10.03.1954
Sameinað þing: 39. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í D-deild Alþingistíðinda. (3463)

221. mál, sementsverksmiðja

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er nú svo sem ekki ástæða til að svara þessu, sem fram kom hjá síðasta ræðumanni. En ég vil þó bara upplýsa, að ef ríkisstj. væri þeirrar skoðunar, að það væri til gagns fyrir málið að gefa ýtarlegri upplýsingar en ég hef gert, þá mundi hún gera það. En af því að hún álítur, að það geti ekki verið til gagns fyrir málið, eins og það stendur nú, að gera það, þá gerir hún það ekki. Ríkisstj. hefur þetta mál með höndum, og það er vitanlega stjórnarinnar að bera ábyrgð á því, hvenær hún gefur Alþ. skýrslu um málið, og það mun stj. gera. Hún mun gefa Alþ. skýrslu um málið svo fljótt sem hún telur málinu til góðs, að það verði gert.

Ég gaf upplýsingar um, hvað í þessu hefði verið unnið, þegar gengið var frá landbúnaðarlántökunni, eins og raunar síðasti ræðumaður gat um, og lýsti því þá yfir sem minni skoðun, að ég teldi góðar horfur á því, að lánið fengist. En eins og hv. þm. heyrðu, þá var það, sem ég sagði um þetta nú, á þá leið, að ég teldi ekki tímabært að rekja í einstökum atriðum, hvað fram hefði farið í málinu, teldi það ekki ávinning fyrir málið á þessu stigi, að þessu lánsútvegunarstarfi væri ekki lokið og því ekki hægt að vita, hver niðurstaðan yrði, að ríkisstj. mundi gera allt, sem í hennar valdi stæði til þess að útvega lán til sementsverksmiðjunnar, og að frekari svör væri ekki hægt að gefa að svo stöddu. Svo verður mönnum að líka þetta betur eða verr, eftir því sem skaplyndi þeirra er til.