18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í D-deild Alþingistíðinda. (3402)

97. mál, álagning á innfluttar vörur o. fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Nú var skemmtiatriði á dagskrá. Hv. þm. Barð. (GíslJ) kom fram í gervi vandlætarans; einhver allra svívirðilegasti og dónalegasti orðhákur þessa þings fer að setja ofan í við hv. 1. landsk. (GÞG) fyrir óþinglegt orðbragð. Skörin færist stundum upp í bekkinn, og það gerði hún sannarlega hér, og var ekki verið að taka af sér skóhlífarnar, heldur farið hér á skítugum skónum til þessa verks.

Viðvíkjandi ásökun hæstv. forseta í garð hv. 1. landsk. um það, að hann hafi brotið þingsköp með því að tala í þriðja sinn, þá verð ég nú að segja það, að vissulega er það honum málsbót að hæstv. forseti gaf honum leyfi til að fara í ræðustól í þriðja sinn, og hvers vegna? Af því, að það var vitanlega viðurkennt bæði af forseta og öðrum, að hv. 3. þm. Reykv. (BÓ). hæstv. fyrrverandi viðskmrh., hafði farið með þau svigurmæli hér, sem sneiddu að heiðri hv. þm., og þess vegna bar forseta að leyfa þetta. Og ég hygg, að hv. 1. landsk. hafi ekki gert annað en það að bera af sér þær svívirðingar, sem hv. 3. þm. Reykv. bar á hann, nefnilega það, að hann hefði farið rangt með opinberar tölur. En ég hygg, að allir viðurkenni, að hv. 1. landsk. er mjög grandvar með að fara rétt með tölur.

Ein af þeim ásökunum, sem borin var fram á hendur hv. 1. landsk. þm., var sú, að hann hefði ekki tekið hér dæmi til að færa orðum sínum stað, en það gerði hann þó vissulega. Svo kemur hér hv. 3. þm. Reykv. (BÓ) og segir: Hér á Íslandi er nú lægri álagning á vörum en á nokkrum hinna Norðurlandanna.— Kom þessi hv. þm. með tölur frá hinum Norðurlöndunum um álagningu þar og álagningu hér? Nei, bar það ekki við, kom með staðhæfingu, sem hann leitaðist ekki við að sanna, og ætti þó að hafa öðrum þm. betri aðstöðu til að hafa slík gögn í höndum sem fyrrv. viðskmrh. Honum leyfist að koma hér fram með fullyrðingar, sem gætu verið 100% lygi, án — þess að bera það við að færa orðum sínum stað, og það er óskað eftir því nú, að hv. þm. komi með sönnunargögn fyrir því, að álagning sé nú lægri á Íslandi en í nokkru hinna Norðurlandanna, og verði þannig ekki ber að ósannindum fyrir framan þingheim.

Eina sönnun þóttist hv. þm. bera fram fyrir því, að hæstv. fyrrverandi ríkisstj. hefði verið sýknuð af kjósendum landsins fyrir stjórnina í viðskiptamálunum og fyrir það, að hún hefði fellt niður verðlagseftirlitið, og það var það, hver útkoman hefði verið í síðustu kosningum. Útkoman var í síðustu kosningum sú, að hæstv. stjórnarflokkar töpuðu — töpuðu 3% atkvæða, úr 62% niður í 59%. M. ö. o., það var nokkur áfellisdómur einmitt á hæstv. ríkisstj. í dómi kjósendanna. Og í Reykjavík var Sjálfstfl. svo sem síður en svo á uppgangi hér í þessum kosningum. Aftur á móti sá flokkur, sem haldið hefur uppi gagnrýni á þennan fyrrv. hæstv. viðskmrh., bætti við sig á fimmta hundrað atkvæða í Reykjavík, þegar Sjálfstfl., sem er margfalt stærri flokkur, hjakkaði í sama farinu. (Forseti: Tíminn er búinn.) — Nú, er hann búinn? M. ö. o., það sönnunargagn, sem hv. þm. vildi bera fyrir sig, var neikvætt; það var sönnunargagn gegn honum sjálfum og gegn hæstv. fyrrv. ríkisstjórn.