru ekki háðar verðlagsákvæðum, svo sem byrjað var á, þegar verðlagsákvæði voru afnumin? Ef svo er ekki, hvers vegna var því þá hætt? Ef svo er, hvers vegna eru þær þá ekki birtar?“

Það verður eitt og sama svarið við 1. og 3. spurningunni, því að skrifstofa verðgæzlustjóra hefur stöðugt unnið að athugun á álagningu á vörum, sem undanþegnar eru verðlagsákvæðum, og hefur nýlega lokið við skýrslu um niðurstöðu þeirra athugana, sem gerðar hafa verið á þessu ári úti á landi, en Reykjavíkurskýrslan verður væntanlega tilbúin um næstu mánaðamót, og verður þá heildarskýrslan send blöðunum til birtingar.

Hv. fyrirspyrjandi talaði um, að það hafi dregizt í nokkra mánuði nú að birta þessar skýrslur, og það er alveg rétt, að svo hefur verið, en það er ekki vegna þess, að það hafi verið meiningin að hætta birtingu þessara skýrslna, heldur þykir ástæða til að draga þetta saman og birta skýrslur t. d. tvisvar, þrisvar á ári, og ætti það að nægja til þess, að almenningur fengi að fylgjast nægilega með, því að skýrslusöfnun og skýrslugerð sem þessi útheimtir ákaflega mikla vinnu og hefur mikinn kostnað í för með sér.

Þá spyr hv. fyrirspyrjandi að því, hver kostnaðurinn við framkvæmd verðlagseftirlitsins hafi verið 1949 og 1950.

Svar: Heildarkostnaður við skrifstofu verðgæzlustjóra árið 1949 nam 760802 kr.; þar af voru launagreiðslur kr. 560508.00, en heildarkostnaður við skrifstofu verðgæzlustjóra árið 1952 nam kr. 592900.00, þar af launagreiðslur 475350 kr. Heildarkostnaður við verðlagsskrifstofu fjárhagsráðs nam árið 1952 195050 kr., þar af launagreiðslur 124976 kr. Áður en embætti verðgæzlustjóra var stofnað, annaðist sama stofnunin, skrifstofa verðlagsstjóra, bæði verðlagsákvarðanir og verðlagseftirlit.

Nú býst ég við því, að hv. fyrirspyrjandi segi sem svo: Það hefur nú ekki sparazt mjög mikið við það, að hámarksálagning var afnumin á ýmsum vörum. Ósköp lítið hefur nú sparazt, mun hann segja, eða tæpar 170 þús. kr. í launagreiðslum. En 170 þús. kr. eru nú líka peningar. Og þess verður líka að geta, þegar þessar tölur eru bornar saman, að önnur talan er frá árinu 1949, fyrir gengisbreytingu, og svo er aftur miðað við árið 1952, og samt munar í launagreiðslum allt að 170 þús. kr. Við vitum, að launagreiðslur frá 1949 hafa hækkað ákaflega mikið, og munurinn er þess vegna talsvert meiri en hér er sýnt.

En svo verð ég að geta þess, að enda þótt hámarksákvæði hafi verið afnumin á ýmsum vörutegundum, þá hefur ekkert verið slakað á verðgæzlunni. Það er fullkomin verðgæzla í landinu eftir sem áður, og það hefur komið í ljós, að þótt hámarksákvæðin hafi verið afnumin, þá er nú, eftir að vörubirgðir söfnuðust upp í landinu og vöruhungrið var mettað, álagningin á hinum ýmsu nauðsynjavörum ekki hærri í dag — eða sama sem ekkert hærri — heldur en hún var á meðan hámarksákvæðin giltu. Og ég held nú, að hv. fyrirspyrjandi ætti að vera sérstaklega ánægður með, að ekki hefur verið slakað á verðgæzlunni samtímis því sem hámarksákvæðin voru afnumin, því að það er þetta, sem hann er hér að tala um í dag að sé nauðsynlegt, að almenningur fái að fylgjast með. Ef ég mátti skilja ræðu hans rétt áðan, þá taldi hann það einnig nauðsynlegt, sem ég geri líka, að það sé takmarkað, sem almenningur greiðir í þjónustugjald til þeirra, sem við vörudreifinguna fást. Og með því að ekki er slakað á verðgæzlunni, þótt hámarksákvæðin séu afnumin, þá er hér um töluvert aðhald að ræða, ef það út af fyrir sig nægir ekki að hafa nægilegt vöruframboð og vörumagn á boðstólum. En það er mín skoðun, að það út af fyrir sig sé nú bezta verðlagseftirlitið, ef fólkið hefur nægilegt vöruval úr að velja, það getur gengið á milli búða og keypt vöruna þar sem hún er ódýrust og þar sem hún er bezt. Og það vitum við allir — og hv. fyrirspyrjandi líka — að á meðan allar vörur voru undir verðlagsákvæðum. en vöruskorturinn var í landinu, þá gagnaði verðlagseftirlitið ekki nema að örlitlu leyti. Það var farið fram hjá verðlagsákvæðunum, og almenningur varð að kaupa vöruna miklu dýrar en hún virtist vera eða átti að vera. En frá þessu hefur orðið breyting. Nú má segja, að álagningin sé mjög skapleg, eftir því sem við er að búast. Við vitum, að verzlunarkostnaður er mjög hár í dag, og það er eðlilegt, að verzlunarálagning þurfi þess vegna að vera töluverð. En það, sem ég vil endurtaka og undirstrika, er það, að álagningin er í dag mjög svipuð því, sem hún var á meðan hámarksákvæðin giltu.