18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í D-deild Alþingistíðinda. (3409)

219. mál, olíumál

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það virðist svo, að hv. fyrirspyrjandi sé nokkurn veginn ánægður með þau svör, sem ég gaf áðan, en ég vil þó taka hérna nokkur atriði fram, og ein spurning var það, sem hann varpaði fram, hvort olíufélögunum þremur hafi verið framseldur samningurinn án skilyrða um álagningu og verðlag til notendanna. Ja, um þetta er ekki annað að segja en það, að dreifingarkostnaður og álagning á olíu og benzín er undir verðlagsákvæðum, sem fjárhagsráð sér um, og flokksmaður hv. fyrirspyrjanda er í fjárhagsráði og fylgist með þessu. Og ég ætla það, að þar sem olían hefur nú um langt skeið verið undir hámarksákvæðum, þá hafi ekki verið leyfð óhæfilega mikil álagning, og þess vegna hefur ekki verið ástæða til sérstaklega nú að gera ráð fyrir einhverjum sérstökum skilyrðum eða afslætti frá þeirri álagningu, sem olíufélögin hafa haft, nema því aðeins að það hafi áður verið óhóflega mikið. En ég vil bara taka það fram, að þetta er nú og hefur verið undir hámarksákvæðum og háð samþykki verðlagsyfirvaldanna á hverjum tíma, hversu mikinn dreifingarkostnað og álagningu olíufélögin megi taka af benzíni og olíum.

Þá lýsti hv. fyrirspyrjandi og reyndar síðasti ræðumaður líka því, að þeir væru óánægðir með það, að olíusamlög skyldu ekki hafa getað gengið beint inn í þessi kaup eins og olíufélögin. Ég benti á það áðan, að olíusamlög og útvegsmenn hafi ekki aðstöðu til þess að taka á móti því olíumagni, sem nauðsynlegt væri til þess, að þau gætu orðið þessara hlunninda aðnjótandi. Að vísu sagði hv. síðasti ræðumaður, að olíusamlögin hefðu tanka og aðstöðu til þess og þetta hafi þau gert 1944. En vissulega mun það nú hafa verið í smáum stíl, og víst er það, að þessir geymar, sem olíusamlögin hafa, eru mjög litlir, og mikill kostnaðarauki hefði það nú verið að láta þessi stóru olíuflutningaskip fara að sigla hringinn í kringum land til þess að láta á þessa litlu geyma, sem olíusamlögin hafa yfir að ráða. Ég held, að við getum verið sammála um það, að eins og ástandið er í dag, þá hafi þessi olíusamlög ekki aðstöðu til þess að taka á móti neinu verulegu magni af olíu, þannig að það geti svarað kostnaði að láta stór olíuskip sigla á þá staði, þar sem tankarnir eru. En ég vil segja það, að það er eðlilegt, að olíusamlög skapi sér aðstöðu til þess að geta gert þannig bein og milliliðalaus innkaup. Og mér finnst eðlilegt, að hvenær sem þau skapa sér þá aðstöðu, þá njóti þau hinna beztu kjara og komist inn í samninga á þann hátt, sem hv. fyrirspyrjandi og hv. síðasti ræðumaður óska eftir.

Þá var talað um farmgjöldin og hvort þau hafi verið hagkvæm og hvort ríkisstj. hafi ekki náð hagkvæmari samningum í sambandi við þessi stóru innkaup, sem þessir hv. þm. eru alltaf að ræða um. Ég gat um það áðan, hvað farmgjöldin hefðu verið. Þau voru í einu tilfellinu 33 sh. og 6 d., í öðru tilfellinu 36 sh. og 4 d. og í þriðja tilfellinu 37 sh. og 4 d. Ef við tökum nú meðaltalið af þessu og segjum 35 sh., þá verður það ca. 80 kr. pr. tonn. Nú man ég það, að í fyrravetur var talað um, að fragt á olíu, miðað við það, sem þá tíðkaðist lægst, væri átta dollarar pr. tonn, en átta dollarar eru ca. 130 kr. Þegar við berum þetta saman, sjáum við, að fragtin á olíunni frá Sovétríkjunum er þarna 50 kr. lægri pr. tonn en hún var í fyrra frá Bandaríkjunum, og verður að segja, þegar þetta er borið saman, að þarna sé um hagkvæma samninga að ræða, enda þótt það sé tekið með í reikninginn, að fragtir hafi lækkað á heimsmarkaðnum síðna í fyrravetur. Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að fragtirnar á þessum tíma hafi náðst með eins hagkvæmum kjörum og unnt var og ekki sé ástæða til þess að vera óánægður með það.

Þá var það ein spurning, sem hv. síðasti ræðumaður varpaði hér fram, hvað væri innkaupsverð eða fob-verð á olíunni pr. tonn í Sovétríkjunum. Þetta er nú ekki þannig spurt í fyrstu spurningunum. En ég hef lýst því, að þetta væri heimsmarkaðsverð á hverjum tíma. Það væri vitanlega hægt að svara því, hvaða verð væri fob. á því olíumagni, sem búið er að festa kaup á. En ég verð nú að segja, að ég held ég viti þetta hér um bil, en þó ekki svo nákvæmlega, að ég telji rétt að fara með það nú. Ég vil láta hv. fyrirspyrjanda vita af því, að þetta getur ekki verið neitt leyndarmál, og ég get gefið honum alveg nákvæmar upplýsingar um þetta eftir hálftíma eða svo. Ég vil ekki fara með tölur hér, sem eru ekki alveg 100% réttar, og vænti ég, að hv. fyrirspyrjandi virði mér það til vorkunnar.

Ég hef svo ekki meira um þetta að segja og vænti þess, að hv. fyrirspyrjandi og hv. síðasti ræðumaður sætti sig nokkurn veginn við þær upplýsingar, sem ég nú hef gefið.