25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í D-deild Alþingistíðinda. (3423)

220. mál, vinnudeilur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég er hér með fyrir framan mig samning þann, sem varð til að leysa verkföllin í desembermánuði s. l. Í upphafi þess samnings segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. hefur í samræmi við tillögur sínar varðandi lausn núverandi kjaradeilu verkamanna og vinnuveitenda, er birtar voru 16. þ. m., ákveðið, að eftirfarandi ráðstafanir skuli koma til framkvæmda, ef síðar greind miðlunartillaga verður samþ. og aflétt verður verkföllum þeim, sem nú eru háð að verð á lítra nýmjólkur lækki úr kr. 3.25 í kr. 2.71, verð á kartöflum lækki úr kr. 2.45 í kr. 1.75 á kg, verð á kaffi lækki úr kr. 45.20 í kr. 40.80 á kg, verði á sykri lækki úr kr. 4.14 í kr. 3.70 á kg, verð á saltfiski lækki úr kr. 5.60 í kr. 5.20 á kg, verð á brennsluolíu lækki um 4 aura á lítra, verð á benzíni lækki um 4 aura á lítra og flutningsgjöld til landsins lækki um 5%.“ Og ríkisstj. lofar að sjá um, að þetta verði gert og að með þessu fái hún heimild til að lækka vísitöluna um 5.18 stig.

Menn taka sjálfsagt eftir því, að þetta er orðað þannig um fimm fyrstu liðina, að verðið á að lækka í kr. 2.71 á mjólkurlítra, í kr. 1.75 á kartöflukg. í kr. 40.80 á kaffi, í kr. 3.70 á sykri og í kr. 5.20 á saltfiski, en á hins vegar að lækka um 4 aura á lítra, að því er snertir brennsluolíu og benzín. Þar er það ákveðið, um hve marga aura skuli lækka á einingu.

Það er alveg óyggjandi, að það var álit allra, sem þarna komu við sögu, að hvað sem verðið væri á mjólk, kartöflum, sykri og saltfiski hingað og þangað um landið, þá væri — það hið umsamda verð, sem það skyldi lækkað í samkv. skuldbindingu ríkisstj., sem skyldi gilda um allt land, og það er ekki stafur til um það, að Vestmannaeyjar séu þar undanskildar. Ég hef alltaf litið svo á, að Vestmannaeyjar tilheyrðu íslenzka ríkinu, og þegar íslenzka ríkisstj. semur um ákveðið verðlag fyrir vörutegund um allt land. þá eigi Vestmannaeyjar að fylgja með. Það var miklu víðar en í Vestmannaeyjum, sem verðlagið á mjólkurlítra var annað en kr. 3.25 og annað en kr. 45.20 verð á kg af kaffi. En það hefur alls staðar verið látið gilda verðlagið, sem það átti að lækka í, nema í Vestmannaeyjum, og svo að því er snertir Siglufjörð með sumarverðið, sem var tekið upp núna á sumarmánuðunum á ýmsum vörum, er ekki virðist hafa verið munað eftir skuldbindingum ríkisstjórnarinnar heldur að því er það snertir. Verðið átti að lækka í þetta, að því er þessar fimm vörutegundir snerti, en um ákveðna auratölu á einingu í tveimur tilfellum. Það er tvenns konar orðalag, og er mjög broslegt og kátlegt og grátlegt, ef hæstv. ráðh. hefur farið línuvillt og ríkisstj. öll í þessu máli.