10.03.1954
Sameinað þing: 39. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í D-deild Alþingistíðinda. (3461)

221. mál, sementsverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég held, að það væri gott, að hæstv. ríkisstj. vendi sig á að ræða þessi mál dálítið hispurslausara við okkur þingmennina en hún gerir. Við heyrðum það alveg í gær á hæstv. fjmrh., að það stendur á því um lán til sementsverksmiðjunnar, að Alþjóðabankinn setur þau skilyrði, að fyrirtækið sé ekki ríkiseign, eins og það er samkv. lögum frá Alþingi, og þetta er hlutur, sem við höfum rekið okkur á áður í þessum efnum. Þegar svona hlutir koma fyrir, þá á ríkisstj., og ef hún ekki vill gera það opinberlega, þá á hún bara að gera það á lokuðum fundi, að segja þingmönnum frá því, að svona standi það, og heyra þeirra ráð í því efni.

Ég vil fyrir mitt leyti gefa ríkisstj. þau ráð, þegar hún stendur þannig uppi með sitt fremsta mál hér í þinginu, að hæstv. fjmrh. getur engar upplýsingar gefið við fsp. þingmanna, að hún í svipinn hætti samningum við Alþjóðabankann og snúi sér til banka í Evrópu, hvort heldur er til Vestur- eða Austur-Evrópu, og láti þennan Alþjóðabanka alveg fá að vita það, að við séum ekkert upp á þá komnir til þess að framkvæma svona hluti, að leita til þeirra einna saman. Og ég vil benda hæstv. ríkisstj. á, að hennar viðskipti við Evrópu eru það mikil nú, að það ætti ekki að vera skotaskuld að fá annað eins smálán og um er að ræða í sambandi við sementsverksmiðjuna. Ég gæti bezt trúað, að það mundi verða ósköp hollur lærdómur fyrir þessa háu herra þar í Alþjóðabankanum, sem eru öðru hvoru að dirfast að setja sig á háan hest gagnvart okkur Íslendingum, að láta þá bara vita af því, að við getum ósköp vel komizt af án þeirra. Þessar 40, 50, 60 millj. kr. eða hvað það kann að vera, sem þarf í sementsverksmiðju, eru ekki þau ósköp, að það sé ekki hægt að útvega þess háttar upphæðir fyrir ríki, sem stendur eins vel og er eins ríkt og Ísland, og hefur önnur eins viðskipti út á við og Ísland hefur. — Ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti mjög alvarlega að athuga það mál og sérstaklega þó að vera ekkert feimin að ræða svona vandamál við þingmenn, þegar þau koma fyrir. Þetta eru engin sérstök leyndarmál gagnvart þjóðinni. Það hefur áður komið fyrir í okkar sögu, að erlendir stórbankar hafa verið að setja ríkisstjórnum stólinn fyrir dyrnar. Það hefur þá venjulega verið reynt að brjótast út úr vandræðunum samt sem áður, þótt verr hafi staðið á hjá þjóðinni en núna.

Ég vildi aðeins skjóta þessu fram, fyrst þessi fsp. var hér til umræðu og fyrst hæstv. fjmrh. gaf nú ekki skýrari svör en þetta, svona til athugunar upp á seinni tímann.