10.02.1954
Sameinað þing: 32. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í D-deild Alþingistíðinda. (3436)

131. mál, álagningar á nauðsynjavörur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mig langar til að beina einni fsp. til hæstv. viðskmrh. í sambandi við þetta mál. Mig langar til þess að spyrjast fyrir um, hvaða skilning hann og hæstv. ríkisstj. leggur í það að standa við samningana, sem gerðir voru í desemberverkfallinu 1952. Þá var sem kunnugt er um það samið, að álagning á vissum vörutegundum skyldi vera ákveðinn hundraðshluti af grunnverði vörunnar, eins og það hafði verið reiknað. — Nú langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann það að standa við þessa samninga að halda þessari hundraðstölu óbreyttri, þótt jafnframt sé breytt til um þann grundvöll, sem hundraðstalan er miðuð við?

Mundi hann telja það að halda samningana, ef haldið væri áfram að leggja t. d. 20% á kostnaðarverð þeirrar vöru, sem um er að ræða, ef jafnframt er breytt til um aðferðina við að reikna álagningargrundvöllinn, t. d. teknir inn í hann kostnaðarliðir, sem áður voru ekki taldir með í honum, eða telur hæstv. ráðh. það eitt nóg til að standa við samningana að hækka ekki hundraðstöluna á álagningargrundvöllinn? Þetta tel ég að þurfi að liggja algerlega ljóst fyrir, þar eð að öðrum kosti verður ekkert um það sagt almennt, hvort við samkomulagið hefur verið staðið eða ekki. Ég hygg, að á það megi færa fullar sönnur, að breytt hafi verið um útreikningsaðferð, verðlagningaraðferð, í mörgum tilfellum, þannig að síðar hafi verið tekið upp á því að reikna með ýmsum kostnaðarliðum í grundvellinum, sem áður var ekki reiknað með, og er það auðvitað aðeins önnur aðferð við að hækka útsöluverðið á vörunni, en þó alveg sambærileg þeirri að halda grundvellinum óbreyttum, en hækka hundraðstöluálagninguna.

Þetta langar mig til að bera fram til viðbótar og óska eftir, að hæstv. ráðherra geri skýra grein fyrir afstöðu sinni til þessa máls einnig.