18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í D-deild Alþingistíðinda. (3406)

219. mál, olíumál

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ef hv. fyrirspyrjandi er þeirrar skoðunar, að ég sé eitthvað tregur til þess að svara þessum fsp., þá vil ég láta hann vita það, að mér er ljúft að gera það, enda þótt ég teldi ekki ástæðu til þess að gera — það, þegar frv. um olíueinkasölu var hér til umr. fyrir nokkrum dögum í hv. Nd., því að eins og þessi hv. þm. veit, þá snerust umr. um olíueinkasölufrv. upp í spurningatíma og var orðið að nokkurs konar sjónleik í d., og taldi ég mér alls ekki skylt að taka þátt í slíku. En nú hefur hv. þm. borið fram fsp. eins og þingsköp mæla fyrir, og þá er ekki nema sjálfsagt að gefa svör við þeim.

Fyrsta spurningin er þessi: „Hvaða innkaupsverð pr. tonn var á olíum þeim, sem ríkisstj. festi kaup á í Rússlandi?“

Svar við þessari spurningu er á þá leið, að í samningum um olíukaup frá Sovétríkjunum er ekki samið um fast verð, heldur ákveðið, að greitt skuli á hverjum tíma sama verð og skráð er sem heimsmarkaðsverð þann dag, sem olían er lestuð í skip, og þetta fyrirkomulag held ég að sé tryggast fyrir okkur vegna þess, að þótt okkur hefði tekizt að semja um ákveðið verð, þá gat vitanlega verið áhætta í því, ef olían síðar meir hefði lækkað. En með því að gera samningana á þá leið, að það skuli vera lægsta heimsmarkaðsverð á hverjum tíma, þá erum við öruggir að fá olíuna með beztum fáanlegum kjörum.

Þá er önnur spurning: „Var olíufélögunum framseldur samningur ríkisstj., og ef svo er, þá með hvaða kjörum?“

Svar við því: Olíufélögunum þremur var framseldur samningurinn í heild og óbreyttur, enda var heimild til slíks framsals í sjálfum samningnum. Ég veit ekki, hvort hv. fyrirspyrjandi hefur nokkuð við þetta að athuga. Það sýnist vera eðlilegt, að þessum þremur olíufélögum, sem aðstöðu hafa til að taka við olíunni og geyma hana, sé framseldur samningurinn, enda annast þau olíusöluna nú eins og þau gerðu áður, á meðan olían var keypt annars staðar frá.

Þá er þriðja spurning: „Er olíusamlögum útvegsmanna og sjómanna heimilt að ganga inn í samningana milliliðalaust og án milliliðakostnaðar?“

Svar við þessu: Olíuinnflutningur til landsins hefur undanfarin ár verið í höndum þriggja olíufélaga, eins og kunnugt er, og hafa olíusamlög útvegsmanna og sjómanna annaðhvort verið aðilar að þeim félögum eða haft fastan samning um olíukaup við eitthvert þeirra. Ekki verður séð, að olíusamningur við Sovétríkin hefði réttlætt nokkra breytingu í þeim efnum frá því, sem verið hefur, enda hafa engir aðilar aðrir en olíufélögin aðstöðu til þess að taka við heilum förmum með stórum olíuskipum, eins og hagstæðast er að flytja olíuna til landsins. Eins og ég sagði í svari mínu við 2. spurningu, er framsala samningsins bundin við olíufélögin þrjú, og er ekki, eins og nú standa sakir, raunhæft að gera ráð fyrir öðrum olíuinnflytjendum, m. a. vegna þess, að aðrir aðilar hafa ekki aðstöðu til að taka á móti olíunni, hafa ekki tanka eða neina aðstöðu til þess.

Þá er það fjórða spurning: „Hvaða farm gjaldakjör hafa náðst við þessi miklu heildarinnkaup á olíum?“

Þetta eru náttúrlega mikil kaup í okkar augum og stór kaup á mælikvarða okkar Íslendinga, en vitanlega eru þetta smákaup á mælikvarða stórþjóðanna, og vil ég vekja athygli á því, ef einhverjir hv. þm. vildu halda því fram, að hér væri um stóra samninga að ræða á heimsmælikvarða, sem gæfu tilefni til einhverra sérstakra vildarkjara. En ég býst við því, að ef við gerum okkur ljóst, að hér er verið að gera olíuinnkaup fyrir aðeins 150 þús. manns, þá verða heildarkaup á olíu, sem við þurfum, ekki nein stórkaup, miðað við það, sem gildir á heimsmælikvarða og þegar verið er að kaupa inn fyrir milljónaþjóðir. En sem svar við þessari spurningu vil ég segja þetta: Tvö olíuflutningaskip hafa verið tekin á leigu, annað til tveggja ferða með brennsluolíu, en hitt til þriggja ferða með gasolíu og benzín. Farmgjöldin á brennsluolíuförmunum eru 37 sh. 4 d., en á hinum förmunum tveimur 36 sh. 4 d., og einum 33 sh. 6 d., allt miðað við flutning á ensku tonni.

Nú er kannske spurt að því, hvernig standi á þessum mismun, og þá er rétt að geta þess, að þetta er nokkuð undir því komið, hvað skipin eru stór, og líka eru fragtirnar venjulega hærri á veturna en á sumrin, vegna þess að siglingarnar eru dýrari á þeim árstíma. Ósamið er um frekari flutninga: Rangt er að gera ráð fyrir lægri farmgjöldum á leiðinni Reykjavík — Patomi en Reykjavík—Vestur-Indíur, því að vegalengdin til Patomi er talsvert lengri, og hefur því orðið að greiða heldur hærri farmgjöld en þyrfti að greiða fyrir sambærileg skip í flutningum milli Vestur-Indía og Reykjavíkur.

Þá er það fimmta spurning: „Kemur engin verðlækkun á olíum útvegsmönnum og öðrum notendum olíunnar til góða vegna hagkvæmra stórinnkaupa og hagstæðra farmgjalda?“

Það sem ég sagði áðan í sambandi við þessi stórkaup, hefði nú kannske frekar átt við í sambandi við þessa spurningu, en ég vil taka fram til viðbótar, að það er rangt að gera ráð fyrir verðlækkun á þeirri forsendu, að hér sé um stórinnkaup og stórflutninga að ræða, eins og hv. 3. landsk. virðist gera, því að um sama verð og svipað flutningsmagn er að ræða í Sovétríkjunum eins og við höfum keypt á undanförnum árum frá öðrum löndum, og hefur ekki orðið nein breyting á olíuverði síðan samningurinn var gerður, en aftur á móti hækkað útsöluverð á benzíni um 3 aura lítrinn, sem stafaði af verðhækkun á heimsmarkaðinum.

Ég ætla, að hv. fyrirspyrjandi láti sér nægja þessi svör og þessar upplýsingar, sem ég nú hef gefið, og hef ég ekki neinu við það að bæta að svo komnu.