25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í D-deild Alþingistíðinda. (3430)

220. mál, vinnudeilur

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég tel það nú ákaflega mikils virði, að hv. síðasti ræðumaður viðurkenndi það, að kaupmenn og kaupfélög hafi staðið við álagningarprósentuna, sem gert var samkomulag um s. l. desembermánuð. Það hef ég nú ekki heyrt hann gera fyrr. En það er mikils virði, að hann skyldi gera þetta, vegna þess að það er góð aðstoð við mig að kveða niður þær fullyrðingar, sem ýmsir hv. þm. hafa verið með bæði í dag og s. l. miðvikudag, að samkomulagið við ríkisstj. hafi verið svikið og þetta loforð ekki haldið. Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason — (Forseti grípur fram í.) — ég sagði Gylfi Þ. Gíslason. Hæstv. forseti talaði um það hér áðan, að það væri aðeins við útvarpsumræður, sem væri skylt að nefna nafn. Við venjulegar umr. er skylt að segja hv. þm., en ég minnist þess ekki, að það sé nokkurs staðar bannað, að nafnið sé nefnt með. Annars er sjálfsagt að verða við þessum óskum hæstv. forseta og fara að þingsköpum. — En það, sem ég vildi nú segja við hv. 1. landsk. í sambandi við verðgrundvöllinn, er það, að ég er sannfærður um, að ef hann hefði verið í verðlagsnefnd eftir að gengisbreytingin átti sér stað og sýnilegur vaxtakostnaður hækkaði og eftir að sú breyting var gerð á innflutningsreglunum að gera innflytjendum skylt að borga fyrir fram, opna rembusa að tveimur þriðju eða jafnvel 100% fyrir vörum, sem ekki komu til landsins fyrr en eftir 6 mánuði eða ár, þá hefði jafnvel þessi hv. þm. viðurkennt þetta og fengizt til að taka þessa kostnaðarliði með inn í verðlagsgrundvöllinn. En það, að þessi hv. þm. viðurkennir hér, að kaupmenn og kaupfélög hafi staðið við álagningarprósentuna, er mér og öðrum hv. þm. alveg nóg og staðfestir, að það er rétt, sem ég hef farið með. Ég hef nú ekki viljað kveða fastar að orði en svo, að það væri í öllum aðalatriðum, en þetta kemur nú í ljós þegar verðlagsskýrslurnar birtast, sem verður sennilega í fyrri hluta næsta mánaðar.

Þetta er nóg um það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, og vil ég þakka honum fyrir það, hversu hann var óvenjulega sanngjarn í sinni síðustu ræðu.

Hv. 3. landsk. (HV) var að tala hér áðan um samkomulagið og mjólkurverðið, sagði, að það væru bein svik hjá ríkisstj. að hafa ekki greitt mjólkina í Vestmannaeyjum niður í kr. 2.71, eins og talað væri um. Hitt er þó tekið fram á öðrum stað alveg ákveðið, að niðurgreiðslan skuli hækkuð úr 42 aurum í 86 aura. Og það segir hér í 1. lið í samningnum: „Verð á lítra nýmjólkur lækki úr kr. 3.25 í 2.71“ — þar sem mjólkin var kr. 3.25. En það segir ekki, að þar sem mjólkin var 4 kr., eins og í Vestmannaeyjum, skuli hún einnig lækka niður í kr. 2.71. Ef til þess hefði verið ætlazt, þá hefði verið tekið fram í samningnum: og þar sem mjólkin er hærri en kr. 3.25, hækkar niðurgreiðslan sem því nemur. — En það er ekki, og það álit, sem ég las hér upp áðan frá Gunnlaugi Briem skrifstofustjóra, sem var í samninganefndinni, staðfestir, að það var rétt, sem ég sagði hér s. l. miðvikudag, og að hv. 3. landsk. og aðrir, sem hafa haldið því fram, að ríkisstj. hafi svikið, hafa farið hér með rangt mál, að vísu óviljandi, en ég ætlast til, að nú, þegar þeir hafa fengið staðreyndirnar, hætti þeir þessum hvalablæstri og viðurkenni, að þeir hafi haldið þessu fram s. l. miðvikudag vegna þess, að þeir hafi haft rangan skilning á málinu. Og ég sé það á hv. 9. landsk. (KGuðj), að hann er ánægður með þær upplýsingar, sem hann hefur fengið. Hann er ánægður með það, að hann hefur nú fengið leiðbeiningu um það, hvaða ráð hann á að hafa til þess að vinna fyrir Vestmanneyinga í þessu máli, og það er það ráð, sem ég hef bent honum á.

Nú, hv. 8. landsk. (BergS) vantar efni í blaðið, og þess vegna hefur hann verið hér með fullyrðingar, sem enginn tekur mark á og allir hafa gaman af, sem þekkja svona mátulega mikið til mannsins. Hann sagði hér áðan, að sá vöruslatti, sem ég hef verið að tala um s. l. miðvikudag, upp á 1800 kr., hefði aldrei verið fluttur til landsins og þetta væri hrein vitleysa, sem ég hefði farið með. Svona fullyrðingar út í bláinn eru vitanlega ekki þess verðar, að maður sé að fara hér upp í ræðustól til þess að mótmæla þeim, en ég er hér með verðútreikninginn og samanburðinn á þessu, skrifaðan af verðgæzlustjóranum sjálfum, og þess vegna ætti þessi hv. þm. ekki að leyfa sér að koma hér með svona hlægilega fullyrðingu eins og hann var með hér áðan.

Þetta ætla ég nú að nægi. Ég ætlast til, að þessir hv. þm., sem hafa verið með svigurmæli í garð hæstv. ríkisstj. fyrir vanefndir á samningnum, hætti þessu, eftir að ég hef lesið hér upp staðreyndirnar og gert þeim þær algerlega ljósar.