10.03.1954
Sameinað þing: 39. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í D-deild Alþingistíðinda. (3458)

221. mál, sementsverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Í málefnasamningi þeim, sem gerður var milli Sjálfstfl. og Framsfl. þegar núverandi ríkisstj var mynduð á s. l. sumri, er getið nokkurra mála, sem hæstv. ríkisstj. lofaði að beita sér fyrir. Stjórnarsamningurinn birtist í stjórnarblöðunum 12. sept. Þar segir svo í kaflanum um raforkuframkvæmdir, með leyfi hæstv. forseta:

„Tryggt verði til þessara framkvæmda (þ. e. raforkuframkvæmdanna) fjármagn sem svarar 25 millj. kr. á ári að meðaltali næstu ár. Í þessu skyni verði lögboðin árleg framlög af ríkisfé aukin um 5–7 millj. kr. og rafmagnsveitum ríkisins tryggðar 100 millj. kr. að láni, og sitji það fyrir öðrum lánsútvegunum af hendi ríkisstjórnarinnar, að undanteknu láni til sementsverksmiðjunnar.“

Þannig hljóðar sá boðskapur. M. ö. o., lán til byggingar hinnar fyrirhuguðu sementsverksmiðju skyldi vera efst á blaði að því er varðaði framkvæmdalán samkv. skýlausu orðalagi stjórnarsamningsins.

Ég hygg, að þetta hafi engri gagnrýni sætt. Sementsverksmiðjumálið hefur nú verið mörg ár á dagskrá og framkvæmdir tafizt óeðlilega lengi. Öllum er ljóst, að hér er um að ræða fyrirtæki, sem getur haft ómetanlega þýðingu fyrir þjóðina, ekki sízt að því er snertir byggingar og vegagerð. Um það virðast allir hafa verið sammála, að sementsverksmiðja þyrfti að komast upp sem fyrst, og því mun mönnum hafa þótt það ákvæði stjórnarsamningsins eðlilegt, að þetta þjóðþrifafyrirtæki væri nr. 1 að því er varðaði lánsútveganir erlendis.

Nú liðu mánuðir, og ekkert heyrðist um sementsverksmiðjumálið. Hinn 21. febr. s. l. birti stjórnarblaðið Tíminn fréttabréf frá Alþingi, þar sem m. a. var svo að orði kveðið, að komið hefði fram nokkur tregða hjá Sjálfstfl. varðandi það að standa við fyrirheit stjórnarsáttmálans um raforkumálin. Þetta voru vissulega nokkur tíðindi, ef sönn reyndust, enda lét Morgunblaðið ekki standa á svari. Segist blaðið hafa snúið sér til forsrh. út af ummælum Tímans og hefur síðan eftir honum nokkur athyglisverð ummæli, ekki aðeins að því er raforkumálin snertir, heldur einnig og ekki síður varðandi sementsverksmiðjuna og útvegun lánsfjár til byggingar hennar. Morgunblaðið 23. febr. hefur þessi ummæli eftir forsrh., með leyfi hæstv. forseta:

„Þessi ummæli Tímans (þ. e. a. s. um tregðu Sjálfstfl. í raforkumálum) eru algert ranghermi. Ég vil upplýsa það, að í stjórnarsamningnum er svo fyrir mælt, að lántaka til sementsverksmiðjunnar skuli ganga fyrir öðrum framkvæmdum, en í sementsverksmiðjumálinu er í bili nokkur snurða á þræðinum. Samkv. beinni uppástungu minni hefur því verið samþ. í ríkisstj., að eftir þessu ákvæði í stjórnarsamningnum skuli ekki farið, heldur tekið tillit til breyttra aðstæðna og fjár aflað til annarra stjórnarframkvæmda, eftir því sem auðið þykir.“

Hér gefur hæstv. forsrh. ótvírætt í skyn, að einhver atvik hamli því, að staðið verði við það loforð stjórnarsamningsins, að útvegun láns til sementsverksmiðju skuli ganga fyrir öðrum stjórnarframkvæmdum. Hér er um mikilvægt mál að ræða, sem Alþingi getur naumast látið afskiptalaust. Verður að telja mjög æskilegt, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að skýra Alþ. frá því, hvernig mál þetta stendur nú. Hvaða snurða er það, sem hlaupið hefur á þráðinn? Er hér um varanlega frestun framkvæmda að ræða, eða má vænta þess, að málið leysist innan skamms?

Ég mun ekki í sambandi við þessa fsp. ræða upplýsingar, sem fram komu varðandi raforkuframkvæmdirnar í þeim orðum, sem Morgunblaðið hafði eftir hæstv. forsrh. 23. febr., og voru þær þó stórathyglisverðar. Skýrir hann m. a. svo frá, að Landsbankinn hafi tekið till. ríkisstj. um fjáröflun til raforkumála treglega, og virðist því einnig hafa hlaupið snurða á þann þráð. Að sjálfsögðu væri fróðlegt að fá upplýsingar um það, hvernig þau mál eru á vegi stödd, en að þessu sinni hef ég ekki borið fram formlega fsp. um það efni, heldur aðeins um sementsverksmiðjumálið. Í sambandi við það hef ég leyft mér að beina til ríkisstj. eftirfarandi fsp.:

„Hvað hefur verið gert af hálfu ríkisstj. í því skyni að afla lánsfjár til byggingar sementsverksmiðju? Hverjar vonir standa til þess, að nauðsynlegt fé fáist, svo að byggingarframkvæmdir geti hafizt?“

Ég vil vænta þess, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að gefa Alþingi upplýsingar um það, hverjar horfur eru á framkvæmdum í þessu mikilsverða máli.