14.12.1953
Neðri deild: 38. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta frv. hefur nú tekið nokkrum breytingum í meðferð hv. Ed., og ég fæ ekki séð betur en að það fari nú að fara dálítið glansinn af þessu frv., þegar Ed. er búin að fjalla um það. Þegar þetta frv. var hér í Nd. og var lagt fyrir þingið, þá hljóðaði byrjunin svo: „Frjáls skal vera innflutningur til landsins.“ Þannig byrjaði fyrri hlutinn af fyrstu setningunni. Og það var tilkynnt, að nú væru mikil þáttaskil, nú væru mikil tímamót og hér væri sem sé loksins eftir áþján liðinna ára boðað frelsið á ný.

Hv. Ed. virðist hafa lítið eitthvað dálítið svipuðum augum á frv. og við hér í stjórnarandstöðunni leyfðum okkur að setja fram í þessari hv. d. Hún hefur breytt byrjuninni þannig, að þar stendur nú: „Stefna skal að því að gera allan innflutning til landsins frjálsan.“ M.ö.o.: Í staðinn fyrir ákvæði um að gera innflutninginn frjálsan kemur nú ósköp falleg yfirlýsing um, hvert stefna skuli. Samt hefur það verið tekið fram líka í lögunum um fjárhagsráð, sem nú á að afnema, að meiningin hafi nú verið líka með þeim að reyna að gera innflutning frjálsan, hins vegar hafi þar átt að gera ýmsar ráðstafanir til þess að undirbyggja það verzlunarfrelsi, m.a. með skipulagðri aukningu og eflingu á öllu atvinnulífi landsins, með áframhaldi nýsköpunarstefnunnar, eins og tekið var fram í 2. gr. fjárhagsráðslaganna, með skipulögðum ráðstöfunum til að bæta við skipastól landsbúa, efla iðnaðinn, landbúnaðinn og annað atvinnulif. Hér er allt slíkt þurrkað út, engar ráðstafanir eftir í sambandi við þetta frv., sem beri vott um, að stefnt sé að því að gera innflutning til landsins frjálsan, engar ráðstafanir, sem miði í þá átt að undirbyggja atvinnulífið þannig, efla það þannig, að innflutningurinn geti virkilega einhvern tíma orðið frjáls, vegna þess að gjaldeyristekjur landsins séu orðnar svo miklar vegna blómlegs aukins atvinnulífs, að það sé hægt að gefa hann frjálsan. Mér sýnist þess vegna breytingin á þessu frv. vera öll í realistíska átt, það sé verið að taka skrautfjaðrirnar úr því og setja í staðinn máttlitla stefnuyfirlýsingu.

Út af fyrir sig er ekkert við þessu að segja. Þetta er þannig samrýmt ofur lítið meira þeirri raunverulegu stefnu, sem vafalaust vakir fyrir ríkisstj. — 2. málsl. í 1. gr. hljóðar nú svo: „Meðan gjaldeyristekjur þjóðarinnar nægja ekki til þess, að svo megi verða, ákveður ríkisstj. hverju sinni með reglugerð, hvaða innflutningur til landsins skuli vera frjáls.“ M.ö.o.: Alveldi reglugerða, alræði ríkisstj. um verzlunina til landsins er þar með slegið föstu, en framan við þetta er bætt þessari sakleysislegu yfirlýsingu. Þessu vildi ég aðeins vekja athygli á, um leið og ég segi nokkur orð um þá brtt., sem ég hef lagt hér fram.

Ég ætla ekki að fara að gera neinar stórbrtt. við frv., en eftir að búið var að fella hér fyrir mér við 2. umr. eða 3. umr. allar þær smábrtt., sem ég flutti þá við 1. gr. um, að frjáls skyldi vera innflutningur á vörunum, þannig að allir hefðu jafnan rétt til hans, þá hef ég nú hér flutt brtt. á þskj. 309 um, að innflutningur á einni einustu vörutegund skuli vera frjáls. Og ég verð nú að segja, að mér finnst ekki farið fram á nein ósköp, að bara innflutningur á einni einustu vörutegund, sem flutt er til landsins, eða vöruflokki, sem sé byggingarefnum, skuli vera frjáls, það skuli þó vera ákveðið með lögum. Mér finnst ekki farið fram á nein ósköp í sambandi við þetta, sérstaklega með tilliti til þess, að 8. gr. mælir svo fyrir um, að frjálst skuli vera að byggja íbúðarhús, og af því að ekki er ætlazt til þess, að þau séu byggð úr torfi, — það veit ég, — heldur úr sementi, timbri og alls konar nýtízku byggingarefnum, þá verður máske lítið um það frelsi, sem 8. gr. mælir fyrir um, ef innflutningur byggingarefnis er ekki frjáls. Þess vegna álít ég, að í samræmi við þau ákvæði, sem eru í 8. gr., að frjálst skuli vera að byggja íbúðarhús, skuli innflutningur á byggingarefnum vera frjáls. Þó orða ég þetta þannig: „Innflutningur á byggingarefnum skal vera frjáls, þannig að allir hafi jafnan rétt til þess að fá þau.“ Ég er ekki þar með að slá því föstu, að hvaða maður í landinu sem er skuli geta fengið hvaða gjaldeyri sem er til þess að byggja hvað sem er, heldur aðeins hitt, að ríkisstj. skuli sjá um, að nægilegt sé flutt inn af byggingarefni. Hún getur þá ráðstafað því í sambandi við viðskiptasamninga á hverjum tíma, eins og hún fær heimild til með reglugerðarheimildunum í 1. gr. En ég vil aðeins taka þetta fram, að það sé öruggt, að þessir menn, sem fá nú frelsi til þess að byggja íbúðarhús af ákveðinni stærð, skuli hafa rétt til þess að kaupa það byggingarefni, sem flutt er inn til landsins, skuli hafa jafnan rétt til þess að kaupa það byggingarefni, m.ö.o., að hæstv. ríkisstj. geti ekki gefið einstökum firmum einokun á innflutningnum á byggingarefninu. Þetta held ég að séu alveg óhjákvæmileg fyrirmæli til þess að gera 8. gr. raunhæfa og legg þess vegna til, að þessu sé bætt við. — Enn fremur legg ég til í seinni hluta þessarar málsgr., að annað ákvæði sé sett, sem miðar í þá átt eða er a.m.k. sterk viljayfirlýsing Alþ. í þá átt að tryggja það, að íbúðarhúsabyggingafrelsið verði raunhæft, þ.e., að þarna skuli koma inn í lögin svo hljóðandi setning: „Bankar ríkisins skulu auka stórum lán til íbúðarhúsabygginga, svo að mönnum verði gert kleift að hagnýta sér byggingarfrelsið.“ Við vitum, að ákvæðin um byggingarfrelsið verða að engu, jafnvel þó að innflutningur á byggingarefninu sé frjáls, svo framarlega sem haldið er þeirri lánsfjárpólitík, sem nú hefur verið rekin.

