18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í D-deild Alþingistíðinda. (3398)

97. mál, álagning á innfluttar vörur o. fl.

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég tek nú ekki til máls í þessu máli af því, að ég telji, að hæstv. ráðh. (IngJ) hafi ekki í fullu tré við hv. 1. landsk. (GÞG) í þessu máli; það er síður en svo, eins og komið er fram í þessum umr. En vegna þess, að mér eru ekki alveg óviðkomandi þær ásakanir, sem hann bar fram í sambandi við kostnaðinn við verðgæzluna, þá vildi ég gjarnan víkja að því nokkrum orðum.

Mig furðar satt að segja á því, að hv. þm., eftir allt það fimbulfamb, sem hann hefur haft um þetta mál fyrr og síðar, frá því að það kom fyrst til umr. og hámarksákvæðin voru afnumin, skuli nú vera að reka hornin í það, að verðlagseftirlitið skuli ekki hafa verið skorið nægilega niður. Auðvitað er ekki hægt að lækka kostnaðinn við verðlagseftirlitið nema dregið sé úr starfseminni. Ef verðlagseftirlitið á að haldast óbreytt, er sýnilegt, að standa verður undir þeim kostnaði, sem af því leiðir.

Þess vegna kemur þetta úr hörðustu átt og er illa í samræmi við það, sem hv. þm. vill halda fram í þessu máli.

Þegar hámarksákvæðin voru afnumin að mestu leyti, þá var gert það, sem hægt var, til þess að lækka kostnaðinn við verðlagseftirlitið í samræmi við það hlutverk, sem verðlagseftirlitið hafði, eftir að hámarksákvæðin voru afnumin. Ef ég man rétt, þá var þriðjungur af mannafla skrifstofunnar látinn fara. En þrátt fyrir það að mjög var gengið á verðgæzlustjóra að fækka sem mest fólkinu, þá taldi hann, að ef hann ætti að sinna, svo að í lagi væri, því hlutverki, sem honum var fengið eftir að hámarksákvæðin voru afnumin, m. a. fyrir forgöngu og mikið umtal af hálfu hv. 1. landsk., því hlutverki að hafa eftirlit með verðlagi í landinu og gefa skýrslu um það, þá gæti hann ekki gert það með færra fólki en þegar hafði verið ákveðið, eftir að hámarkseftirlitið var afnumið. Þetta nýja hlutverk, sem honum var fengið og hefur verið hv. þm. ærið efni í langar ræður á mörgum þingum, var rannsókn á verðlaginu og eftirlit með verðlagi á nokkuð mörgum vörutegundum, á svipaðan hátt og áður var, í sambandi við þá samninga, sem gerðir voru er vinnudeilunni lauk á síðasta ári.

Ég tel það ekki skipta miklu máli, hvort verðlagseftirlitið er 170 þús. kr. dýrara eða ódýrara í rekstri. Hitt er aðalatriðið. að það geti afkastað því starfi sómasamlega, sem því er fengið í hendur. Ég álít, að það hafi gert það og ekkert sé undan því að kvarta. Hv. þm. hefur sízt að mínu áliti undan því að kvarta, því að hann hefur fengið allar þær skýrslur, sem hann hefur beðið um, að því er ég veit bezt. Var þar unnið talsvert fyrir hann og honum gefið efni í þingræður, sem hann hélt. Það var unnið fyrir hann á verðgæzluskrifstofunni, svo að hann gæti haldið áfram fullyrðingum sínum, sem því miður voru flestar út í bláinn. Upplýsingarnar voru því miður mjög misjafnlega notaðar, svo að ekki sé sterkara að orði kveðið.

Þær fullyrðingar, sem hv. þm. bar fram hérna, eru ekki annað en það, sem stundum hefur á blaðamáli verið kallað „gamlar lummur“. Þetta hefur hann endurtekið nú a. m. k. á tveim þingum. Þetta er líklega þriðja þingið, sem hann ber fram þessar gömlu „lummur“, sem eru fullyrðingar út í bláinn, er hann hefur aldrei getað sannað. Hann er með tölur, sem hann fullyrðir að séu réttar, en hann hefur aldrei getað fundið þeim stað, enda var engin undirstaða fyrir tölunum. Það er ákaflega auðvelt að halda langar ræður með slíkum hætti fyrir þá menn, sem ekki eru vandari að virðingu sinni en svo, að þeir halda því fram, sem þeir sjálfir vita ekki hvort er rétt. Það er sannast sagna um hv. þm., að þótt hann sé að fullyrða þetta, þá veit hann ekki, hvort það er rétt, því að hann hefur ekki haft tækifæri eða getu til þess að prófa það. Ég kalla það heldur óvandaðan málflutning, eins og allur málflutningur hans hefur verið í þessu máli. Hann hefur verið óvandaður frá upphafi til enda og hefur ekki verið settur fram í öðru skyni en því að sinna lýðskrumshlutverki sínu eins og það hefur nú verið undanfarin ár.

Út af þeim skýrslum, sem fram hafa komið s. l. tvö missiri, vil ég segja, að ég ætla, að a. m. k. þær skýrslur, sem síðast komu fram, sýndu, að álagningin var að ná jafnvægi og orðin mjög hófleg. Því var aldrei haldið fram, þegar hámarkseftirlitið var afnumið, að ekki kynni að bregða eitthvað út úr góðu horfi fyrst í stað. Hjá því var naumast hægt að komast, enda gengu menn að því sem vísu. En eftir því sem lengur leið, komust þessi mál í betra horf og jafnvægið varð betra og betra. Síðustu skýrslur, sem komu út, sýndu mjög hóflega álagningu. Var varla hægt að segja, að um nokkra misnotkun væri að ræða í þeim skýrslum. Þetta kallar nú hv. þm. að sé að hafa tugmilljónir króna af almenningi. Ég mundi nú heldur segja, að almenningur hafi grætt tugmilljónir króna á því, að hámarksverð var afnumið og jafnframt að vörubirgðir voru svo mikið auknar í landinu, að fullkomlega frjáls samkeppni gat komið til greina. Þeir menn, sem nokkuð eru kunnugir verzlunarástandinu í dag, vita það, að samkeppni er mikil í flestum vörum núna; ég vil segja nær því hvaða vöru sem er frjáls innflutningur á. Samkeppnin er svo mikil, að ég fullyrði óhikað, að það er hvergi í nágrannalöndunum lægri álagning á slíkar vörur en hér. (Forseti: Ræðutímanum er lokið.)

Ég skal þá reyna að slá botninn í þetta. Ég segi: Almenningur hefur grætt tugmilljónir króna á því, að haftaskipulag Alþfl. var afnumið með öllum ókostum þess og svartamarkaðsbraski, sem því fylgdi. Og það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að halda því fram, að fólkið sjálft líti á þetta eins og hann. Það lítur allt öðruvísi á það. Það lítur þannig á, að það sé verzlunarfrelsið, sem þjóðin hefur grætt á; það sýna kosningarnar í sumar. Ef þetta er athugað ofan í kjölinn, þá geri ég ráð fyrir, að hv. 1. landsk. þm. komist að raun um, að ein meginorsök þess, hvernig kosningarnar fóru í sumar fyrir flokki hans, var sú, hvernig afstaða hans og flokks hans var í þessu máli.