10.03.1954
Sameinað þing: 39. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í D-deild Alþingistíðinda. (3462)

221. mál, sementsverksmiðja

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það má vel vera, að þingmenn stjórnarflokkanna viti um það, hvers eðlis sú snurða er, sem hlaupin er á þráð þessa sementsverksmiðjumáls, en svo mikið er víst, að út fyrir heimilisvébönd stjórnarinnar hefur þetta leyndarmál ekki komizt. En það verður að líta svo á, að Alþingi allt eigi heimtingu á að fá að vita, hvaða óyfirstíganlega örðugleika hæstv. ríkisstj. sé alltaf að berjast við í þessu máli.

Því var lofað, að þetta skyldi vera eitt fyrsta málið, sem hæstv. ríkisstj. kæmi á rekspöl og leysti, og manni skildist í haust, að það lægju nokkurn veginn fyrir ákveðin loforð um lánsfé til þessa mannvirkis. Manni skildist jafnvel af ráðherrum, sem voru í fyrrv. ríkisstj., að málið hefði eiginlega verið leyst af hinni fráfarandi ríkisstj. og það væri ekkert annað að gera fyrir núverandi ríkisstj. en tilkynna þá lausn málsins, sem legið hefði fyrir. En nú er sagt, að það sé búið að leggja mikla vinnu í lánsútvegun vegna sementsverksmiðjunnar. En árangurslaus vinna, segir hæstv. fjmrh. Allt fumið hefur verið árangurslaust, en það er ekki hægt á þessu stigi málsins að skýra frá því. Ég held, að það væri alveg sjálfsagður hlutur, að það væri skýrt nákvæmlega frá því, í hverju þessir óyfirstíganlegu örðugleikar liggja. Og að mikil vinna, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt í þetta, sé árangurslaus, — það er ekki hægt að taka það sem góða og gilda vöru, nema menn fái einhverja vitneskju um það, í hvaða stríði hún hefur átt. Það er sjálfur hæstv. forsrh. núverandi ríkisstj., sem hefur sagt, að snurða hafi hlaupið á þráðinn, svo að framkvæmdir dragist. Alþ. á heimtingu á að fá að vita, hvað felst í þessu goðsvari. Og þegar hæstv. ráðh. er spurður samkv. þeim rétti, sem þm. hafa samkv. þingsköpum, um jafnþýðingarmikið mál og þetta, þá er ekki gott að sætta sig við það, að engin svör fáist. Það er alveg ómögulegt að hugsa sér, að þetta almenna viðskiptamál sé þess eðlis, að ekki sé frá neinu að skýra. Við munum fyllilega taka það til greina, ef hæstv. ríkisstj. gerir þingheimi grein fyrir örðugleikum, sem að okkar dómi hefur verið ómögulegt að yfirstíga, og þá er stj. höfð undan allri sök og þá mundi verða skýrt frá því. En það verður alltaf lagt stj. út til ámælis að láta mánuð eftir mánuð líða svo, að ekki sé staðið við hið fyrsta og stærsta loforð, sem ríkisstj. gaf, þegar hún varð til og birti sinn stjórnarsáttmála.