18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í D-deild Alþingistíðinda. (3408)

219. mál, olíumál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér þótti vænt um að fá þær upplýsingar, sem hér komu fram í þessu máli frá hæstv. viðskmrh. Þó fannst mér ýmislegt skorta á í sambandi við þessar upplýsingar, en það getur nú verið, að það stafi að einhverju leyti af því, hvernig málið liggur hér fyrir. Ég hefði t. d. óskað eftir því, að hann hefði skýrt alveg hreinlega frá því hér, eins og spurt er um í 1. lið fsp., sem hér liggur fyrir, hvað innkaupsverðið er pr. tonn nú á olíunum. Það er rétt, sem heyrzt hefur áður, að samið hafi verið um gildandi heimsmarkaðsverð á þessum olíutegundum á hverjum tíma, en hér hefur verið spurt um það, hvað er innkaupsverðið á hverju tonni, og ég vildi því mjög óska eftir því, að hæstv. viðskmrh. vildi upplýsa það hér nú. Hann hefur upplýst hér, hvað er flutningsgjaldið, hvað hefur verið samið um í flutningsgjald fyrir hvert tonn af þessum olíum, og það er þá ekki lítið fróðlegt fyrir þá, sem þurfa að kaupa olíur, að vita bæði innkaupsverðið, sem mjög hefur verið dulið fram að þessu yfirleitt, og líka um flutningsgjaldið, og þá fer maður síðan nokkuð nærri um það, hvernig kaupin gerast á eyrinni hjá þeim, sem með þetta verzla.

En það voru hér atriði, sem mér fannst ástæða til að vekja frekari athygli hæstv. viðskmrh. á og annarra þm. Hann vildi láta líta svo út í svörum sínum, fannst mér, að aðstaða hefði ekki verið fyrir hendi til þess, að olíusamlög útvegsmanna yfirleitt hefðu haft nokkra aðstöðu til þess að ganga inn í þann samning, sem ríkisstj. hér gerði, vegna þess að þau ættu yfirleitt ekki yfir að ráða neinum olíugeymum, nema svo smáum, að þau gætu ekki tekið við olíunni til neinnar teljandi geymslu. Það er nú samt sem áður svo, að fjölmörg olíusamlög útvegsmanna í landinu eiga allálitlega geyma. En auk þess er svo það þegar þekkt af reynslu hér, að ríkissjóður hefur áður haft nokkuð með innflutning á olíu að gera til landsins, og þá var hægt, á meðan geymsluplássið var minna en það er nú, að gefa olíusamlögum útvegsmanna kost á því að fá olíuna til sín í sína geyma einmitt með beinu innkaupsverði. Og það sýnist t. d., að það hefði verið lítill vandi að setja þessum stóru olíufélögum, sem fengu að yfirtaka þennan stóra samning, þau skilyrði, að um leið og þau fengju að hafa með innflutninginn að gera, yrðu þau að selja hinum fjölmörgu olíusamlögum útvegsmanna af sínum birgðageymum olíuna, eftir því sem þeirra birgðageymar aftur leyfðu, á beinu innkaupsverði. Slík skilyrði hafa ekki verið sett, og nú geta þessir innflytjendur, sem þarna hafa fengið að yfirtaka hinn stóra samning ríkisins, átt við olíusamlög útvegsmanna eins og hvern annan almennan kaupanda í landinu, sem sagt verzlað við þá í rauninni á smásölugrundveili. Ég er sannfærður um það, að eins og þetta var hægt á árunum 1944 og 1945, þá hefði þetta líka verið hægt nú í dag, að gefa þeim kost á því að fá olíuna úr þeirra olíustöðvum hér eða þeim olíustöðvum, sem olían hefur verið fyrst flutt á, ef vilji ríkisstj. hefði verið nægur í þessu efni, eða hún átti að sjá, hvað hér var í rauninni að gerast.

Mér fannst hæstv. viðskmrh. gera líka allmikið úr því, að olíuinnflutningur okkar Íslendinga væri í rauninni lítilræði á heimsmælikvarða, og það kann vel að vera, að þegar allur heimurinn er lagður til grundvallar. þá verði okkar hlutur lítill. En eigi að síður er það staðreynd, að við flytjum nú orðið inn til landsins yfir 200 þús. tonn af olíu, og það er langsamlega stærsti innflutningsliðurinn á vörum til Íslands. 200 þúsund tonn af olíu er býsna álitlegt, og þegar það hefur komið hér fram, eins og kom fram í alþingiskosningunum í sumar, að það þótti vera sannað, að einn aðili, sem hér flutti inn olíu, hafi fengið afslátt af einum olíufarmi, sem nam 700 þús. kr. frá hinu skráða verðlagi á frögtum, þá þykir mér ótrúlegt, þegar samningar stóðu fyrir dyrum við olíuskip um það að tryggja þeim flutning hingað til landsins á 200 þús. tonnum af olíu, að þá hefði ekki verið hægt að lækka fragtirnar talsvert mikið á öllu því magni frá því, sem hafði gilt hér í landinu fram að þeim tíma. En við höfum sem sagt ekki enn orðið vör við það, að olíuverðið hafi af þessum ástæðum neitt lækkað hér í útsölu.

Tími minn er víst búinn og enda ekki til þess ætlazt að ræða þetta mál á breiðum grundvelli hér í fyrirspurnatíma, en ég vildi undirstrika þá beiðni mína til hæstv. viðskmrh., að hann sæi sér fært að skýra hér einmitt frá beinu svari við 1. lið fsp., sem sagt því, hvað var hið raunverulega innkaupsverð í krónum talið á hverju tonni, sem keypt hefur verið.