Ég minnti hér á við umræðu málsins í þessari deild, að fyrir liggur bréf frá ríkisstjórn Íslands, frá fyrrv. bankamrh. til Landsbanka Íslands, þar sem mælt er svo fyrir af hálfu ríkisstj., að hafðar skuli hömlur á, — það hefur nú aldrei fengizt upp orðalagið á því bréfi, af því að hæstv. ríkisstj. hefur aldrei fengizt til þess að lesa það hér, — en það er ekki óeðlilegt, að sá grunur hafi komið upp, að í bréfinu séu fyrirmæli um að lána sem minnst til íbúðarhúsabygginga. Og þau fyrirmæli eru gefin á tíma, sem svo að segja ekkert er lánað til íbúðarhúsabygginga. M.ö.o.: Það liggur núna fyrir bréf frá ráðherra Sjálfstfl. um, að bankarnir skuli ekki lána til íbúðarhúsabygginga í Reykjavik, og í hvert skipti, sem ég minnist á þetta bréf, gætir hv. 3. þm. Reykv., fyrrv. bankamrh., þess mjög vel að vera annaðhvort ekki hér inni eða þá, ef hann kemur í stólinn hér á eftir mér, að minnast ekki einu orði á bréfið. Ég held þess vegna, að það sé tími til kominn, að Alþ. gefi fyrirmæli til bankanna um, hvernig það hugsar sér byggingarfrelsið í framkvæmd, og þess vegna hugsa ég þetta sem eins konar bréf til bankanna, sem eigi nú að afnema það bréf, sem hæstv. fyrrv. viðskmrh., núv. 3. þm. Reykv., skrifaði, — að Alþ. fyrirskipaði þeim að auka stórum lán til íbúðarhúsabygginga. Ég veit, að þetta er ekki skoðað nema eins og viljayfirlýsing frá Alþ., en ég held, að sú viljayfirlýsing þurfi að koma fram. Ég held, að það sé þýðingarlitið að segja við menn: Þið megið byggja fyrir næstu tvö, þrjú hundruð ár, þið megið auðga þjóðfélagið með því að byggja hús, sem standa í aldir, en þið skuluð ekki fá nein lán frá þjóðfélaginn til þess að geta gert þetta. — Slíkt frelsi er til lítils.

Ég held þess vegna, að þessi fyrirmæli, sem þarna eru, séu mjög nauðsynleg og þau séu í beinu samræmi við þann vilja, sem kemur fram hjá hæstv. ríkisstj. og alltaf hefur verið skoðaður eini ljósbletturinn í þessu frv., við þann vilja, að það skuli vera frjálst að byggja íbúðarhús. M.ö.o.: Þetta tvennt þarf til, að það frelsi verði raunhæft, innflutningurinn á byggingarefnunum sé frjáls, a.m.k. þannig, að allir hafi jafnan rétt til þess að fá þau, en engin einokun á þeim, og í öðru lagi að bönkunum sé fyrirskipað að auka lánin til íbúðarhúsabygginga, og það set ég fram alveg með sérstöku tilliti til þeirra fyrirmæla, sem ég veit að enn liggja því miður fyrir hjá hæstv. ríkisstj. í öfuga átt.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vænta þess. að eftir að Ed. hefur sýnt mjög raunhæfa afstöðu til þessa frv. með breytingu á 1. gr., þá muni hv. Nd. sýna raunhæfa afstöðu til 8. gr., vilja til þess að gera hana raunverulega með því að tryggja það byggingarfrelsi, sem þar er mælt fyrir að skuli komið á, með því í fyrsta lagi að tryggja mönnum byggingarefni og í öðru lagi að tryggja mönnum lán til íbúðarhúsabygginganna. — Ég vona þess vegna, að þessi brtt. mín hljóti samþykki í hv. d.