18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í D-deild Alþingistíðinda. (3399)

97. mál, álagning á innfluttar vörur o. fl.

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. varð heldur lítil hjálp að ræðu hv. 3. þm. Reykv. (BÓ). Sú ræða hefði betur verið óhaldin, og hlutur viðskmrh. hefði þá verið heldur betri en hann nú er orðinn eftir ræðu hv. flokksbróður síns. Upphafið á ræðu hans var algerlega óskiljanlegt. Hann sagði, að ég virtist vilja afnám verðlagseftirlits vegna þess, að ég heimtaði, að kostnaðurinn yrði sem lægstur. Auðvitað ætlast ég til þess, að hæstv. ríkisstj. spari á öllum sviðum. Ég ætlast til þess, að hún spari stjórnarkostnað, þó að ég vilji ekki leggja ríkisstj. niður. Hvað á svona málflutningur að þýða? (BÓ: Hver segir, að það sé ekki sparað eins og hægt er?) Já, það ber vott um skringilegan sparnað, að nær allt verðlagseftirlitið hefur verið afnumið og kostnaðurinn samt ekki lækkað nema um 170 þús. kr. (BÓ: Þetta er hreinn misskilningur.) Þá hefur hæstv. viðskmrh. farið með alrangt mál hér áðan, og þá eru flokksbræðurnir að leiðrétta hvor annan. (Forseti: Ég vil benda ræðumanni á, að þetta er aðeins örstutt aths.) Aðeins örfá orð, herra forseti, vegna þess að hv. 3. þm. Reykv. sagði. að ég hefði á undanförnum árum farið með staðlausa stafi um álagningu verzlunarstéttarinnar á innfluttar vörur. Ég ætla að benda þingheimi á, að allt það, sem ég hef sagt um þessi mál, hefur verið sótt í skýrslur, sem sjálfur viðskmrh., Björn Ólafsson. hefur gefið út. Sé eitthvað rangt í því, sem ég hef sagt, t. d. tölunni, sem ég nefndi áðan, þá eru skýrslur hans falsaðar. (Gripið fram í.) Ekkert verið misnotaðar. Ég hef ekkert sagt annað en það, sem ég hef beinlínis sótt í hans eigin skýrslur, og annaðhvort gefur hann út rangar skýrslur eða starfsmenn hans. Það er náttúrlega dæmalaust. að hv. þm. skuli standa hér upp og kalla það óvandaðan málflutning að nota skýrslur, sem hann sjálfur hefur fengið mönnum í hendur. Hvað er þá vandaður málflutningur, með leyfi að spyrja?

En staðhæfingar mínar mun ég halda áfram að endurtaka, þangað til ástand þessara mála verður lagað og lagað meir en það hefur verið gert hingað til.

Hæstv. núverandi viðskmrh. sagði, að verzlunarástandið hefði stórum batnað á undanförnum tveimur, þremur árum. Það hefur meira verið til af vörum. Það er rétt. En hverju er það að þakka? Það er því að þakka fyrst og fremst. að við höfum fengið vörur fyrir hundruð milljóna króna gefnar erlendis frá. Marshallaðstoðin hefur numið mörgum hundruðum milljóna króna. Hún hefur komið í vörum, og það er ein höfuðástæðan fyrir því, að meiri vörur hafa verið til í búðunum en áður og auk þess hefur verzlunarhallinn numið mörg hundruð milljónum króna. Á tveimur og hálfu ári hefur verzlunarhallinn numið 600 millj. kr. Það er von, að eitthvað sé til af vörum í búðunum. En hitt staðhæfi ég, og við það stend ég, að þetta hefur verið almenningi óhagstætt að því leyti, að verð varanna hefur verið hærra en það hefði þurft að vera, vegna þess að álagningin hefur stórhækkað samkvæmt skýrslum sjálfs fyrrverandi viðskmrh., Björns Ólafssonar.