03.03.1954
Sameinað þing: 37. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í D-deild Alþingistíðinda. (3446)

147. mál, eftirgjöf á aðflutningsgjöldum af bifreiðum

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er nú að vísu óþarfi að vera að bæta við þessi svör, sem hér hafa verið gefin, en af því að þessari fsp. er með nokkuð óvenjulegum hætti beint persónulega að mér, þykir mér rétt að segja um þetta nokkur orð.

Það eru vitanlega ekki til nein lög um það, að nokkur embættismaður eigi að hafa bifreið, hvorki vegamálastjóri, póst- og símamálastjóri né allir þeir tugir, sem hafa bifreið og bifreiðarstjóra, og heldur ekki nein lög um það með ráðh. Það eru þess vegna nokkur hundruð manna, sem væru ólöglega með bifreiðarstyrki og bifreiðar, ef það þyrfti um það sérstök lög. Það þykir eðlilegt að greiða ferðakostnað embættismanna, og verður ekki hjá því komizt, hvorki hér né annars staðar, og þess vegna er það samkv. þeirri reglu, að ráðherrarnir hafa bifreiðar og bifreiðarstjóra.

Það er rétt skýrt frá hjá hæstv. fjmrh., að það var sérstaklega um þessi mál samið, þegar við komum í ríkisstj., ekki fyrir það, að við óskuðum eftir því, heldur fyrir það, að það voru engar bifreiðar til fyrir tvo ráðh. Ein bifreið var fengin frá Bessastöðum handa einum ráðh., ein kom úr erlendri sendisveit, tvær voru fyrir. Fleiri voru ekki til. Í sambandi við þessa fsp., sem er beint að mér sérstaklega, og þar mun verið að gefa í skyn, að ég hafi auðgazt óheiðarlega á kostnað ríkissjóðs, sem er vitanlega aðalatriðið fyrir þm. að vita hvort er eða ekki, vil ég segja það núna hér á þessum stað, að ég skal bjóða ríkisstj. það, að hún láti dómkvadda menn meta, hvað kosti að eiga bifreið yfir árið, og ef hún vill endurgreiða það, sem þetta hefur kostað, og það, sem ég hef verið lægri í launum en allir aðrir ráðh., vegna þess að ég hafði þessa sérstöðu, því að það er náttúrlega gefið mál, að ef einum ráðh. eru lagðar til bifreiðar með bifreiðarstjórum, en aðrir leggja sér það til og borga vexti af því, sem bifreiðin kostar, og afskriftir af henni, þá eru það nokkrar fjárhæðir. Og nú getur ríkisstj. valið. Ég býst ekki við, að menn haldi því fram, að ég eða sumir af ráðh. eigi að vera lægri í launum en aðrir. Ég býst ekki við, að því verði haldið fram. En ég býð ríkisstj. það, að hún láti bifreiðaeftirlitið meta, hvað það muni hafa kostað okkur í útborguðum peningum að leggja bifreiðina til, og þá getum við verið laus við þetta jag um eftirgjöf á innflutningsgjöldum. En ég er ekki viss um, að ríkisstj. græði á því. Ég býst ekki við, að neinn haldi því fram, að ríkið eigi ekki að greiða þessa skuld, og ég er ekki í neinum vafa um, að ríkið á að greiða hana, af þeirri einföldu ástæðu, að einn ráðh. á ekki að þurfa að sætta sig við að vera lægra settur í launum en aðrir. Meira að segja skuldin er svo örugg á ríkið, að hver einasti dómstóll mundi dæma ríkið til að greiða mér og Birni Ólafssyni þessa upphæð. Þess vegna er ekki verið að fara fram á annað hér en það, að ríkið greiði sína skuld, og það hélt ég satt að segja að það hefði heimild til að gera. Ef menn draga þetta í efa, að upphæðin, sem ætti að greiðast samkv. því, sem ég hef nú talið, sé rétt, þá er þeim í lófa lagið, eins og ég segi, að láta dómkvadda menn meta það, meta, hvað ríkið skuldar fyrir það, að við höfum lagt því til bifreið, sem við áttum ekki að gera, og þá þarf enginn að vera að deila um það, hvort rétt sé eða rangt.