18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í D-deild Alþingistíðinda. (3414)

220. mál, vinnudeilur

Fyrirspyrjandi (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Það mun enn í fersku minni hv. þingmanna, að í desember í fyrra var háð hér á landi eitthvert víðtækasta verkfall, sem um getur í sögu íslenzkrar verkalýðshreyfingar. Allir, sem nokkurn skilning vildu á þeim málum hafa, viðurkenndu, að verkföll þessi hefðu verið nauðvörn verkalýðsfélaganna, sem að þeim stóðu, nauðvörn, sem beinlínis leiddi af síaukinni kjaraskerðingu þessara stétta, sem aftur var afleiðing af stefnu fyrrv. ríkisstj. í efnahagsmálum. En eins og kunnugt er, hafði sú ríkisstj. í fyrsta lagi framkvæmt stærstu gengisfellingu, sem um getur í sögu íslenzkrar þjóðar, en auk þess breytt grundvelli kaupgjaldsvísitölunnar og takmarkað með ýmsum hætti, að vísitalan væri sá mælikvarði um raunveruleg laun, sem henni var upphaflega ætlað að vera samkvæmt eðli málsins. Í öðru lagi hafði fyrrv. ríkisstj. heimilað frjálsa álagningu á margar helztu þurftarvörur, sem gaf ýmsum óprúttnum bröskurum tækifæri til að féfletta almenning að vild sinni. Í þriðja lagi hafði þessi sama ríkisstj. innheimt á annað hundrað millj. kr. tolla og skatta árlega umfram það, sem áður hafði þekkzt hér á landi. Og í fjórða lagi hafði þessari sömu ríkisstj. nær því tekizt að skipuleggja íslenzkan iðnað í rúst og skapa verulegt atvinnuleysi, að nokkru leyti með aðstoð innflutts sérfræðings í þeim málum.

Gegn afleiðingum þessa verknaðar reis íslenzkt verkafólk, karlar og konur, í voldugri fylkingu en til þess tíma hafði þekkzt hér á landi. Úrslit þeirrar baráttu urðu, svo sem kunnugt er, með allsérstökum hætti og mörkuðu að margra dómi tímamót í sögu íslenzkrar verkalýðsbaráttu. Í stað þess að fara þá leið, sem venjulegust hafði verið til þess tíma, að fá atvinnurekendur til að fallast á hækkaða krónutölu verkalauna, neyddi verkalýðurinn sjálfa ríkisstj. til undanhalds og til viðurkenningar á því, að stefna hennar og aðgerðir í innanlandsmálum hefðu verið rangar og óeðlilegar, og vann því tvöfaldan sigur í baráttu sinni, pólitískan sigur og fékk raunverulegar kjarabætur. Tími minn hér leyfir ekki, að sú saga verði rakin svo sem vert væri. Aðeins skal á það minnzt, að ríkisstj. og nánustu skjólstæðingar hennar, braskararnir, neyddust til að viðurkenna, að álagningarokrið hefði keyrt úr hófi fram, og var því í samningum þeim, sem undirritaðir voru við lausn verkfallsins, svo kveðið á, að flutningsgjöld og álagning á ákveðnar vörutegundir skyldu lækka, og skyldi það vera á ábyrgð ríkisstj. og undir hennar eftirliti, að þessu ákvæði samningsins yrði framfylgt.

Í fjórða lið þess grundvallar, sem samningurinn um lausn verkfallanna byggist á, segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Álagning á ýmsar nauðsynjavörur almennings, sem taldar eru í tillögum ríkisstj., lækkar fyrir atbeina ríkisstj. eins og þar greinir, og mun ríkisstj. hafa eftirlit með því, að þær álagningarreglur verði haldnar.“

Þessar vörutegundir, sem taldar eru í till. ríkisstj., eru kornvörur, kaffi óbrennt, nokkrar tegundir af vefnaðarvörum og ullarvörum og búsáhöld úr aluminium, leir og gleri. Og var nánar tilgreint í þessum till., hver álagning skyldi vera á hverja vörutegund fyrir sig, eftir að samningurinn var gerður.

Nú er það ekki á vitund almennings, hvernig þær álagningarreglur, sem talað er um í till. ríkisstj., voru né hvort þær hafa verið haldnar, eins og ríkisstj. lofaði og tók ábyrgð á. En þar sem meginþorri þjóðarinnar taldi, að sú leið, sem hér var farið inn á í verkalýðsbaráttunni, þ. e. að knýja fram lækkanir á ýmsum nauðþurftum í stað beinna kauphækkana. væri mjög æskileg, er eðlilegt, að þess sé almennt vænzt, að haldið verði áfram á þeirri braut. Til þess að svo geti orðið, verður að ríkja gagnkvæmt traust milli samningsaðila um, að staðið sé við gerða samninga. Þess vegna verða öll atriði í sambandi við þá að vera almenningi ljós og greið aðgöngu.

Öllum er ljóst, að verkalýðsfélögin hafa staðið við sinn hluta í öllum atriðum af samningum þeim, sem gerðir voru seint í des. 1952 um lausn verkfallanna. En hefur ríkisstj. staðið við sinn hluta og þá ábyrgð, sem hún tók á sig með þeim samningum, eða hefur hún haldið þannig á þeim málum, að það gætu kallazt bein svik við þessa samninga? Öllum mönnum er ljóst, að ef ríkisstj. hefði ekki staðið við samningana að sínu leyti, væri það eitthvað það alvarlegasta sem fyrir gæti komið, bæði vegna samninganna sjálfra svo og vegna framhaldsins á þeirri nýju leið í íslenzkri verkalýðsbaráttu, sem hafin var með verkföllunum í desember í fyrra. Til þess að vekja þessi mál af svefni og til að afla almenningi þeirrar vitneskju um þau, sem honum ber, hef ég leyft mér að bera fram nokkrar spurningar á þskj. 161, sem hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á hvern hátt er það tryggt af hálfu ríkisstj., að sú lækkun álagningar á neyzluvörur komi til framkvæmda, sem lofað var og samið var um í sambandi við lausn vinnudeilunnar í des. 1952? Er ríkisstj. kunnugt um, hvort þessi ákvæði samninganna frá des. 1952 hafi verið haldin af hlutaðeigandi aðilum, svo sem til var ætlazt? Gilda sömu reglur um verðútreikninga á umræddum vörum eins og þeim vörum, sem enn þá eru undir verðlagsákvæðum? Hvaða viðurlög liggja við því, ef innflytjendur brjóta umrætt samkomulag eða bregða út af eigin tilboði um hámarksálagningu á þær vörutegundir, sem lagðar voru til grundvallar við lausn vinnudeilunnar í des. 1952?“