18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í D-deild Alþingistíðinda. (3416)

220. mál, vinnudeilur

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er á dagskrá, er miklu umfangsmeira en svo, að það sé hægt að ræða það svo sem vert væri í einum fyrirspurnatíma. En ég get þó ekki látið þetta tækifæri ónotað til þess að gefa hæstv. viðskmrh. dálitlar upplýsingar, sem alveg virðast hafa farið fram hjá honum og hans stjórnardeild. Hann telur, að þessi ákvæði, sem verkalýðsfélögin sömdu upp á eftir loforði ríkisstj., hafi yfirleitt verið haldin. Þetta er hinn mesti misskilningur, og vil ég í því sambandi leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa hér upp örlítinn kafla úr bréfi, sem Verkalýðsfélag Vestmannaeyja hefur nýlega sent bæði mér og hv. þm. Vestmannaeyjakaupstaðar. Þar segir:

„En því miður hefur misbrestur orðið á því hér í Eyjum,“ þ. e. á því, að staðið væri við þá samninga, sem þarna voru gerðir. „Verð mjólkur í lausu máli er ákveðið í samningi á kr. 2.71 pr. lítra, en hér hefur það orðið á aðfluttri mjólk frá samsölunni í verzlun Helga Benediktssonar kr. 3.00 pr. lítra, en heimaframleidd mjólk kr. 3.16 pr. lítra.“

Síðan er farið í bréfinu nokkrum frekari orðum um einstök tilvik hjá smæstu mjólkurframleiðendum í Eyjum, sem selja mjólkina á dálítið misjöfnu verði, enginn þeirra þó á því lögákveðna verði, að undanskildu Dalabúinu, sem er eign Vestmannaeyjabæjar og selur á hinu umsamda verði. Hér er líka talið upp, að verð á kaffi var ákveðið í samningi kr. 40,80 pr. kg., en er í reyndinni í októbermánuði s. l. 41.40. Þannig eru taldar upp allmargar vörutegundir í nefndu bréfi, og yfirleitt stenzt verðlagið ekki í neinu að því er tekur til Vestmannaeyja. Hitt hef ég nú að vísu grun um, að hvergi hafi þessi samningsákvæði verið eins illa haldin og gagnvart Vestmanneyingum, því að Verkalýðsfélag Vestmannaeyja sendi út bréf til fjölmargra verkalýðsfélaga á landinu og gerði fyrirspurnir um það, hvernig þessi ákvæði væru haldin gagnvart þeim, og gefa svörin tilefni til þess að ætla, að ríkisstj. sé hvergi eins brotleg við sinn samning og gagnvart Vestmanneyingum.

Eins og ég tók fram áðan, er alveg vonlaust að ætla að ræða í fyrirspurnatíma þetta mál, sem er stórmál og á vafalaust eftir að koma hér fyrir í þingsölum, ef hæstv. ríkisstj. vindur ekki bráðan bug að því að leiðrétta þetta og gera ráðstafanir til að standa við sína samninga.

Það er vissulega alvarlegt atriði, ef það á svo að vera í framtíðinni, að verkalýðsfélögin undirriti samninga eftir loforði frá ríkisstj. um, að þetta eða hitt skuli ske, ríkisstj. svíkur síðan flest, kannske öll sín samningsatriði, og verkamenn standa uppi án þess að geta í rauninni sótt á nokkurn aðila, því að sá aðili, sem þeir formlega gera samninginn við, atvinnurekendur, er ekki brotlegur, heldur er það ríkisstj. En yfirstéttinni á Íslandi þykir hagkvæmast að hafa þetta skipt í tvennt; annar aðilinn er samningsaðill, og hann er látinn halda sinn hluta af samningnum, hinn aðilinn, sem yfirstéttin beitir fyrir sig, er ríkisvaldið, og það svíkur, og á því er naumast hægt að ná nokkrum lögfræðilegum tökum. Ég get upplýst það, að Verkalýðsfélag Vestmannaeyja hefur að sínu leyti lagt þetta mál fyrir Alþýðusambandið, og það hefur verið þar lengi í athugun, og lögfræðingur Alþýðusambandsins telur, að það sé mjög erfitt að koma fram málsóknum á hinn rétta aðila, þar sem hann sé þriðji aðili, þ. e. a. s. ríkisstj., en ekki sá aðili, sem raunverulega hefur undirritað samninginn.

Ég vil að lokum — ég sé, að forseti er farinn að ókyrrast, ég er sjálfsagt búinn með minn tíma — beina því til hæstv. ríkisstj., að ef það er raunverulegt, að þessar vanefndir hafi farið fram hjá henni, þá veit hún það nú, að a. m. k. að því leyti sem tekur til Vestmannaeyja, þá er samningurinn gersamlega vanefndur af hálfu ríkisstj., og vona ég, að á því megi verða úrbót hið allra fyrsta.