18.11.1953
Sameinað þing: 17. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í D-deild Alþingistíðinda. (3420)

220. mál, vinnudeilur

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 3. landsk., síðasti ræðumaður, er nú kunnugur því, hvernig samningarnir voru á milli hæstv. ríkisstj. og verkalýðsfélaganna frá því í des. í fyrra, og þess vegna undrar mig, að hann skuli koma hér upp í ræðustólinn og belgja sig upp og segja, að ríkisstj. hafi svikið Vestmanneyinga í sambandi við mjólkurverðið þar. Hvernig stendur á því, að Hannibal Valdimarsson kemur hér og belgir sig upp og segir hér gegn betri vitund, að ríkisstj. hafi brotið samninga á Vestmanneyingum? Hannibal Valdimarsson er það skýr maður, að hann veit, að ríkisstj. tók aldrei ábyrgð á mjólkurverðinu í Vestmannaeyjum. Og ég tel, að allir hv. þm. séu nú það kunnugir Vestmannaeyjum, vegna þess að það er staður, sem oft ber á góma, þetta er blómlegur útgerðarstaður, en það er tvennt, sem háir þessum stað, það er vatnsleysi og það er mjólkurleysi, og það hefur alltaf verið þannig í Vestmannaeyjum, að mjólkin hefur verið þar mun dýrari en nokkurs staðar annars. Þegar samkomulag var gert um það hér s. l. haust, að mjólkurverðið skyldi vera kr. 2.71, þá tók ríkisstj. ekki á sig ábyrgð á því að greiða niður mjólkina í Vestmannaeyjum það mikið, að hún yrði þar á sama verði og mjólk er í Rvík, og það er bezt, að hv. þm., sem kemur hér upp í ræðustólinn og fullyrðir slíkt og ber svik á ríkisstj. í þessu tilefni, komi með samninginn og lesi upp úr honum þá grein, sem segir, að ríkisstj. hafi tekizt skuldbindingar á hendur um það að greiða mjólkina niður í Vestmannaeyjum það mikið, að hún verði ekki dýrari þar en annars staðar. (Gripið fram í.) Nei, en það er bezt að ég komi með það.

Það hefur verið talað um svik og brot á þessu samkomulagi, sem gert var í desembermánuði s.l. í fleiri atriðum en þessu. Ég sagði hér áðan, eftir viðtali, sem ég átti við verðgæzlustjórann, að hann og hans starfslið hafi haft eftirlit með því, að þessir samningar væru haldnir, og verðgæzlustjóri fullyrðir, að samningar hafi verið haldnir. Nú kemur hér upp hv. þingmaður, sem er og hefur verið starfsmaður í fjárhagsráði, og fullyrðir, að verðgæzlustjóri hafi enga aðstöðu til að fylgjast með þessu eða fullyrða nokkuð hér um. Þessi ræðumaður segir líka, að hann taki ekki þetta fram vegna þess, að hann vantreysti verðgæzlustjóra, o sei sei. Ég segi nú bara, þegar verðgæzlustjóri kemur á minn fund og fullyrðir það, sem hann hefur sagt við mig, og það, sem ég hef hér tekið fram, og kvartar ekki neitt undan því, að hann vanti heimildir eða aðstöðu til þess að vinna sin verk, þá verð ég nú að segja það, að annar hvor hefur á röngu að standa. Ef þessi hv. ræðumaður, hv. 8. landsk., heldur því fram, að hann hafi hér farið með rétt mál, þá heldur hann því fram, að verðgæzlustjóri hafi farið með rangt mál. Þá er þetta argasta vantraust, sem hægt er að bera á einn embættismann í landinu, og það væri ekki nema eðlilegt, að 8. landsk. þm. yrði látinn standa við þessi orð sín annars staðar en hér í hv. þd., því að hann ber hér þungbærar sakir á verðgæzlustjóra, að hann hafi farið með rangt mál, þegar hann fullyrðir, að samningarnir frá des. 1952 hafi verið haldnir. Það eru þungar sakir, sem hv. þm. verður að gera grein fyrir á öðrum stað. Nú sagði þessi hv. þm., að hann hefði ekki borið þessa fsp. fram vegna þess, að hann hafi ekki vitað, hvernig henni yrði svarað, því að ef hann hefði haft 5 mínútur yfir að ráða, þá hefði hann getað haldið sömu ræðuna og ég flutti hér áðan. Það er nú dálítið einkennilegt að vera að gera fsp. um það mál, sem hann sjálfur veit svörin við. Þetta er það mesta grín, sem ég hef nokkurn tíma vitað að hafi átt sér stað hér hjá einum hv. þm. í Alþingi.

Það var talað hér um, að kaffið væri hækkað frá því, sem samningurinn hefði tekið fram; það hefði verið talað um, að það ætti að vera kr. 40.80. Ég man nú kannske ekki nákvæmlega, hvað kaffiverðið er í dag, en mig minnir þó, að pakkinn sé kr. 10.15 a. m. k. í sumum búðum hér í Rvík, og ég þekki a. m. k. verzlun, þar sem kaffipakkinn er seldur á kr. 10.15. Það gerir kr. 40.60, 20 aurum lægra en talað var um í samkomulaginu í des. í fyrra. Mér er líka kunnugt um það, að sykurkílóið hefur a. m. k. lækkað um krónu frá því í des. í fyrra. Þetta nefna þessir hv. þm. ekki neitt. Mjólkurverðið er greitt niður það mikið núna, að það er sama útsöluverð og var í des. í fyrra, kartöfluverðið einnig, eins og tekið er fram í samningunum, en það, sem ber á milli í sambandi við mjólkina, eins og ég sagði hér áðan, er það, að ríkisstjórnin tók aldrei á sig skuldbindingar að greiða mjólkina niður í Vestmannaeyjum það mikið, að hún með samkomulaginu yrði á sama verði og hér í Rvík eða annars staðar, vegna þess að mjólkin í Vestmannaeyjum hefur alltaf verið miklu dýrari en annars staðar vegna þeirrar aðstöðu, sem Vestmanneyingar hafa. Þess vegna ættu menn ekki að vera að tala um svik í sambandi við þetta.

Það var fleira, sem hv. fyrirspyrjandi talaði hér um áðan. Hann talaði um það, að samkv. bréfinu, sem var gert í janúarmánuði s. l., skorti verðgæzlustjóra allar heimildir til þess að vinna sín verk. Ég kom lítillega að því áðan, að verðgæzlustjóri hefði ekki kvartað undan því, að hann hefði ekki heimildir og hefði ekki aðstöðu, og það er það, sem við þó vitum allir, að ef verðgæzlustjóri finnur verzlun, sem eitthvað saknæmt er hjá, þá getur hann hvenær sem er kært það til ríkisstj. eða sakadómara, eftir því sem hér á við, og í þessu tilfelli, ef samningar væru brotnir, þá er honum alltaf opin leið að kæra til ríkisstj. þetta atriði, því að það er ekkert síður ríkisstj., sem vill að samningarnir verði haldnir, heldur en verkalýðsfélögin. Og ég vil upplýsa það, að ef hægt er að benda á einhver atriði með sanni, sem sanna það, að samningarnir hafi verið brotnir, þá er það gegn vilja ríkisstj. Hitt er svo kannske ekkert undarlegt, þótt það megi benda á í einhverri verzlun, sem hefur tilhneigingu til þess að selja dýrt, að það geti komið fyrir, að það finnist þar einhver vörutegund á hærra verði en æskilegt er. En verðgæzlan hefur eftirlit með því, að þetta sé ekki gert.

Hv.8.landsk. var að tala um vaxtahækkunina og afleiðingar af því, að vaxtakostnaður hjá verzlunum hefði verið hækkaður úr 1% í 23%, eftir að vextirnir höfðu hækkað aðeins um 1%, úr 6% í 7%. Það er alveg rétt, að þessi kostnaður, vextirnir, hefur verið hækkaður hjá flestum úr 1% í 2% vegna vaxtahækkunar, ekki aðeins vegna þess að vextirnir hækkuðu um 1%, heldur einnig vegna þess, að um leið og þetta gerðist, þá var innflytjendum gert að skyldu að borga inn í bankann 60–70% af andvirði þeirrar vöru, sem þeir pöntuðu, og þessir peningar urðu svo að liggja í bankanum stundum 6, stundum 9 og stundum 10–11 mánuði vaxtalausir, áður en varan kom, og það er þetta, sem veldur því nú frekar, að þessi liður var hækkaður úr 1% í 2%, heldur en þó að vextirnir hækkuðu úr 6% í 7%. Ég veit, að hv. 8. landsk. þm., sem ég ætla vera viðskiptafræðing, hlýtur að gera sér ljóst, að það að þurfa að borga inn í bankann peninga, sem eiga að liggja þar marga mánuði vaxtalausir, hlýtur að leiða af sér aukinn kostnað fyrir verzlunina.

Ég sé svo ekki, að það sé fleira, sem ég þarf að taka hér fram, en ég undirstrika það í sambandi við mjólkurverð í Vestmannaeyjum, að ríkisstj. hefur ekki tekið þá ábyrgð á sig að auka niðurgreiðslu á mjólkurverði þar það mikið, að mjólkin, hvernig sem gengur að framleiða mjólkina í Vestmannaeyjum eða koma henni þangað, verði ekki dýrari þar en annars staðar. Og hvernig stendur á því, að Vestmanneyingar hafa þagað yfir því þangað til í dag og fsp. er ekki borin fram af hv. 9. landsk. til þess að koma þessu máli á dagskrá, heldur af hv. 8. landsk. þm.. — hvernig stendur á því, ef ríkisstj. hefur brotið samninga á Vestmanneyingum, að þeir hafa ekki leitað réttar síns og að það virðist vera eins og af tilviljun, af því að hv. 8. landsk. þm. kemur hér með fsp., að hv. 9. landsk., sem er úr Vestmannaeyjum, vaknar? Og hv. 3. landsk., sem stendur framarlega í verkalýðshreyfingunni og var einn aðalmaðurinn hér í verkfallinu og samningunum í desembermánuði, það er eins og af tilviljun, að hann vaknar nú í dag, af því að hv. þm. úr öðrum flokki kemur með fsp. Eða ætluðu þessir hv. þm. að sofa á þessum svikum ríkisstj., ef hv. 8. landsk. þm. hefði ekki verið svo góður að vekja þá?

Nei, það sjá allir, og það vita allir, að þessir hv. tveir þm. eru með þessar staðhæfingar hér nú gegn betri vitund, og það þykir mér leiðinlegt. Mér þykir það leiðinlegt, að menn skuli vera að koma hér upp í ræðustólinn, belgja sig hér upp, tala um svík af hendi ríkisstj., en vita þó, að þeir mæla rangt.